05.11.1957
Efri deild: 17. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í C-deild Alþingistíðinda. (1710)

19. mál, tollskrá o. fl.

forseti (BSt) :

Viðvíkjandi 2. dagskrármálinu er það að segja, að það hefur nokkrum sinnum verið tekið af dagskrá, t. d. á föstudaginn var samkv. beiðni hv. 1. flm. frv., sökum þess að hann taldi, að einn þm. d. væri veikur, og í gær sökum þess, að Sjálfstæðisflokksmenn vildu vera við jarðarför, og oftar hefur það verið tekið af dagskrá, sem ég man nú ekki nákvæmlega orsakir til. Þar sem þetta hefur gengið svo og ekki þykir fært að taka þetta mál til atkvgr., ef menn vantar í d., þá er það tekið af dagskrá og verður ekki tekið á dagskrá, nema líkur bendi til, að d. sé fullskipuð. Og tel ég það á ábyrgð flutningsmanna, að svo dregst. (GTh: Má ég fá skýringu á síðustu orðum hæstv. forseta, að það sé á ábyrgð flutningsmanna, að deildin sé fullskipuð. Hvað á forseti við með því?) Ég sagði það ekki. Ég sagði, að það væri á ábyrgð flutningsmanna, að málið dregst, þar sem auðvelt hefði verið að greiða atkv. um það bæði á föstudaginn og í gær.