06.12.1957
Neðri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (1767)

11. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Páll Þorsteinsson) :

Herra forseti. Lög þau, sem nú eru í gildi um vörumerki og skrásetningu þeirra, eru frá 1903 og því orðin, meira en hálfrar aldar gömul. Á þeim tíma hafa orðið miklar breytingar á íslenzkum stjórnarháttum, svo að nokkur ákvæði laga nr. 43 frá 1903, um vörumerki, samrýmast ekki því, sem nú er fylgt í framkvæmd. Sem dæmi þess vil ég nefna þau ákvæði laganna, að viss atriði eigi að leggja undir úrskurð landshöfðingja og að annað megi leyfa skv. konunglegri tilskipun. Það er tímabært að endurskoða þessi lög um vörumerki og lagfæra nokkur ákvæði þeirra, eins og við flm. leggjum til.

En meginefni þessa frv. felst í 1. gr. þess, og er það nýmæli. Það er, að heiti, sem íslenzkir aðilar nota sem vörumerki, skuli vera rétt mynduð að lögum íslenzkrar tungu að dómi heimspekideildar Háskóla Íslands.

Hin íslenzka tunga er fjöregg þjóðarinnar. Glati þjóðin henni, glatar hún sjálfri sér. Andlegt líf hennar slitnar þá frá rótum, og hvernig fer þá um gróðurinn? Þjóðin öll þarf að vera vel á verði um það að spilla ekki tungu sinni, og löggjafanum ber að veita aðhald í þessu efni með lagasetningu, eftir því sem við verður komið og líklegt er til árangurs. En hver þjóðtunga hefur tvö hlutverk. Hún er tæki andlegra viðskipta þeirra, sem málið tala og rita hverju sinni, og hún er lykill að andlegum fjársjóðum liðins tíma, að svo miklu leyti sem þeir eru geymdir í mæltu máli eða ritum.

Ekki er hægt að bera brigður á, að íslenzkan hefur um lengra skeið, en önnur nútímamál í Norðurálfu, leyst þá þraut að halda lifandi sambandi við fortíðina. Á þeim grunni hvílir hin þjóðlega íslenzka menning og samhengi íslenzkra bókmennta frá öndverðu. Og þetta gefur okkur nú í dag rétt og siðferðilegan styrk til þess að kalla eftir handritunum, sem enn eru geymd í Kaupmannahöfn.

Þjóðskáldið Einar Benediktsson kvaðst skilja,

„að orð er á Íslandi til um allt, sem er hugsað á jörðu.“ Einar Benediktsson mátti djarft um tala. Hjá honum fór saman djúp hugsun og tígulegt orðaval íslenzks máls. Samt sem áður ber eigi að skilja þessi ummæli alveg bókstaflega. Í þeim felst raunverulega sá dómur, að af stofni íslenzkrar tungu megi eftir þörfum mynda orð yfir nýja hluti og hugtök.

Það safn nýyrða, sem gefið hefur verið út og verið er að auka á vegum heimspekideildar Háskóla Íslands, bendir ákveðið í þessa átt.

Á hverju ári eru skrásett allmörg vörumerki. Um leið löggilda íslenzk stjórnarvöld og auglýsa þau heiti, sem nota á sem vörumerki. Árlega fá nokkur orð þegnrétt í tungunni með þessu móti og eru notuð í mæltu máli og í auglýsingum í útvarpi og blöðum. En því fer fjarri, að öll þessi heiti samrýmist réttum reglum íslenzkrar tungu. Lögin veita ekki nægilegt aðhald í þessu efni, og reynslan sýnir, að þeir aðilar, sem fá vörumerki skrásett, fara ekki alltaf vel með það frelsi, sem þeim er veitt um orðavalið.

Á s.l. fimm árum hafa verið skrásett eftir beiðni íslenzkra aðila og löggilt sem vörumerki á innlendri framleiðslu m. a. þessi heiti: Aeroshell, Albol, Alexia, Aldrex, Amaro, Aseptol, Branco, Clorísol, Dieldrex, Elvira, Emperor, Endrex, Gold Else, Klorlux, Lady, Manhattan, Panol, Promesa, Pyro, Sambo, Shelmac, Slank, Sólid, Tempo.

