24.10.1957
Efri deild: 8. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í C-deild Alþingistíðinda. (1772)

13. mál, landhelgisbrot

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Fyrir tæpum aldarþriðjungi skrifaði ég smágrein í blaðið Dag á Akureyri, sem ég kallaði: „Sjór og land.“ Þar benti ég á þann reginmismun, sem væri á aðstöðu atvinnuveganna, landbúnaðarins annars vegar og sjávarútvegs hins vegar, hvað snerti möguleika til þess að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Ég benti á það, að þeir, sem landbúnaðinn stunda, gætu eiginlega fá verk framkvæmt fyrir sjálfa sig nema jafnframt að hafa í huga framtíðina og þeir gætu starfað þannig, að þeir gæfu sínum eftirkomendum, komandi kynslóðum, möguleika til þess að afla margfaldra verðmæta á við það, sem þeir sjálfir gætu gert. Þessu væri allt öðruvísi varið með þá, er sjóinn stunduðu. Meðan landbúnaðarmaðurinn gæti aukið afraksturinn af hverjum hektara lands, sem hann hefði yfir að ráða, kynbætt sitt búfé, svo að það gæti umsett fóðrið í verðmæti og betri vöru en ella, gæti eiginlega sá, er sjóinn stundaði, ekki gert neitt til þess að tryggja það, að synir hans og barnabörn, sem stunduðu sjó á sömu mið eftir 50 eða 100 ár, fengju meiri afköst, en hann sjálfur fengi í ár.

Þetta var tekið ákaflega óstinnt upp af útgerðarmönnum þá. Þeir svöruðu þessu og sögðu, að einn þorskur ætti upp undir 15 milljónir hrogna á hverju ári og að tal um það, að fiskaflinn mundi minnka og ganga úr sér, væri slík fásinna og vitleysa, að annað eins höfðu þeir ekki heyrt. Og ég náttúrlega þagnaði.

Nú hefur orðið sú breyting á þessu, að það er held ég orðið almennt viðurkennt, að það séu miklar líkur og sumir segja alveg víst, að þótt ekki sé meira gert að fiskveiðum, en nú er hér við land og annars staðar, þá séu miklar líkur til þess, að þær gangi meira og minna úr sér ár frá ári.

Nú vitum við það, að þorskurinn safnast saman á sérstökum stöðum, þar sem hann hrygnir, og við vitum líka, að þegar hann safnast þar saman, þá safnast þar líka saman skip til að veiða hann, á meðan hann er að hrygna og áður en hann hrygnir. Við vitum, að þessir litlu fiskar, sem fyrst verða til, berast með straumi vítt um, en þegar þeir eru það stórir, að þeir geta farið að bjarga sér sjálfir og eru ekki eins háðir áhrifum straumanna, þá leita þeir upp á landgrunnin og eru þar á sínum uppvaxtarárum.

Það er vegna þess, sem nú er talað um og hefur verið talað um að friða landgrunnið fyrir þeim veiðitækjum, sem eru þess eðlis, að þau drepa mergð af þessu ungviði, sem þar elst upp, án þess að nokkur hafi not af því. Það er vegna þessa, sem við viljum stækka okkar landhelgi og fá aukið það svæði kringum landið, sem þetta uppeldi aðallega fer fram á.

En þetta eru ekki allir ásáttir um. Ég man ákaflega vel eftir mikils metnum útgerðarmanni, sem á fundi sagði, þegar var fyrst verið að tala um stækkun landhelginnar: „Hvar eiga þá okkar togarar að fiska?“ — þegar bent var á það, að þeir mundu ekki frekar fá að fiska í landhelgi, heldur en aðrir.

Ég man eftir mörgu svipuðu frá mönnum, sem við þessi mál hafa fengizt, frá fundum, sem ég hef setið á. Og við vissum það líka, að um langt skeið var það haft fyrir féþúfu af ýmsum mönnum hér við land að vísa erlendum skipstjórum inn á fiskimiðin, þegar talið var, að lítil hætta væri á, að í þá næðist.

Þessi hugsunarháttur allur hefur breytzt. Og þetta er náttúrlega ekki orðið eins algengt nú og það áður var. En ég tel, að það sé stærsti glæpur, sem einn maður fremur, þegar hann syndgar á móti framtíðinni, og það er synd á móti framtíðinni að reyna vísvitandi að stuðla að því að rýra tekjur komandi kynslóða. Þetta gera allir þeir, sem veiða í landhelgi með veiðarfærum, sem eyðileggja meira eða minna af ungviði.

Með tilliti til þessa og þess, að Alþ. hefur haft sektir við þessu, sem eins og reyndar sektir við öllu öðru eru lágar, og ekki hefur verið hirt um að hækka þær samhliða því, sem peningagildi hefur minnkað, hef ég lagt til í þessu frv., að það yrði farið álíka með þá, sem syndguðu á móti landhelgisreglunum, eins og nú er farið með þá, sem syndga t. d. á móti vissum atriðum í bifreiðalögunum, að taka þá úr umferð, að svipta þá möguleikanum til þess að gera þetta aftur, taka af þeim skipstjóraréttindi. Ég hef lagt til, að við fyrsta brot yrðu réttindi tekin af þeim um eitt ár, en ævilangt, ef um endurtekið brot væri að ræða.

Með þessu hef ég viljað sýna það, að íslenzku þjóðinni væri alvara í því að hafa landhelgina friðaða og lofa þeim fiski, sem þar elst upp fyrir komandi kynslóðir, að lifa, eftir því sem ástæður væru til.

Ég hef líka gert þetta í annarri meiningu. Ég hef tvívegis fengið það framan í mig hjá erlendum mönnum, að þó að við værum nú að tala hér um stækkun á landhelginni og friðun á henni, þá væri því ekkert beitt gagnvart íslenzkum skipum, það væri svo sem vitað mál, að við lofuðum þeim að veiða í landhelgi. Með þessu lagafrv., ef að lögum verður, hef ég þess vegna viljað sýna öðrum það, að við tækjum hart á þessum brotum, að okkur væri full alvara með það að friða uppeldissvæði ungfisksins.

Þetta tvennt hefur fyrir mér vakað, og það fer svo eftir því, hvað mönnum lízt hér á Alþ., hvort það verður að lögum eða ekki. En ég hygg, að verði þetta að lögum, geri það hvort tveggja, minnki verulega þau brot, sem framin eru á móti landhelgislögunum yfirleitt, og jafnframt gefi aukinn styrk þeirri kröfu okkar til annarra þjóða að stækka landhelgina og auka friðunarsvæðið.

Ég er ekki alveg viss um, í hvaða n. þetta á að fara. Mér fyndist eðlilegast, að það færi í sjútvn., því að ætla mætti, að hún sé mest inni í málinu, og dæmi það frá því sjónarmiði séð. En það gæti náttúrlega líka komið til mála að setja það í allshn. Ég læt það undir vald forseta, í hvaða n. hann setur það. Ég tel eðlilegra, að það fari til sjútvn. heldur en allshn., þó að ég geri það ekki beint að till. minni.