22.05.1958
Neðri deild: 102. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í C-deild Alþingistíðinda. (1753)

25. mál, sveitarstjórnarlög

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég skil vel afstöðu hv. heilbr.- og félmn., sem fer í þá átt, að ekki sé ráðlegt að skipta mjög hinum fámennu sveitarfélögum, og tek undir þá skoðun Sambands íslenzkra sveitarfélaga, að frekar væri æskilegt, að sveitarfélögunum fækkaði og þau yrðu stærri og þannig betur fær um að bera félagslegar byrðar þeirrar heildar, sem þau ná yfir, heldur en hitt, að sveitarfélög skiptist í smærri einingar.

En það, sem ég ætlaði aðallega að segja, var út af hinni rökstuddu dagskrá, sem hefur þá forsendu, að sem fyrst fari fram almenn endurskoðun sveitarstjórnarlaganna. Hv. frsm. n. minntist á, að það hefði staðið til um nokkurt skeið, að endurskoðun á sveitarstjórnarlöggjöfinni færi fram, og af því hefði ekki orðið enn þá. En ég get upplýst, að það er nú búið að skipa mþn. til endurskoðunar á sveitarstjórnarlöggjöfinni, og þeim mönnum, sem í n. hafa verið valdir, hefur verið tilkynnt skipunin, og get ég því vænzt þess, að þeir hefji störf nú senn hvað líður. Það ætti því að vera frekar samkomulag um það að samþykkja þessa rökstuddu dagskrá, þegar það er upplýst, að endurskoðunin er svo að segja hafin á hinni almennu sveitarstjórnarlöggjöf.