17.12.1957
Neðri deild: 42. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

92. mál, happdrætti Flugfélags Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Í fyrra réðst Flugfélag Íslands í það stórvirki að kaupa tvær Vickers Viscount-flugvélar. Þær kostuðu mjög mikið fé. Hv. Alþingi ákvað þá að heimila ríkisstj. að ábyrgjast fyrir félagið um 2/3 af andvirði vélanna, en 1/3 þurfti að greiða ýmist strax eða mjög fljótlega. Félagið hafði þá gert áætlun um að selja 4 flugvélar: Gullfaxa, Sólfaxa og tvær Dakota-flugvélar.

Nú hefur þannig skipazt veður í lofti, að erfiðleikar hafa komið í ljós um að fá það verð fyrir Gullfaxa, sem áætlað var. Hann er óseldur enn þá, ætlunin að selja hann, eins og fyrirhugað hafði verið, en sýnilegt, að minna fæst fyrir hann, en ráð var fyrir gert.

Við nánari athugun á flugmálunum yfir höfuð hafa forráðamenn félagsins komizt að raun um, að sala á Sólfaxa mundi verða mikið áfall fyrir flugið og félagið. Hafa þeir þess vegna einsett sér að reyna í lengstu lög að komast hjá því að selja þá flugvél. Enn fremur skilst mér, að það muni vera hæpið mjög að selja nema aðra Dakota-vélina, og mundi koma allverulega niður á innanlandssamgöngum, ef þess þyrfti.

Af þessum ástæðum á félagið mjög í vök að verjast að standa í skilum með allar þær greiðslur, sem þarf að inna af höndum út af flugvélakaupunum. Mun láta nærri, að félagið þyrfti, ef vel færi, að afla sér upp undir 15 millj. kr. nú alveg á næstunni til þess að geta staðið fullkomlega í skilum með allar greiðslur og átt áfram Sólfaxa og aðra Dakota-vélina, sem fyrirhugað var að selja.

Það er ætlun forráðamanna félagsins að reyna með einhverju móti að útvega þetta fé, og þeim hefur dottið í hug sú leið að bjóða út lán og láta happdrætti fylgja, ef þeir fengju leyfi til þess. Það er talið hæpið a.m.k. í dómsmrn., að það sé hægt að veita leyfi fyrir svona happdrættisláni, þótt heimilt sé að veita leyfi fyrir happdrættum almennt. Þess vegna þykir réttara, að Alþ. skeri úr þessu.

Nú er það vilji ríkisstj, að styðja Flugfélagið í þessari viðleitni til þess að útvega sér fé, og þess vegna er þetta frv. komið, en í því felst að heimila Flugfélaginu að bjóða út happdrættislán, þar sem vinningarnir séu farmiðar frá félaginu.

Það má telja sérstakt happ, að þannig hefur tekizt til um flugsamgöngur hér innanlands, að hægt hefur verið að halda þeim uppi, án þess að það opinbera hafi þurft að borga styrki. Má telja, að þar hafi tekizt mun betur en ástæða var til að halda, þegar byrjað var á fluginu. Þetta er að þakka myndarskap flugfélaganna, og sýnist mér rétt að styðja þau með ráðum og dáð. Vildi ég því mælast til þess, að hv. Alþ. tæki þessu frv. vel.

Nú er það ætlun þeirra, sem fyrir þessum málum ráða, að reyna að selja eitthvað af þessum skuldabréfum fyrir jólin, og er þá orðinn hver síðastur að afgr. málið. En ég skal taka fram, að það eru ekki nema eins og þrír dagar, síðan ríkisstj. fékk þetta mál á þann hátt, að það gæti fengið afgreiðslu hjá henni.

Hv. Ed. afgr. þetta mál í gegnum þrjár umr. í gær, og vildi ég leyfa mér að fara fram á það sama við hv. Nd., að það yrði afgr. gegnum þrjár umr. hér í dag. En ég legg það algerlega á vald hæstv. forseta og hv. d., hvort menn telja ástæðu til að vísa frv. til n. eða ekki.