18.10.1957
Neðri deild: 5. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (1756)

11. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Karl Guðjónsson) :

Herra forseti. Efni þessa frv. er það, að undanþeginn skuli skattlagningu til tekjuskatts sá hluti af atvinnutekjum, sem fenginn er í aukagreiðslu fyrir yfirvinnu við framleiðslustörfin í þjónustu útflutningsframleiðslunnar.

Þetta mál er ekki nýtt hér á Alþingi. Það hefur raunar verið flutt þrisvar sinnum áður efnislega og hefur aldrei fengið afgreiðslu þingsins, ekki vegna þess, að hv. alþm. hafi yfirleitt ekki að meira eða minna leyti viðurkennt réttmæti þess, heldur miklu frekar af hinu, að það virðist hafa valdið þingmönnum nokkrum áhyggjum, að ekki væri tryggt, að svo væri hægt að búa um hnútana við framkvæmd málsins, að ekki kæmi til misnotkunar á þessu skattundanþáguákvæði.

Það er alkunna hjá þeim, sem fylgjast með, hvernig störfin við útflutningsframleiðslu Íslendinga ganga í helztu framleiðslubæjum landsins, að þar verður stundum alveg óhóflega mikið að gera. Þar vinna menn dögum og vikum saman svo langan vinnudag, að aðrir mundu kalla það ígildi tveggja eða hálfs þriðja vinnudags, sem þar er framkvæmt á einum sólarhring, þegar unnið er 16–20 klukkutíma við að koma fiski, sem á land hefur borizt, í verkun, í frost eða salt, og því fer víðs fjarri, að verkamennirnir óski yfirleitt eftir því, að svo lengi sé unnið langtímum saman.

Það má rétt vera, sem margir hafa haldið fram, að verkamenn séu ekki frábitnir því að fá einhverja yfirvinnu, sökum þess að hún gefur þeim oft drjúgar tekjur. En svo hóflaus vinna sem framkvæmd er í aflahrotum úti í verstöðvum landsins, hvort heldur er á þorskfiskvertíðum eða síldarvertíðum, er oft og tíðum meiri en svo, að menn óski eftir því að vinna svo lengi sem þeir þó gera. Það er ekki sízt, a. m. k. hjá mörgum af þeim, sem komnir eru á miðjan aldur og þar yfir, hrein ábyrgðartilfinning gagnvart því, að þeir verði, á meðan þeir standa í fæturna, að vinna að því, að verðmæti fari ekki til spillis, að svo lengi er unnið sem raun ber vitni um, enda er það svo, að allar takmarkanir á vinnutíma, þegar svo stendur á, mundu skaða þjóðina, með því að framleiðsla hennar yrði verðmætaminni, en hún með þessum hætti verður eða þá bókstaflega yrði minni að vöxtum, því að það segir sig sjálft, að ef alls ekki hefðist undan með fiskvinnslu í landi, þá yrðu fiskibátar að sjálfsögðu að fella niður sjóróðra, þar til búið væri að koma því í verkun, sem í land hefur verið dregið.

Nú er það frá þjóðfélagslegu sjónarmiði ákaflega óæskilegt, að menn vinni svo óskaplega lengi eins og tíðkast, þegar svo á stendur sem ég hef lýst. En öll slík takmörkun mundi þýða minnkaða framleiðslu, eins og nú háttar, og þess vegna hefur mér vitanlega engum komið til hugar að lögbjóða neinar hömlur eða takmarkanir á þessu, sem þó væri frá heilsufarslegu sjónarmiði æskilegt. En það virðist vera nokkuð langt gengið, að þjóðfélagið sjái ekki þennan þegnskap við viðkomandi verkafólk í neinu, heldur skattleggi tekjur þær, sem menn hafa við slík störf, alveg hömlulaust, á meðan t. d. eru undanþegin skatti þau verðmæti, sem mönnum berast í hendur t. d. fyrir það, að húseign þeirra eða eitthvað slíkt hefur hækkað í verði, máske stundum beinlínis fyrir aðgerðir hins opinbera. Slíkar tekjur, sem menn hafa jafnóskaplega mikið fyrir eins og ég hef hér lýst, eru hömlulaust skattlagðar eftir skattstiga, og þar kemur engin ívilnun til greina miðað við gildandi lög.

Ég er þeirrar skoðunar, að það beri að ívilna um skatt á þær tekjur, sem fengnar eru með þeim hætti, sem ég hef lýst, við mjög mikla yfirvinnu beint í þágu útflutningsframleiðslunnar,

Allir viðurkenna, að þjóðfélagsleg nauðsyn er, að sem snurðulausastur gangur sé á útflutningsframleiðslunni. Og ríkisvaldið hefur gefið nokkur fordæmi um það að ívilna um skatt þeim aðilunum, sem mest á ríður að stundi sín störf af kappi. Ég á þar við þá skattívilnun, sem sjómenn fengu með lagabreytingu hér á síðasta Alþingi. Ég sé ekki annað en það, sem lagt er til í þessu frv., sé eðlislega hið sama og þar var gert. Og ég tel eðlilegt, að það skref, sem hér er lagt til í þessu frv. til skattívilnunar, verði stigið.

Ég hef ekki aðstöðu til að reikna það út, hverju það mundi nema í skatti, hverjum tekjum ríkið kynni að verða af í tekjum af skatti með samþykkt þessa frv., en ég er þess fullviss, að það er minni upphæð en svo, að ekki sé vert að láta hana af hendi, þegar virt er að hinu leytinu hættan, sem af því stafaði fyrir þjóðfélagið, ef einn góðan veðurdag verkalýðssamtökin segðu: Nú vinnum við ekki þessa yfirvinnu. — Og það geta þau gert hvern daginn sem þeim sýnist. — Ég hef gert það hér áður og ég vil enn vara við því að treysta um of á langlundargeð þeirra í þessu efni, því að hvað skeður, ef verkalýðssamtökin t. d. í Vestmannaeyjum segja einn góðan veðurdag, þegar aflahrota er yfirstandandi: Nú leyfum við ekki yfirvinnu nema að vissu takmarki og miklum mun minni, en tíðkazt hefur? — Ja, þá skeður það, að til spillis fara verðmæti, sem ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að væru þjóðinni að meiri skaða og margföldum skaða við það, sem tekjuskattur í ríkissjóð mundi skerðast við samþykkt þessa frv.

Ég sé svo ekki ástæðu til, þar eð frv. er hér áður kunnugt, að hafa fleiri orð um það að sinni, en vil leggja til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.