18.03.1958
Neðri deild: 68. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (1789)

153. mál, eftirlit til varnar ofeyðslu hjá ríkinu

Flm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 308, um eftirlit til varnar gegn ofeyðslu hjá ríkinu og stofnunum þess, er af minni hálfu flutt í samráði við minn flokk, Sjálfstfl.

Tilgangur frv. og ástæður eru í aðalatriðum skýrð í grg., sem frv. fylgir, og skal ég ekki fara langt út í að gera grein fyrir því, hverjar ástæðurnar eru. En eins og hv. alþm. geta séð, er aðaltilgangurinn með þessu frv. sá að slá því föstu, enn betur en verið hefur, að fjárveitingavald er hjá Alþingi, en ekki hjá ríkisstj. eða ríkisstofnunum.

Í raun og veru er þessu þó slegið föstu í sjálfri stjórnarskránni, að það er Alþingi, sem hefur fjárveitingavaldið, en frá því hefur verið brugðið mjög mikið á undanförnum árum og alltaf í ríkari mæli farið í þá átt, að áhrifavald Alþingis hefur verið í mörgum tilfellum að litlu haft hjá þeim, sem ráðin hafa.

Nú er það náttúrlega augljóst mál, að þó að þetta frv. yrði samþykkt, er ekki þar með fengin vissa fyrir því, að það sé ekki eytt of miklu fé hjá ríkinu og þess stofnunum. En það er ætlazt til þess, að það sé þá um leið fengin vissa fyrir því eða betri trygging en verið hefur fyrir því, að öll fjárútlát, öll lán, allar ábyrgðir o. s. frv., það sé ákveðið af Alþingi sjálfu, en ekki af þeim, sem með framkvæmdarvaldið fara. Og ef menn á annað borð vilja, að haft sé eftirlit með því af hálfu Alþingis, þá er það ekki neitt vafaatriði frá mínu sjónarmiði, að þeir menn, sem það eftirlit eiga að hafa, verða að vera kosnir af Alþingi sjálfu. Hins vegar gefur að skilja, að það getur orkað tvímælis, hvort það sé rétt, að það séu yfirskoðunarmenn ríkisreikninga eða einhverjir aðrir menn, sem hafa þetta eftirlit með höndum. Það getur verið atriði, sem kemur til greina að athuga, hvort mönnum þykir heppilegra, að það séu þessir menn, sem eru til, sem hafa þetta eftirlit, ellegar það séu kosnir aðrir menn til þeirra starfa.

Nú hefur það verið svo, eins og kunnugt er, að þeir menn, sem hér er um að ræða, yfirskoðunarmenn ríkisreikninga, hafa haft það starf samkvæmt 43. gr. stjórnarskrárinnar að yfirfara reikninga ríkisins, og þeir gera það eftir á, eftir að hin umboðslega endurskoðun hefur farið fram. En reynslan hefur sannað, að þó að þeir geri athugasemdir út af eyðslu umfram fjárlög og annað slíkt, þá hefur ekki verið tekið tillit til þess eins og ætlazt er til og vera ber.

Ég hygg, að ef þetta frv. yrði samþykkt, mundi aldrei geta oftar skeð það, sem skeði fyrr á þessu þingi, að fjárlög voru hespuð af á fáum dögum og tiltölulega athugunarlítið hjá því, sem oft hefur áður verið, því að ef á að setja strangari skorður við því, að ríkisstj. eyði utan fjárlaga stórum upphæðum, mundi eðlilega fyrsta afleiðing af því verða sú, að Alþingi legði í það meiri vinnu og athugaði það nánar, að fjárlögin væru í samræmi við það, sem alveg væri óhjákvæmilegt að framkvæma.

Eins og fram er tekið í grg. fyrir þessu frv., hefur verið gerð fsp. um það, hvernig þessu er háttað í okkar nágrannalöndum, og tiltekin þrjú lönd: Bretland, Bandaríkin og Danmörk.

Í Bretlandi er þessu þannig varið, að þar eru starfandi margar nefndir, sem eru til eftirlits með því, að fyrirmælum þingsins á fjármálasviðinu sé fylgt. Það er viss flokkur af málefnum, sem heyrir undir hverja nefnd til eftirlits, og reglan er sú, að þar í landi er ekki heimilt af hálfu ríkisstj. að greiða neitt umfram það, sem fjárlögin ákveða, umfram það sem þessar eftirlitsnefndir samþykkja.

Í Danmörku er þetta nokkuð mikið á annan veg og eðlilegt, að svo sé, því að þar er það fjvn. þingsins, sem hefur þetta eftirlit, en ástandið þar er þannig, að fjvn. starfar allt árið um kring, og þess vegna er möguleiki á því fyrir ríkisstj. eða þá, sem með fjármálin fara, að bera hvert það mál undir fjvn., sem óskað er eftir að sé farið umfram það, sem fjárlögin ákveða. Þess vegna er það þannig, að það er ekki nein heimild til þess hjá Dönum að greiða fé eða taka ákvarðanir um fjárútlát, nema því aðeins að fjvn. þingsins samþykki það.

Í Bandaríkjunum er þetta töluvert mikið á annan veg. Þar er það að vísu fjöldi starfsmanna, sem hefur eftirlitið með höndum, en þar er þá einn aðalyfirmaður, fastur embættismaður, sem kosinn er til 15 ára, sem hefur þetta eftirlit með höndum, og það á að vera hans verksvið og hans undirmanna og starfsmanna að hafa eftirlit með því, að verandi fjármálastjórn eyði ekki umfram það, sem fjárlögin eða önnur lög hafa ákveðið.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða á þessu stigi meira um málið. Það liggur nokkurn veginn ljóst fyrir, og hv. alþm. geta séð, hvað það er, sem fyrir mér vakir með þessum flutningi. En ég vil leyfa mér að fara fram á, að frv. verði að þessari umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjhn.