21.04.1958
Efri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (1740)

175. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að gera það að minni till., að málið fari til heilbr.- og félmn. En annars voru það tvö atriði, sem mig langaði til að benda þeirri n. á, sem fær málið til meðferðar, og þó reyndar sérstaklega eitt.

Það atriði, sem ég legg mesta áherzlu á og bið n. að athuga, er þetta: Það koma árlega margar kærur alla leið upp í ríkisskattanefnd frá mönnum, sem hafa þá aðstöðu, að þeir telja heimill sitt á einum stað og vinna að öllu leyti á öðrum. Þessir menn kæra til niðurjöfnunarnefndar, yfirskattanefndar og svo til okkar, en kæra þó oftast ekki nema yfir öðru útsvarinu, í öðrum hreppnum. Nú hefur ríkisskattanefnd ekki leyfi til að hreyfa útsvör, nema útsvör, sem kært er yfir. Afleiðingin af þessu er þess vegna oft sú, að maður er með yfirborðslögheimili, líkt og þegar Þórður úri fór að telja sig uppi á Kolviðarhóll og var dæmdur að eiga ekki lögheimili þar, og ýmis fleiri slík dæmi, og þess vegna alveg augljóst, hvar hann á að borga útsvarið. En þá hefur hann bara ekki kært yfir útsvarinu á hinum staðnum, og svo verðum við að láta bæði útsvörin standa á honum. Þetta er alveg ófært. Við þurfum að fá leyfi til þess með lögum — ríkisskattanefndin — að fella niður útsvar á manni, þó að það hafi ekki verið kært yfir því, ef það upplýsist undir meðferð málsins, að hann hafi átt að borga útsvarið á öðrum staðnum af tveimur, sem á hann hefur verið lagt. Við erum oft að reyna að synda þarna einhvern milliveg, lækka það, svo að maður borgi ekki allt of mikið í útsvör, miklu meira en honum bar á öðrum staðnum. Það er náttúrlega óréttlæti gagnvart þeim hreppnum, sem þá á hlut að máli. En ævinlega fá þessir menn miklu hærra útsvar, en ætti að vera.

Það var seinast á laugardaginn, hygg ég, að við höfum verið með þrjá menn, sem svona stóð á um. Lá alveg augljóst fyrir, hvar þeir áttu að borga útsvarið. Þeir höfðu kært á þeim staðnum, sem þeir áttu að borga það, en jafnframt haft útsvar heima í sveitinni, þar sem þeir vildu telja sitt lögheimili, sem var í einu tilfellinu hærra en útsvarið, sem var lagt á hér í Reykjavík, af því að það var alveg áætlað út í loftið þar í þeirri sveit, sem hann vill kalla lögheimili.

Þetta vil ég biðja n. að athuga, — væntanlega heilbr.- og félmn., því að ég geri till. um, að það fari þangað, ég vona, að það verði, þessi mál eiga þar heima, — og reyna að fá inn í l. heimild um það, að þegar svona stendur á, þá sé, ja, líklega ríkisskattanefnd og kannske strax í undirnefndunum, að við fáum heimild til þess að fella niður útsvar af mönnum, sem lagt er á, þó að þeir hafi ekki kært, ef það upplýsist undir meðferð málsins, að þeir eigi ekki að borga útsvar þar. En það megum við ekki núna.

Hitt er það, að þjóðskráin, sem hér á nú að leggja til grundvallar og ég tel að verði að leggja til grundvallar, er ákaflega óábyggileg. Það liggja hjá okkur núna kærur frá þremur mönnum, sem hafa farið til Ameríku, verið þar í atvinnu í tvö ár, einn í þrjú ár, og ekki tilkynnt neinn flutning og eru því á þjóðskránni taldir eiga heimili í ákveðnum húsum í Reykjavík. Það er dálítið vandgert, hvernig á að fara með þessa menn. Sömuleiðis hafa núna ekki alls fyrir löngu legið hjá okkur kærur frá tveimur sjómönnum, öðrum, sem hafði verið á skipum frá Noregi og Ástralíu, og hinum, sem hafði verið á skipum í Noregi og Ameríku, báðir um þriggja ára skeið, og aldrei tilkynnt flutning og standa hér í þjóðskránni. Þeir koma með vottorð um, að það hafi verið lagt á þá útsvar í löndunum, sem þeir hafa verið skráðir á skip frá, og sýna það, að það hefur verið lagt á þá þar, og tvísköttunarsamningur er ekki fyrir hendi nema fyrir ósköp fá lönd og ekki þessi lönd, sem þarna var um að ræða. Það getur vel verið, að það sé ekki hægt að finna neina leið aðra en láta þjóðskrána ráða og láta þá bera útsvarið á báðum stöðunum og skatta á báðum stöðunum, en það er náttúrlega dálítið hæpið. Þetta vildi ég líka biðja hana að athuga. Þetta tvennt er í beinu sambandi við þetta frv., sem hérna liggur fyrir. Annað, sem ég fyndi ástæðu til að tala um í útsvarslögunum, um önnur atriði laganna, skal ég sleppa að minnast á, en þetta tvennt heyrir beint undir það, sem hér er um að ræða.

Enn skal ég benda á það, að það er náttúrlega dálítið hæpið og ekki tekið fram hérna, hvernig á að fara með menn, sem eiga lögheimili hérna úti á Seltjarnarnesinu, en hafa allar sínar atvinnutekjur hérna í bænum, hvern einasta eyri, — eða hérna suður í Kópavoginum eða suður í Hafnarfirði. Við höfum hér í deildinni einn þm., sem er bankastjóri hér í Reykjavík, en býr í Kópavogi, og slík tilfelli eru nokkuð mörg. Þessir menn hafa borgað sitt útsvar, þar sem þeir eiga lögheimili, og sveitin, sem borgar þeim kaupið, og sveitin, sem þeir starfa í, hefur ekki fengið neitt af útsvarinu, síðan hætt var að skipta útsvörum annarra en þeirra, sem flytjast búferlum. Þetta kemur líka undir þessar greinar.

Það var þetta, sem ég vildi benda á, — alveg sérstaklega þetta, að mér blæðir óskaplega í augum, þegar ég verð að láta standa útsvar á mönnum, sem lagt hefur verið á á tveim stöðum, af því að þeir hafa ekki kært nema á öðrum staðnum og af einhverjum ástæðum kært á þeim staðnum, sem þeir tvímælalaust eiga að borga útsvarið á. Ég vil fá leyfi til þess að fella þau útsvör niður.