24.03.1958
Neðri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 119 í C-deild Alþingistíðinda. (1797)

153. mál, eftirlit til varnar ofeyðslu hjá ríkinu

Flm. (Jón Pálmason) :

Herra forseti. Það hefur nú komið í ljós, að þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 308, hefur farið mjög í taugarnar á sumum forustumönnum Framsfl. Þetta kom ljóslega fram í ræðu hæstv. fjmrh. og hv. þm. V-Húnv. hér á dögunum, og þetta er í sjálfu sér mjög eðlilegt. Þessir menn vita, að þegar farið er fram á að bæta eitthvað úr þeirri fjármálaspillingu, sem hér hefur ríkt á undanförnum árum, þá snýr það meira að þeirra flokki en öðrum, vegna þess að hans fulltrúar hafa farið lengst allra með fjármálastjórn hér á landi. Nú skal ég ekki nánar út í það fara, en minnast nokkrum orðum á þau atriði, sem fram komu í ræðu hv. þm. V-Húnv. hér á dögunum, og byrja á að segja það, að mér þótti mjög undarlegt að heyra þá ræðu, því að sumar þær spurningar, sem þessi hv. þm. bar fram, voru líkari því, að það væri barn að spyrja, heldur en fullorðinn maður. Það voru spurningar um augljós atriði, sem í frv. eru. Þrátt fyrir það skal ég víkja að þessum spurningum hv. þm. nokkrum orðum og minnast að öðru leyti á atriði málsins nokkru nánar.

Í fyrsta lagi taldi þessi hv. þm., að samkvæmt 2. gr. frv. væri í því mótsögn, að það mætti ekkert fé veita utan fjárlaga nema með samþykki yfirskoðunarmanna, en þó hefðu þeir ekkert fjárveitingarvald. Nú vita það allir hv. þm. og raunar almenningur líka, að engin ríkisstjórn og engir ríkisforstjórar hafa neitt fjárveitingarvald að lögum, því að það er Alþ. eitt, sem hefur fjárveitingarvaldið. En þó hefur þetta farið svo, að fjárveitingarvaldið hefur í vaxandi mæli verið tekið úr höndum Alþ. og greiddar háar upþhæðir utan fjárlaga, bæði af forstjórum og ráðherrum, og þarf ekki lengra að fara, en að vitna í grg. þessa frv. og önnur alkunn atriði. Nú er það ætlunin með því eftirliti, sem hér er gert ráð fyrir, að þeir menn, sem þarna eiga að hafa eftirlit frá hálfu Alþ., séu veggur eða stifla fyrir því, að ráðh. og forstjórar geti haldið áfram þessum leik í svo víðtækum mæli eins og verið hefur og raun er á. Þessi stífla er samkvæmt frv. gerð það glögg og erfið yfirferðar, að það þarf samkvæmt ákvæðum frv. að verða samkomulag milli allra þessara þriggja manna, til þess að einn ráðh., sem fer fram á að veita fé utan fjárlaga, fái leyfi til þess, eða það sé samþykkt af þessum mönnum, þeir þurfa allir að verða sammála, og venjulega eru þessir menn af þremur stjórnmálaflokkum. Og þótt ætla megi, að það sé jafnan einn af þessum mönnum flokksbróðir verandi fjmrh., þá er þó líklegt, að alltaf verði tveir úr öðrum flokkum, og hér er þess vegna um melri stíflu að ræða í þessu sambandi en svo, að það sé hægt að segja, að það sé látið fjárveitingarvald í hendur þessara manna, því að það mundi því aðeins koma til greina, að ég hygg, að bæði ráðh. og allir þessir menn yrðu sammála, að það væri um óumflýjanlega nauðsyn að ræða til þess að bjarga einhverju máli. Nú er það enn fremur, að til þess er ætlazt, að ef yfirskoðunarmenn verða ekki sammála um eitthvert mál, þá geti minni hluti þeirra heimtað frest á því, þangað til afskipti Alþ. koma til. Þetta munu sumir telja nokkuð hart ákvæði, en það er nú ekki harðara en það, að eins og nú standa sakir hefur það verið s. l. ár og lítur út fyrir að verði þetta ár, að Alþ. stendur 7–8 mánuði, og fresturinn, sem um gæti verið að ræða af þessum sökum, yrði þá ekki lengri, en sem svarar 5 mánuðum í mesta lagi.

