20.05.1958
Neðri deild: 101. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 80 í C-deild Alþingistíðinda. (1763)

11. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Fjhn. þessarar deildar varð ekki sammála um afstöðu til þessa frv. Meiri hl. leggur til að afgr. það með rökst. dagskrá, en ég, sem varð þar í minni hluta, legg til að samþ. frv. með þeirri breyt., sem ég legg til að sé gerð á því, á þskj. 495.

Ég er alveg samþykkur tilgangi þessa frv., að það sé nauðsynlegt til þess að hvetja menn til að vinna að útflutningsframleiðslunni sérstaklega, að þeir menn, sem þar leggja á sig yfirvinnu og næturvinnu, eins og oft er nauðsynlegt í mjög ríkum mæli í verstöðvunum, skuli vera undanþegnir skatti af vissum hluta þessara tekna, sem þeir þannig afla sér, og ég held, að með þeirri breytingu, sem gerð yrði á frv. með minni brtt., mundi þetta vera alveg skýrt. Hún er takmörkuð þar allmikið og tekið fram, að sé um tímakaupsmenn að ræða og þá, sem vinna að verkun og útflutningi sjávarafurða, þannig að þarna eigi ekki neinn ruglingur að geta orðið. Þessi brtt. er sett fram í samráði við hv. flutningsmenn frv., og ég vil mega vona, að hv. deild geti samþykkt þessa brtt., því að þar með er við því orðið, sem meiri hlutinn hefur gagnrýnt við þetta frv., að það væri ekki nægilega ljóst, hvernig skilja mætti tekjurnar, sem menn afla þannig, frá öðrum tekjum. Ég vil þess vegna eindregið leggja til, að frv. verði samþykkt með þeirri brtt., sem er á þskj, 495.