14.02.1958
Efri deild: 52. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í C-deild Alþingistíðinda. (1779)

13. mál, landhelgisbrot

Björn Jónsson:

Herra forseti. Mér er sagt, að á þingfundi í gær, þar sem ég var forfallaður frá að mæta, hafi hv. 1. þm. N-M. kvatt sér hljóðs og kvartað undan því, að frv., sem hann flytur um breytingar á refsingum fyrir landhelgisbrot, hafi ekki verið afgreitt úr sjútvn, og því ekki verið tekið á dagskrá. Þetta mun vera í annað sinn sem hv. 1. þm. N-M. kvartar um þetta, og skýrði ég það á sínum tíma, hið fyrra sinn sem hann kvaddi sér hljóðs um þetta, að þá skorti nefndina umsagnir, sem hún taldi sér nauðsynlegt að fá, áður en hún gæti afgreitt málið: Síðan hefur það gerzt, að sjútvmrh. hefur óskað eftir því, að ríkisstj. fengi tækifæri til þess að athuga frv., áður en það kæmi á dagskrá eða yrði afgreitt úr nefndinni, og hef ég talið sjálfsagt að verða við því.

Þetta eru sem sagt ástæðurnar fyrir því, að sjútvn. hefur ekki enn þá afgr. málið. Hins vegar get ég lýst því yfir, að vegna þess, hve fast er sótt á að fá málið á dagskrá af hendi hv. þm., mun ég taka það til athugunar í sjútvn., hvort hún vilji skila nál. um málið og afgreiða það, án þess að þeirri athugun, sem ríkisstj. hefur nú á málinu, sé lokið. En að sjálfsögðu mun ég ekki hafa nein afskipti af því, hvort hæstv. forseti tekur málið á dagskrá, án þess að nál. liggi fyrir.