Þá var hv. þm. að spyrja mig að, við hvað væri átt, þegar talað væri um að hafa samráð við yfirskoðunarmenn um skiptingu á því fé, sem veitt er í einu lagi, eins og t. d. atvinnuaukningarfé og ýmislegt fleira, sem til greina kemur. Þá er ætlazt til þess með frv., að um leið og það sé haft samráð við þessa menn, verði þeir að samþykkja skiptinguna. Þetta er alveg í samræmi við það, sem gerist í einu allra þroskaðasta þingræðislandi veraldarinnar, Bretlandi, því að þar verða þær n., sem settar eru af hálfu þingsins til að hafa eftirlit með fjárreiðum, að samþykkja skiptingu á slíku fé, til þess að það sé útkljáð.

Þá var hv. þm. að tala um, hvað væri átt við með því, þegar um nýjar stofnanir væri að ræða og gert er ráð fyrir því skv. frv., að það yrði, að svo miklu leyti sem mannaráðningar þar væru ekki ákveðnar í þeim lögum, sem um stofnunina eru, að hafa samráð við yfirskoðunarmenn um slíkar mannaráðningar. Nú geri ég ráð fyrir, að ef þetta eftirlit væri samþykkt, sem hér er reiknað með, mundi verða ríkt eftir því gengið af öllum, sem völdin hafa, að setja lög um slíkar stofnanir, þannig að það væri sem allra mest af mannaráðningum þar lögákveðið, svo að það þyrfti ekki til mikilla kasta að koma nein deila út af þessu atriði. En ef það væri um það að ræða, eins og iðulega hefur verið gert, að bæta við mönnum í gamlar stofnanir og það í stórum stíl, þá yrði þó að fá samþykki til þess, að slíkt mætti gera, og eins er það, ef kaupa ætti bifreiðar eða gera aðrar ráðstafanir, sem hafa mikinn kostnað í för með sér, eins og iðulega á sér stað í ríkisstarfrækslunni hér og hvar.

Þá var hv. þm. V-Húnv. að fetta fingur út í það, að laun og skrifstofukostnaður yfirskoðunarmanna ætti að ákveðast af Alþ. og reikningar að samþykkjast fyrir skrifstofukostnaði af fjvn. Ég sé ekki annað, en þetta sé ákaflega eðlilegt ákvæði og hljóti svo að vera. Þegar fram liðu stundir og þetta skipulag væri komið á, yrði náttúrlega tekin á fjárlög einhver áætlun um það, hvað í þetta þyrfti að fara. En annars býst ég við, að hv. þm. viti það allir, að þegar um er að ræða umframgreiðslur á alþingiskostnaði, sem iðulega verða og fara mjög eftir því, hvað þingið stendur lengi, þá þarf aldrei að taka slíkar umframgreiðslur á fjáraukalög. Alþ. þarf ekki sjálft að biðja um heimild fyrir þeim kostnaði, sem fer til þessarar starfsemi, og þessir menn, sem þarna er um að ræða, yfirskoðunarmennirnir, eru starfsmenn Alþ. og mundu verða það alveg eins áfram, ef þetta frv. yrði samþ., og um kostnað við laun þeirra og skrifstofuhald færi nákvæmlega á sama hátt og með skrifstofu þingsins og þá fasta starfsmenn, sem þingið hefur, og þar þarf ekki nein fjáraukalög til, heldur verður það þingið sjálft og þá í umboði þess, þegar þar að kemur, fjvn., sem á að fjalla þar um og leggja um það till. fyrir Alþ. í eitt sinn.

Þetta er þess vegna, að ég hygg, alveg tilefnislaus aðfinning við frv., þó að gert sé ráð fyrir, að þessi háttur verði á hafður, ef á annað borð frv. yrði samþ.