Ég læt þessi dæmi nægja, þó að af meiru sé að taka. En allir finna, að þessi orð samrýmast ekki réttum reglum íslenzkrar tungu og eiga raunverulega ekki heima í málinu.

Þá er á það að líta, hvort það er svo erfitt og vandasamt að mynda góð heiti fyrir vörumerki, að það sé ofraun fyrir íslenzka tungu að ætla henni að leysa þá þraut. Augljóst er, að mörg íslenzk orð og algeng fara vel sem vörumerki og að auðvelt er að mynda ný orð af rótum íslenzkra orða fullgild fyrir þessa grein tungunnar. Á sama tíma, þ. e. á s. l. 5 árum, sem löggilt voru sem vörumerki þau orð, sem ég nefndi sem dæmi máli mínu til sönnunar, hafa íslenzkir aðilar valið sér að vörumerki m. a. þessi orð: Alda, Drífa, Egils, Fjörvasól, Græðir, Kjarni, Magni, Móði, Norðri, Rauði borðinn, Perla, Víkings.

Allir finna muninn á þessum nöfnum og hinum. Þau sýna, að íslenzkum aðilum verður ekki skotaskuld úr því að finna íslenzk orð yfir vörumerki, ef smekkvísi á málfar er látin ráða. En því fremur má vænta góðs árangurs, ef íslenzkum málfræðingum yrði falið að lagfæra og leiðbeina og mynda ný orð til að nota sem vörumerki.

Í 1. gr. gildandi laga um vörumerki segir svo: „Hver sá, er hér á landi rekur verksmiðjuiðnað eða handiðnað, jarðrækt, málmnám, verzlun eða aðra atvinnu, getur skv. lögum þessum með skrásetningu öðlazt einkarétt til að greina vörur sínar frá vörum annarra í viðskiptum manna á milli.“

Í samræmi við þetta er meginefni laganna, þ. e. um réttindi og skyldur íslenzkra aðila og um atvinnu, sem rekin er hér á landi. Breytingar þær, sem í frv. þessu felast, taka og einungis til þess. En um vörumerki, sem skráð eru og veitt er vernd hér á landi eftir beiðni erlendra aðila, gilda sérákvæði, sem eru í 15. gr. laga um vörumerki, Slík heiti eru merki á erlendum vörum, sem fluttar eru inn í landið. Þau heiti eru mynduð á máli þeirrar þjóðar, þar sem varan er framleidd, og eru skrásett á sama veg í mörgum löndum, þar sem varan er seld. En þessi meginregla meðal þjóðanna um vörumerki styður það, sem lagt er til í þessu frv., að heiti, sem notuð eru sem vörumerki á íslenzkum vörum, beri íslenzkan svip og eins þó að vörurnar séu seldar úr landi.

Fyrir nokkrum árum var hafizt handa um söfnun nýyrða, og hefur verið veitt nokkurt fé til þess í fjárlögum síðustu ára. Hefur þremur háskólakennurum við heimspekideild Háskóla Íslands verið falið að sjá um það verk, en þeir hafa fengið sér til aðstoðar málfróða menn og sérfræðinga í þeim greinum, sem fjallað er um hverju sinni. Við flm. þessa frv. teljum rétt að fela heimspekideild háskólans einnig þann þátt orðasöfnunar og myndunar nýyrða, sem um er fjallað í þessu frv.

Í 4. gr. frv., 2. tölulið, er svo fyrir mælt, að synjað skuli um skrásetningu vörumerkis, ef heiti þess samrýmist ekki réttum reglum íslenzkrar tungu að dómi heimspekideildar háskólans. Ákvæði frv. ná ekki til þeirra vörumerkja, sem nú eru í gildi, meðan þau halda gildi sínu. En samkv. gildandi lögum ber að endurnýja skrásetningu hvers vörumerkis á tíu ára fresti. Við endurnýjun skrásetningar yrði farið eftir ákvæðum þessa frv., ef að lögum verða, en af því leiðir, að eftir tíu ár verða öll vörumerki íslenzkra aðila orðin í samræmi við það, sem fyrir er mælt í þessu frv.

Ég legg til, að málinu verði vísað til hv. allshn. til athugunar.