22.05.1958
Neðri deild: 102. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (1752)

25. mál, sveitarstjórnarlög

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Þetta frv., sem upphaflega var á þskj. 34, er búið að liggja mjög lengi fyrir heilbr.- og félmn., en n. hefur þó reynt að gera sér grein fyrir, hvað rétt væri að gera í þessu máli. En það, sem hér er um að ræða, er það, að sú breyting verði gerð á sveitarstjórnarlögunum, að þar sem myndazt hefur kauptún í hreppi eða annars staðar og þar sem íbúafjöldi kauptúnsins er 300 eða meira, þá er skv. lögunum nú gert ráð fyrir því, að ef krafa kemur um það frá slíku kauptúni, þá geti það heimtað að verða sjálfstætt sveitarfélag. Hins vegar hefur sveit eða dreifbýli, sem er í sama sveitarfélagi nú, ekki hliðstæðan rétt, og í raun og veru var efni frv, miðað við að leiðrétta þetta á þann hátt, að hér væri um gagnkvæman rétt að ræða.

Heilbr.- og félmn. lítur svo á, að það sé rétt og eðlilegt, að þetta misræmi verði leiðrétt. Frv. var sent til Sambands íslenzkra sveitarfélaga, og var óskað umsagnar þess um það. Formaður sambandsins lagði á móti frv. með þeim rökstuðningi, að þetta mundi leiða til frekari skiptingar sveitarfélaganna, sem væri óheppileg þróun.

Nú er það vitað mál, að það eru mörg ákvæði í sveitarstjórnarlögunum, sem eru orðin úrelt og þurfa endurskoðunar við, og heilbr.- og félmn. var sammála um það, að heppilegast væri að vera ekki að gera breytingu á þessu eina atriði í þeim lögum, er nú gilda um þetta, heldur yrði löggjöfin tekin til fullrar endurskoðunar. Þetta hefur raunverulega staðið til um alllangan tíma. Það var t. d. komið mjög nærri því og rétt að því, þegar ég fór með þessi mál í ríkisstj., að skipuð yrði n. til þess að endurskoða sveitarstjórnarlöggjöfina í heild. Af því varð þó ekki, og ekki hefur enn orðið af því. En n. varð sammála um að leggja það til, þótt hún líti þannig á, að hér sé um réttmæta leiðréttingu að ræða, að það verði ekki farið að samþykkja þetta frv. eins og það liggur fyrir, heldur afgreiða málið með rökstuddri dagskrá, sem er svo hljóðandi, eins og segir á þskj. 506, en ég vil þó leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Í trausti þess, að ríkisstj. hlutist til um það, að sem fyrst fari fram almenn endurskoðun sveitarstjórnarlaganna til þess að bæta úr ýmsum ágöllum þeirra og að jafnframt verði ákvæðunum um skiptingu sveitarfélaga breytt í þá átt, að réttur til þess að skipta sveitarfélagi, þar sem kauptún og sveit eru í sama hreppi, sé gagnkvæmur, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“