Þá eru enn fremur nokkur atriði í sambandi við athugasemdir og ásakanir um skekkjur, sem fram komu í ræðu hv. þm. V-Húnv. Hann taldi m. a., að í grg. fyrir þessu frv. væri áætlun um fjáraukalög fyrir 1955 talin 22 millj. hærri en vera ætti. Fyrir þessu var ég búinn að gera grein, þegar 1. umr. um fjáraukalögin fór fram, og sýna fram á, hvaða upphæðir það voru, sem ég tel að vanti inn á fjáraukalögin. Og sannleikurinn er sá, að þar er um að ræða framkvæmdir, annars vegar hjá landssímanum rúmar 10 millj. kr., auk þess upphæð, sem er yfir 11 milljónir kr., á 20. gr. Annars er það svo, að eins og hv. þm. Eyf. tók réttilega fram, þá er það ekki alveg ákveðið og fast, hvort eigi að taka allar þessar tölur inn á fjáraukalög eða ekki, og um það hefur verið mikil deila. En þeir, sem standa að okkar fjmrn., þurfa sannarlega ekki mikið að láta í þessu efni, því að það eru ekki nema tvö heldur en þrjú ár, ég held ekki nema tvö ár, síðan hv. fjvn. Alþ. hækkaði fjáraukalagafrv. um nærri 40 millj. kr., og sjálft ráðuneytið er búið að hækka frv. um fjáraukalög, frá því að það var lagt hérna fyrst fram og þangað til það var tekið til umr., um nokkuð mikið á áttundu millj. kr. Þar að auki er svo að geta þess, að þó að það virðist vera ákaflega vandalítið atriði að taka upp niðurstöðutölur úr ríkisreikningnum og færa það inn á frv. um samþykkt ríkisreikningsins, hefur ekki tekizt betur til hjá ráðuneytinu, fjmrn., í þetta sinn en það, að hv. fjhn. Ed. varð að leiðrétta 12 tölur í þeim útreikningi, og þær geta menn séð á þeim þskj., sem hér liggja fyrir. Það mætti því nærri geta, hvernig yrði niðurstaðan á samningi ríkisreikningsins eftir þessu að dæma, ef það væri fjmrn., sem semdi hann. En það gerir það ekki. Það er önnur stofnun, sem er gleggri á tölurnar, sem það gerir, og það er ríkisbókhaldið, sem semur ríkisreikninginn og hefur gert það með mikilli prýði á undanförnum árum, svo að þar er held ég undantekning og varla til, að yfirskoðunarmenn finni frá þess hálfu nokkra töluskekkju.

Varðandi fjáraukalögin að öðru leyti er þessi deila alveg í samræmi við það, sem fram kom hjá hæstv. fjmrh. hér í ræðu hans um daginn og tók sig út í þeim prósentureikningi, sem hann flutti hér og síðan hefur birzt í Tímanum. Sá prósentureikningur er ákaflega marklítið plagg, og það er af því, að hann er miðaður eingöngu við rekstrarreikning ríkisins, en þar eru ekki teknar með þær tvær gr. fjárlaganna og ríkisreikningsins, sem stærstar umframgreiðslurnar hafa jafnan verið á, og það er 20. gr., sem er kölluð eignahreyfingagrein og er um framkvæmdir og lán, og það er í öðru lagi 3. gr. fjárl., sem er um margar ríkisstofnanir, því að það er sú aðferð á því höfð varðandi 3. gr. fjárl., að inn á rekstrarreikning er ekki tekið annað en mismunur á tekjum og gjöldum hjá þeim stofnunum, sem þar er um að ræða. Og samkvæmt fjáraukalagafrv., sem liggur hér fyrir Alþ., eru umframgreiðslur samkvæmt 3. gr. fjárl. árið 1955 rúmar 18 millj. kr., en eru raunverulega 28 millj. kr., vegna þess að það eru ekki teknar með yfir 10 millj., sem eru framkvæmdir landssímans og eiga sannarlega að koma inn á fjáraukalög. Ef á að bera saman útgjöldin og umframgrelðslurnar í heild sinni, verður alveg eins að taka með ríkisstofnanirnar á 3. gr. og útgjöldin á 20. gr. fjárl., sem eru byggð á útlánum og framlögum til ýmissa framkvæmda, því að það eru sannarlega útgjöld engu síður en margt það, sem er á rekstrarreikningi ríkisins.

Þá eru nokkur atriði, sem ég finn ástæðu til að víkja að í sambandi við ræðu hv. þm. V-Húnv. og snúa að athugasemdum okkar yfirskoðunarmanna við ríkisreikninginn 1955, og ýmislegt af því, sem hann þar sagði, er rétt, því að það eru ekki gerðar athugasemdir við nærri allar umframgreiðslur, sem þar koma fram, og kemur þar fram það sama sem tekið er fram í grg. fyrir þessu frv., að þegar við yfirskoðunarmenn höfum séð það ár eftir ár, hvernig með þær aðfinningar er farið, sem við berum fram ár eftir ár og koma til Alþ., að þær eru ekki teknar til greina, þá er eðlilegt, að við þreytumst á því að grípa nema á stærstu kýlunum, og það eru hlutir, sem við og aðrir sjá að er ákaflega þýðingariítið að vera að gera athugasemdir við löngu seinna, þegar búið er að eyða fénu. Ég skal t. d. nefna, að samkv. 19. gr. á þessum reikningi hefur verið eytt rúmlega 5 millj. umfram fjárlagaáætlun til dýrtíðarráðstafana. Við höfum ekki gert athugasemd við þetta og ekki séð, að það hefði neina þýðingu, vegna þess að það er langt um liðið frá því, að búið er að greiða þetta fé út. En ef við hefðum átt að fjalla um það, áður en til greiðslnanna væri stofnað, væri alveg víst, að við hefðum ekki allir samþykkt sumar þær upphæðir, sem þar eru látnar. Ég segi fyrir mig, að ég mundi aldrei hafa samþykkt að greiða á áttundu millj. til þess að borga niður smjörlíki til að eyðileggja markaðinn á smjöri og mör fyrir bændurna, eins og gert hefur verið með þeirri þrautvitlausu ráðstöfun að borga niður smjörlíkið alltaf með milljónum króna og gera þær framleiðsluvörur bændastéttarinnar, sem hafa þótt eftirsóknarverðastar, eins og smjör og mör, svo lítt seljanlegar sem raun er á orðin, mörinn hér um bil alveg og smjörið að nokkrum hluta, þannig að það liggja fyrir talsverðar birgðir af því. En að gera athugasemd einu eða tveimur árum eftir að reikningur er gerður fyrir svona upphæð, sem ríkisstj. er búin að ákveða, er ákaflega þýðingarlítið og mundi ekki hafa nein áhrif.

Svona er um marga þessa hluti. En það er eins og þeim, sem með fjármálin fara, hæstv. ráðh. og hv. þm. V-Húnv., sem er formaður fjhn., finnist það eiginlega alveg saklaust, þó að það séu borgaðar út svo og svo margar millj. af einstökum greinum, eins og gert hefur verið t. d. á því ári, sem þarna er um að ræða. Við skulum t. d. taka stofnun eins og ríkisútvarpið, sem eyddi umfram fjárlög á þessu ári nærri 3 millj. kr. og auðvitað að óþörfu. Við höfum gert athugasemdir við þetta og það ár eftir ár, en það bara hækkar alltaf meira og meira. Fjvn. og Alþ. hækka við stofnunina töluvert frá því, sem næst var áður, og svo er ár eftir ár greitt enn þá meira utan fjárl. en áður var.

