14.02.1958
Efri deild: 52. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í C-deild Alþingistíðinda. (1780)

13. mál, landhelgisbrot

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Þegar ég kvaddi mér hljóðs utan dagskrár í gær eða kallaði eftir þessu máli fram, hafði forsetinn ekki tilkynnt, að hv. þm. hefði boðað nein forföll frá þingfundi, og ég vissi ekki annað, en hann væri hér í deildinni, eins og honum bar skylda til.

Mér þykir undarlegt, ef ríkisstj, þarf marga mánuði til að athuga málið. Það liggur ósköp einfalt fyrir. Ég hef ekkert á móti því, að ríkisstj. fái málið til athugunar, en hún mun ekki þurfa langan tíma til að athuga það.

Það er ekki nema tvennt, sem um er að ræða: Eigum við annars vegar að reyna að stuðla að því, að landhelgin sé friðuð, svo að hún fari ekki í örtröð vegna ofveiði, og sé friðuð fyrir íslenzkum togurum. Ég man ósköp vel eftir því, þegar einn maður, mikils metinn maður í okkar þjóðlífi, sagði fyrst þegar við vorum að ræða þetta: Hvar eiga þá okkar togarar að fiska? — Ég man líka ósköp vel eftir því, sem annar hv. þm. í þingnefnd sagði, þegar talað var um að breyta landhelgislögunum á þann hátt, að fyrir ný lönd, sem ekki hefðu áður fiskað síld hér við land, væri búin til sérstök lína, því að það bar öllum saman um, að það væri hægt. Þá stóð hann upp með miklum móð og mælti móti því, það væri ósanngjarnt að veita það ekki þeim, sem kæmu hér eftir, þó að þeir væru ekki byrjaðir að veiða neitt áður. Ég svo sem þekki þessar raddir. Ég man vel eftir, þegar annað frv. var á ferðinni og var verið að reyna að útiloka helztu gæðinga Sjálfstfl., sem meira að segja sumir sitja nú hér á þingi, frá því að vísa togurunum inn í landhelgina. Ég man ósköp vel eftir því. Ég gæti nefnt þá marga, fingurnir á höndunum nægja ekki til að telja þá upp, sem að því stóðu og voru þá áberandi menn í þinginu og utan.

Þetta vil ég reyna að undirstrika að komi ekki fyrir, og jafnframt vil ég sýna það nú, einmitt áður en á að fara að ræða um þessi mál á alþjóðasamkomu í Sviss, að okkur sé þetta svo mikil alvara, að við leggjum þyngri refsingar á Íslendinga, sem gera þetta, heldur en aðrar þjóðir. Við sviptum þá bókstaflega skipstjóraréttindum. Og það er sannarlega ekki meira að gera það við þá menn, sem leika sér að því að fara inn fyrir landhelgislínuna og veiða þar og eyðileggja framtíðarvon þjóðarinnar um uppeldi á ungviðinu, heldur en að svipta mann, sem er ölvaður við akstur, akstursleyfi. Það er miklu meira ástæða til þess. Þess vegna skil ég ekki í öðru en ríkisstj. verði fljót að átta sig á þessu, ef hv. nefnd hefur fyrst komið til hugar núna að samþ. frv. Annars hefði náttúrlega verið alveg eins rétt að spyrja lögfræðing um það eins og sjálfa skipstjórana, eins og mun hafa verið gert af nefndinni.