16.05.1958
Efri deild: 98. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (1735)

120. mál, dýralæknar

Frsm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti. Þetta frv. er komið hingað til d. frá Nd., og eins og það kom hingað, fór það fram á, að bætt væri einum dýralækni við tölu þjónandi dýralækna í landinu og honum ætluð Austur-Skaftafellssýsla og partur syðst af Suður-Múlasýslu.

Við athugun á þeim dýralæknum, sem starfandi eru, og hvernig landinu er skipt á milli þeirra í ákveðin dýralæknisumdæmi, kom mjög greinilega í ljós, að stóru svæðin á landinu liggja svo afskekkt og svo langt frá dýralæknum, bæði vegna vegalengda og samgangna, að þeir hafa dýralæknis mjög lítil not. Það hlýtur því að koma að því fyrr eða siðar, að fjölga þurfi dýralæknum allverulega, og undir meðferð málsins komu fram hér í hv. d. frá tveimur alþm., er hér sitja, hv. þm. Barð. og hv. þm. V-Sk., till. um tvö ný dýralæknisembætti. Það lágu þannig fyrir nefndinni umsóknir um þrjú ný dýralæknisembætti í raun og veru, þó að ekki væri nema eitt í frv. sjálfu.

Nú er það svo, að það er nokkuð margt, sem þarf að taka tillit til, þegar ákveða á, hve margir dýralæknar eru í landinu og hve stór umdæmi hver þeirra hafi. Það var sú tíð, að enginn dýralæknir var í landinu, svo var hann einn um margra ára skeið, síðan tveir o. s. frv., smáfjölgandi.

Það, sem þarna kemur einkum til greina, er í fyrsta lagi þetta, að því meira sem skepnan er notuð, því meiri afkasta sem krafizt er af henni, því meiri hætta er á, að hún veikist af ýmsum sjúkdómum og því meiri þörf verður fyrir dýralækni. Þetta hefur verið að smábreytast hér á landi og dálítið misjafnt um landið. Fyrir aldarfjórðungi var meðalkýrnytin á landinu ekki nema liðugt 2.000 lítrar, nú er hún komin á fjórða þús. lítra, og nú eru komnar sveitir, sem eru komnar yfir 4.000 lítra eftir meðalkúna, og þeim kúm er miklu hættara við misfellum, en hinum.

Meðalafrakstur eftir kind á fóðri var milli 10 og 11 kg af kjöti fyrir 25 árum, en er núna kominn upp í kringum 15 eftir hverja fóðraða kind. Afraksturinn hefur aukizt í landinu sem heild, og þar með er meiri hætta á ýmiss konar sjúkdómum í sauðfénu.

Þetta er ákaflega misjafnt eftir landshlutum, og það er líka misjafnt eftir einstökum bæjum. Ég var seinast á laugardagskvöldið var, að fara yfir einn hrepp á landinu, og þar munaði fullum helmingi, sem sá bóndinn, sem hafði mestan arð af sínu fé á kind, hafði umfram þann, sem hafði hann minnstan, og ég hef séð hann enn meiri innan sama hrepps. Og þegar ég ber saman hreppana á sama hátt, kemur sams konar munur í ljós. Það eru til hreppar, þar sem sauðféð er aðalbústofninn, sem hafa yfir 20 og allt upp í 22 kg af kjöti eftir hverja kind, sem þeir hafa á fóðri, og svo eru til aðrir, sem ekki ná 10 kg eftir kindina.

Þetta gerir það að verkum, að þörfin fyrir dýralækna er þegar af þessari ástæðu misjöfn um landið, og til þessa þarf vitanlega að taka tillit, þegar maður ætlar dýralæknunum ákveðinn stað. Það á að taka tillit til, hvað mikið menn halda að liggi fyrir af starfi í hverju einstöku héraði.

Samhliða verður þó náttúrlega að taka tillit til þess, hvernig er að fara um héraðið og hve skepnumargt það er.

Eftir því sem meðferðin á fénu batnar, verður þörfin á dýralæknum þess vegna meiri. Menn leggja meira kapp á að fá læknað það, sem að er hverri skepnu, sem von er á að gefi mikinn arð, heldur en þeirri skepnu, sem er ekki von á að gefi nema lítinn arð. Bóndi t. d. í fyrra vestur í Strandasýslu, sem missti — af því að hann náði ekki í dýralækni — 14 ær, sem voru með 27 lömb innan í sér, og sá hreppur er venjulega með yfir 20 kg af kjöti eftir kindina, hann mundi hafa viljað borga þó nokkuð fyrir að ná í dýralækni þar. En hefði hann verið í öðrum hreppum, þar sem ekki er einu sinni lamb innan í hverri á og ekki nema 9–10 kg eftir kindina af kjöti, þá hefði hann ekki viljað offra miklu í að ná í dýralækni til þess að bjarga ánum.

Þetta er svo misjafnt, og það verður að rannsaka það, og meta, hve mikil þörf er að mæta þeim óskum bændanna, sem almennar eru um land allt, að fjölga dýralæknunum, búa til ný dýralæknisumdæmi. Því ákvað nefndin að vísa þessu máli frá með rökstuddri dagskrá, og hún gerði það líka með tilliti til þess, að eins og málið liggur núna, útskrifast enginn nýr dýralæknir á þessu ári, en eitt dýralæknisumdæmi er þegar laust til í landinu, sem ekki fæst maður í. En það eru 6 menn við nám, sem koma smám saman, 3 af þeim komnir svo langt, að það er nokkurn veginn vissa fyrir því, að þeir klári sitt nám, hinir tiltölulega nýlega byrjaðir, og það heltast nú sumir þar úr lestinni, hafa gert og gera, eins og t. d. Jóhann Sigurjónsson skáld á sínum tíma, Eggert Briem frá Viðey o. fl., o. fl., sem hafa byrjað á dýralæknisnámi og hætta svo við það. Þess vegna veit maður ekki, hvað við fáum marga dýralækna núna á næstunni, en við teljum víst, að þrír komi a. m. k. á næstu tveimur, þremur árunum, þegar maður telur árið í ár með.

Við leggjum þess vegna til, að frv. verði afgr. með rökstuddri dagskrá til ríkisstj. Og í trausti þess, að ríkisstj. láti athuga gaumgæfilega þörf bænda fyrir fleiri dýralækna, en nú eru og hvernig landinu skuli skipt í umdæmi með það fyrir augum, að þessari þörf bænda verði sem bezt fullnægt, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.

Við ætlumst sem sagt til þess, að ríkisstj. láti einhverja, yfirdýralækninn eða einhverja, kynna sér þetta sem allra bezt og rannsaka þetta aftur, og við vonum, að þær till. verði tilbúnar um sama leyti og fyrstu mennirnir verða tilbúnir til þess að taka stöðu í nýjum dýralæknisumdæmum.