Varðandi stofnun eins og Skipaútgerðina, sem ég ræddi nokkuð um hér í minni síðustu ræðu og hefur eytt umfram fjárlög á þessu ári, að ég ætla, nokkuð á fjórðu millj. kr., þá er það búið mál, þegar reikningurinn kemur til okkar. Við höfum gert athugasemdir við þetta ár eftir ár, en við höfum lagt það til í þetta sinn, sem eðlilegt er, að við svo búið verði að standa, þar sem liðin eru 2 ár og búið að eyða peningunum og ekki nóg með það, heldur er búið að samþykkja tvisvar fjárlög og við erum búnir að sjá einn ríkisreikning í millitíðinni, þar sem allt þetta er tekið með og hækkað enn. En eins og ég gat um um daginn, er í svona falli eins og með Skipaútgerðina um þrjár leiðir að velja. Þegar það er sýnt, að ekki dugir til að standa undir rekstrinum það, sem Alþ. hefur reiknað stofnuninni, þá er um þrjár leiðir að velja, annaðhvort er að draga úr starfseminni, að hækka farmgjöldin ellegar þá að heimta, að Alþ. leggi stofnuninni hærri upphæð, en það hefur ráðgert. Nú hafa tvær af þessum leiðum verið útilokaðar, og það hefur komið í ljós, áður en við gerðum okkar úrskurðartillögu, að þær voru báðar útilokaðar, bæði hækkun farmgjalda og að draga úr starfseminni, og Alþ. var búið að ákveða að hækka framlög til þessarar stofnnnar, eins og hún fór fram á, undir þeim kringumstæðum var málið orðið afgreitt af Alþ. í raun og veru og ekki hægt fyrir okkur að segja annað en þetta: Þetta verður víð svo búið að standa, úr því sem komið er.

Þá er það eitt, sem er í þessu sambandi mjög mikið atriði og kom fram í ræðu hv. þm. V-Húnv. og einnig hjá hæstv. fjmrh. og kemur hvarvetna fram í svörum frá þessari og hinni stofnun, og það er þetta, að stofnunum, sem fá í gegnum sína starfsemi hærri tekjur en áætlað hefur verið á fjárl., sé heimilt að eyða þeim. Þarna erum við yfirskoðunarmenn alveg á gagnstæðri skoðun, því þó að stofnanir fái hærri tekjur, en gert hefur verið ráð fyrir, felst ekki í því nein aukin heimild til þess að eyða umfram þau gjöld, sem ákveðin hafa verið á fjárl. Þetta á sér stað um mjög margar stofnanir, og þær bera því alltaf við: Ja, við höfum fengið svo miklar tekjur, að við getum vel leyft okkur þennan kostnað, — Og ekki nóg með það, heldur er af mörgum stofnunum lánað í ýmsar áttir og það stórfé, þannig að það er útistandandi, svo að millj. skiptir, hjá mörgum þessum stofnunum, sumt í samningsbundnum lánum, sem ekki er svo staðið við samningana um, sumt í útistandandi fé, sem er frá ári til árs, og eiga sér stað slík útlán í mjög stórum stíl.

Ég drap á það hér í minni seinni ræðu hér á dögunum, hvernig væri ástandið að þessu leyti hjá því félagslega fyrirtæki, sem gengur næst ríkinu, sem er Reykjavíkurbær, og sýndi fram á, að þar er ástandið allt annað varðandi það, hvernig staðið er við þá áætlun, sem gerð er í ársbyrjun. því að sum árin er eyðslan undir áætlun og önnur tiltölulega lítil borið saman við þau ósköp, sem hjá ríkinu gerast.

Nú er ekki með þessu sagt, og ég vil ekkert um það segja, hvort öll fjárstjórn Reykjavíkurbæjar sé í svo góðu lagi sem mögulegt væri, en að þessu leyti er þó hún á réttri leið. Og ef ríkisstj. væri á sömu brautinni og bæjarstjórn Reykjavíkur hefur verið á undanförnum árum, væri það sönnun þess, að það væri þingræði ríkjandi, en ekki brotið gegn ákvæðum Alþingis eins stórkostlega og raun hefur verið á á undanförnum árum.

