22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (1726)

120. mál, dýralæknar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs aðallega til að þakka hv. landbn. fyrir góða afgreiðslu á þessu máli. Með afgreiðslu n. á málinu er viðurkenning hennar fengin fyrir því; að full sanngirni mæli með því að skipta dýralæknisumdæmi Austurlands.

En út af þeirri sérstöðu, sem hv. 6. landsk. þm. lýsti, vil ég ítreka það, sem fram kom hjá frsm. hv. landbn., að nú er einungis eitt dýralæknisumdæmi óveitt, og þegar eru nokkrir ungir menn við dýralæknanám erlendis, sem vænta má að komi til starfa hér á landi innan skamms.

Hv. 6. landsk. dró það einnig fram sem rök fyrir sinni sérstöðu, að Austur-Skaftafellssýsla væri svo fámenn, að litlar líkur væru til þess, að þangað fengist dýralæknir, þó að þetta frv. yrði samþ. Út af því vil ég benda á, að samkvæmt frv. eiga tveir syðstu hreppar Suður-Múlasýslu að vera í dýralæknaumdæmi Hornafjarðar, og enn fremur má benda á það til samanburðar, að hérað eins og t. d. Dalasýsla mun ekki vera miklum mun fjölmennara, en það hérað verður, sem stofnað verður samkvæmt frv., sem hér liggur fyrir.

Ég vil því eindregið vænta þess, að hv. þdm. fallist á sjónarmið meiri hl. landbn. og samþykki þetta frv.