29.10.1957
Efri deild: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (1700)

19. mál, tollskrá o. fl.

Frsm. meiri hl. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Þar sem hæstv. fjmrh. talar hér um viðskipti ríkissjóðs og bæjarfélaga eins og hann hafi ekki hugmynd um, hvernig málum er háttað, skal ég aðeins fara um það nokkrum orðum.

Það er svo ákveðið í lögum, að um ýmsar framkvæmdir og starfsemi er verkaskipting milli ríkissjóðs og sveitarfélaganna. Varðandi t. d. skólana er það ákveðið, að sveitarfélögin greiði helming stofnkostnaðar þeirra, en ríkissjóður helming. Það er enginn fyrirvari í þessum lögum um, að ríkissjóður skuli greiða eftir því, sem fé er veitt í fjárlögum. Það er rangt hjá hæstv. ráðh. Um hafnarmannvirki er ákveðið, að sveitarfélögin greiði vissan hluta, en ríkissjóður einnig sinn hluta, Í þeim lögum er að vísu fyrirvari, eftir því sem fé er veitt í fjárlögum. Um sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir er svo ákveðið, að sveitarfélögin greiði yfirleitt 3/5 af stofnkostnaði, en ríkissjóður 2/5. Um íþróttamannvirki, fimleikahús, sundlaugar og annað þess háttar er ekki ákveðið í lögum, en menntmrn. og forgöngumenn þessara mála hafa frá upphafi ákveðið, að íþróttasjóður eða ríkissjóður greiði 40% af stofnkostnaði þessara mannvirkja á móti sveitarfélögunum. Hér er um verkaskiptingu að ræða, og það er auðvitað sjálfsögð krafa, að ríkissjóður standi í skilum og greiði sinn hluta af þessum stofnkostnaði jafnóðum og sveitarfélögin. Hitt eru í rauninni refjar og hrein fásinna að ætlast til þess, að bæjar- og sveitarfélög séu að leggja út stórfé fyrir ríkissjóð vegna stofnkostnaðar þessara mannvirkja og bygginga, sem þessir báðir aðilar hafa samkv. lögum tekið að sér sameiginlega.

Þannig liggja þessi mál fyrir. Í fyrsta lagi hefur hæstv. núv. fjmrh. vanrækt það og staðið á móti því, að nægar fjárveitingar fengjust í fjárlögum þessi ár, sem hann hefur verið fjmrh., síðan 1950. Hann hefur staðið gegn því, að Alþ. veitti í fjárlögum nægilegt fé til þess að mæta framlögum bæjar- og sveitarfélaganna. Þar sem ekki er áskilnaður eða fyrirvari um það, að greitt skuli eftir því, sem fé er veitt í fjárlögum, hefur hann einnig staðið gegn því, að ríkissjóður greiddi sinn hluta. Og þegar verið er að ráðstafa t. d. á undanförnum árum greiðsluafgangi ríkissjóðs, þá hefur venjulega með mestu herkjum og eftirtölum tekizt að fá einhvern örlítinn hluta af því til þess að greiða þessar vanskilaskuldir ríkissjóðs við bæjar- og sveitarfélögin. Þetta veit hver einasta bæjarstjórn og sveitarstjórn á Íslandi. Svo þykir mér hæstv. ráðh. bæta gráu ofan á svart, þegar hann hælist um yfir því, að bæjar- og sveitarfélögin skuli ekki stefna honum fyrir dómstólana til að standa í skilum. Ég hef tekið það fram hér áður, að um margar þessar greiðslur er ekki ákveðið í lögum, að ríkissjóður skuli alltaf greiða jafnóðum og framkvæmdum miðar áfram, þó að hlutfallið sé ákveðið í lögunum. Þess vegna er um a. m. k. sumar þessar greiðslur tilgangslaust að leita til dómstólanna til að fá hæstv. ráðh. dæmdan. En það sýnir, hversu ráðh. er forstokkaður og forhertur í syndinni, að hann ekki aðeins refjast við að greiða og stuðla að því, að veitt sé fé til greiðslna til sveitar- og bæjarfélaganna, heldur hælist hann um og reynir að ögra bæjar- og sveitarfélögunum með því, að þau hafi ekki stefnt honum fyrir dómstólana.