Það mætti margt segja í þessu sambandi, og eitt dettur mér í hug að minna á, að í lok hins fyrra stríðs, á árunum 1918 og 1919, sté allt verðlag alveg gífurlega upp frá því, sem verið hafði, þaut upp stórkostlega, og allur ríkisreksturinn varð á þeim árum hærri, en gert hafði verið ráð fyrir. Þá voru samþ. fjáraukalög fyrir 2 ár, fyrir árin 1918 og 1919, og ég man eftir því, að það var blað eftir blað, kannske heilt ár, verið að stagast á því í Timanum, hvers lags ógurlega óstjórn barna væri um að ræða. Þetta voru fjáraukalögin miklu, sem þessir menn kölluðu. En hvað voru þessi fjáraukalög, sem þá voru kölluð fjáraukalögin miklu? Þau voru 2.2 millj. rúmlega fyrir 2 ár, m. ö. o.: það voru 1.100 þús. kr. á ári og lætur nærri að vera um það bil 1% af því, sem gerist síðustu árin núna. Þá voru það fjáraukalögin miklu, en nú er ekki talað um, að það séu nein fjáraukalög miklu, þó að þau séu yfir 100 milljónir, eins og verið hefur ár eftir ár, enda sýndi ég fram á það hér um daginn, að frá því að núverandi hæstv. fjmrh. tók fyrst við og var í starfi 1934 og þangað til á árinu 1957 hafa meira en hundraðfaldazt útgjöldin eftir áætlun, því að þau voru áætluð 1934 rúmar 12 millj., en samkv. fjárl. og l. um útflutningssjóð á árinu 1957 var áætlunin upp í 1.243 millj. Þetta er meira en hundraðföldun á útgjöldum.

Ég skal nú segja ykkur eina smásögu, sem mér var sögð hér um daginn af öldruðum viðskiptaforkólfi. Hann sagðist sem ungur maður hafa verið staddur í Kaupmannahöfn á fyrstu árum Hannesar Hafsteins ráðherra, sem þá var þar að semja um kjötsölu til Noregs, og það stóð svo á, að þar voru þrír ungir menn, sem voru eitthvað að aðstoða ráðherrann, og varð til þess, að hann bauð þeim í hádegismat á hóteli. Þessi hádegismatur kostaði 37 kr. En þegar þeir voru að fara þaðan og ráðh. borgaði, þá segir hann við þá: Ja, þessar 37 kr. verð ég nú að borga úr mínum eigin vasa, því að mér er ætluð alveg föst upphæð til þessarar ferðar, og þess vegna verð ég að borga úr mínum eigin vasa þessar krónur og allt annað, sem ég eyði auk þess, sem mér er ætlað. Berum þetta saman við núna, þegar það þykir ekki svo mjög til þess takandi, þó að ein ríkisstofnun leyfi sér að halda afmælisveizlu upp á 82 þús. kr. og þó að það fari einn liður í útgjöldum ráðuneytisins fram úr áætlun um nærri 1½ millj., eins og átti sér stað 1955, og svarið, sem fjmrh. gefur við þeirri athugasemd, er ekkert annað en þetta: Ja, það hefur komið í ljós, að fjvn. hefur áætlað þennan lið allt of lágt.

Þetta sýnir, hvernig hugsunarhátturinn er síðustu árin gagnvart því atriði, hvort það eigi að vera Alþ. eða ríkisforstjórarnir og ráðh., sem ráða fjárveitingunum. Það sýnir hugsunarháttinn, og má fá það mjög mikið út úr þeim svörum, ef menn vilja hafa fyrir því að lesa þau, — út úr þeim svörum, sem ár eftir ár birtast í ríkisreikningi frá forstjórum stofnana og ráðh. varðandi athugasemdir um umframgreiðslur og fleiri atriði frá yfirskoðunarmönnum.

Nú er það náttúrlega svo, að þó að það sé alveg tvímælalaust, að Alþ. verður, ef það vill halda sóma sínum, eins og nú er komið, að setja eitthvað nánara eftirlit til varnar þeirri fjármálaspillingu, sem ég hef hér lýst, þá er ekki þar með sagt, að það sé endilega víst, að það sé rétt, að þetta séu yfirskoðunarmenn. Það getur alveg eins mátt kjósa til þess ákveðna nefnd, og því er ekki að leyna, að ég ætlaði mér það upphaflega, ákveðna n, til þess að hafa það með höndum. En eitthvert eftirlit, einhverja stíflu, einhvern varnargarð verður Alþ. hér að setja, ef það vill halda rétti sínum og sýna, að það vilji hafa fjárveitingarvaldið sjálft, en kasta því ekki eins frá sér og það hefur gert á undanförnum árum.