29.10.1957
Efri deild: 13. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (1701)

19. mál, tollskrá o. fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) :

Herra forseti. Það virðist nú vera útrætt um borinn, því að hv. þm. minntist ekki á hann í síðustu ræðu. En út af því, sem hann sagði um greiðslu á kostnaðarþátttöku ríkissjóðs við hin ýmsu mannvirki, þar sem hann færði allt úr lagi, sem að því lýtur, þá vita allir hv. alþm., að það hefur enginn ágreiningur verið um það áratugum saman hér á hv. Alþ. og í öllum ríkisstj., sem setið hafa, að það bæri að skilja löggjöfina um framlög ríkisins til skólakostnaðar, til hafnarmála og til annarra slíkra mála þannig, að ríkið ætti að greiða jafnóðum og féð væri veitt til þess á fjárlögum. Og ég lýsi því hér með yfir, að flokksbræður hv. þm., sem hafa setið með mér í ríkisstj., hafa ekki haft annan skilning á þessum málum, en þennan. Þeir hafa litið þannig á, að það ætti að greiða féð eftir því, sem fé væri veitt til á fjárlögum. Einnig kom nú fram hjá hv. þm. það, sem sker úr í þessu. Hann sagði, að hér væri ekki um löglega skuldakröfu að ræða. Hann klykkti allan belginginn áðan út með því að lýsa því yfir, að hér væri ekki um löglega skuldakröfu að ræða, sem hægt væri að ganga eftir eftir venjulegum leiðum. Vegna hvers ekki? Vegna þess að málið er vaxið eins og ég upplýsti og eins og allir hv. þm. hafa litið á áratugum saman. Ef það stæðist, að það ætti að greiða jafnóðum, hvað sem fjárveitingum líður, þá væri hér um að ræða skuldbindingar, sem fallnar væru í gjalddaga.

Varðandi það, að ég hafi staðið á móti framlögum til þessara framkvæmda, þá veit ég ekki betur en að það hafi yfirleitt verið höfuðrógsefni á hendur mér nú upp á síðkastið af hendi málgagns þessa hv. þm. og Sjálfstfl., að ég hafi gengið allt of langt í því að samþykkja ríkisútgjöld. Ég hef verið ausinn rógi dag eftir dag, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð í málgagni þessa hv. þm. fyrir það, að ég hafi gengið allt of langt í því á undanförnum árum að taka það í mál, að svo mikið væri sett á fjárlögin og ríkisútgjöldin sett svo há sem þau hafa orðið. Samræmið er svo sem álíka hjá honum og hv. flokksbræðrum hans öðrum, sem hafa rætt það mál.