19.05.1958
Neðri deild: 100. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í C-deild Alþingistíðinda. (1761)

11. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta frv. til athugunar, en ekki urðu nm. allir sammála um afgreiðslu þess. Einn nm., 3. þm. Reykv., vill samþ. frv., þó með breytingum, en aðrir nm. telja það mikla annmarka á þeim till., sem í frv. felast, að þeir telja ekki fært að samþ. það, en leggja til í nál. á þskj. 496, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá.

Ég get að mestu látið nægja að vísa til þess, sem segir í nál. meiri hl. Eins og þar er bent á, mundi í mörgum tilfellum ekki unnt að greina tekjur fyrir yfirvinnu við útflutningsvörurnar frá öðrum vinnutekjum. Á þetta t. d. við um tekjur sjómanna á bátaflotanum, en þar er oft um mikla yfirvinnu að ræða. Sama gildir t. d. um vinnu við skipaafgreiðslu. Sérstaklega á hinum smærri höfnum hér við land er það svo, að þar verður að afgreiða farmskip á hvaða tíma sólarhringsins sem þau koma, og er því mjög mikill hluti vinnunnar við skipaafgreiðslu á þeim stöðum framkvæmdur í eftirvinnu, nætur- og helgidagavinnu, og þar blandast vitanlega saman vinna víð losun skipanna og útskipun á útflutningsvörum. Þá má nefna sveitarstörfin, en þar er um yfirvinnu að ræða allan ársins hring, og hjá þeim verður ekki komizt, og verulegur hluti af framleiðsluvörum landbúnaðarins er nú seldur á erlendan markað, svo að þar er um að ræða vinnu við hvort tveggja, útflutningsvörur og nauðsynjavörur til innanlandsnotkunar.

Þá virðist það ekki sanngjarnt að taka þarna út úr yfirvinnu við útflutningsvörurnar, því að mörg önnur störf eru einnig mjög þýðingarmikil fyrir þjóðfélagið. Það er rétt, að oft mun það vera svo, eins og vikið er að í grg. með frv., að þegar aflahrotur eru í verstöðvum, þá kemur það fyrir, að menn þurfa að vinna oft allmikla eftirvinnu og næturvinnu til þess að bjarga aflanum frá skemmdum. Þar verður því í þessum aflahrotum um verulega yfirvinnu að ræða í mörgum tilfellum. En ég tel það vafalaust t. d., að margur bóndinn vildi fremur leggja á sig mikla yfirvinnu í fáeinar vikur ár hvert og vera svo að mestu laus við yfirvinnu þess á milli, heldur en þurfa að vinna yfirvinnu allan ársins hring, jafnt á stórhátíðum sem aðra daga, við hirðingu búpeningsins, eins og hann þarf nú að gera.

Það er svo um atvinnuhætti hér á landi, að við mörg nauðsynjastörf verður ekki komizt hjá yfirvinnu. Vonandi sýna allir landsmenn þá þegnhollustu að vinna áfram að nauðsynlegum framleiðslustörfum, þegar þörfin kallar, hvað sem skattamálum líður. Þetta hefur verið gert og er enn, og verður vonandi þannig áfram. Ég vil einnig benda á, að áður hefur verið og er enn verið að létta nokkuð skatta á þeim, sem minnstar tekjur hafa, og má gjarnan líta á það í þessu sambandi.

Raddir hafa komið fram um það að undanförnu, að réttast mundi að afnema tekjuskatt sem skattstofn fyrir ríkissjóð. Ekki veit ég um afstöðu hv. flm. þessa frv. til þess máls, en allir ættum við að geta verið sammála um, að á meðan þessi tekjustofn er þáttur í fjáröflun hins opinbera, þarf að reyna að haga löggjöfinni um hann þannig, að hún sé framkvæmanleg og að ekki sé áberandi og óviðunandi ósamræmi í aðstöðu manna í þeim efnum. Um það ættu allir að geta orðið á eitt sáttir, að þetta sé nauðsynlegt.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð til viðbótar því, sem segir í nál. meiri hl., en meiri hl. leggur til, að frv. verði afgr. með svo hljóðandi rökstuddri dagskrá, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem oft mundi reynast óframkvæmanlegt að greina atvinnutekjur fyrir yfirvinnu við framleiðslu á útflutningsvörum frá tekjum fyrir önnur störf og þar sem enn fremur væri óeðlilegt að gera mun á skattgreiðslum af atvinnutekjum eftir því, hvort unnið er að framleiðslu á vörum til útflutnings eða t. d. framleiðslu á nauðsynjavörum til innanlandsnotkunar og þar með til gjaldeyrissparnaðar, telur deildin ekki fært að samþ. frv. og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“