24.03.1958
Neðri deild: 71. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (1799)

153. mál, eftirlit til varnar ofeyðslu hjá ríkinu

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið, þess gerist ekki þörf. Það voru aðeins nokkur atriði, sem ég vildi minnast á.

Það var fyrst varðandi fjárveitingavaldið, sem hv. þm. V-Húnv. (SkG) gat ómögulega skilið annað, en hér væri verið að setja á laggirnar og taldi fráleita þá kenningu, sem ég hafði flutt um þetta efni í minni ræðu um málið. Ég get ekki fallizt á þessa skoðun hv. þm. V-Húnv. Ég benti á það í minni ræðu, að raunverulega væri ekkert slíkt fjárveitingavald til, hvorki hjá ríkisstj. né neinum öðrum aðila nema Alþ. sjálfu samkvæmt stjórnskipun ríkisins. Hins vegar hefði þróunin orðið sú í framkvæmd, að það hefði haldið innreið sína annað skipulag, sem væri í því fólgið, að ríkisstj. á hverjum tíma hefði greitt allverulegar fjárhæðir af hendi án nokkurrar heimildar: Með þessu frv. hér væri ekki verið að gera á þessu máli neina aðra breytingu, en þá að setja fastari reglur um það, hvernig þessum greiðslum yrði háttað. Og það er vitanlega alls ekki gert ráð fyrir því, að ríkisstj. á hverjum tíma geti haft þann hátt á að segja við þá, sem til hennar leita: Farið þið bara í yfirskoðunarmenn ríkisreikninga eða hverja þá, sem í þessa eftirlitsnefnd væru kjörnir, og þeir geta lagt á það blessun sína, að þetta fé verði af hendi greitt. Það er vitanlega eftir þessu frv. gert ráð fyrir, að það verði ekki breytt um á neinn hátt varðandi þann hemil, sem nú er, að svo miklu leyti sem það er hemill hjá ríkisstj. sjálfri um að reyna að forðast með öllu móti slíkar greiðslur. Ef hins vegar ríkisstj. er þeirrar skoðunar, að hún telji ekki vera hægt að komast hjá þessum greiðslum, þá verður hún, í stað þess eins og er nú í dag, að hún taki endanlega ákvörðun um það sjálf, eftir þessu frv. að bera sig saman við þessa menn og vera háð endanlegu samþykki þeirra, áður en greiðslan er af hendi innt. Þess vegna fæ ég ekki skilið, hvernig er hægt að halda fram þeirri kenningu, að með þessu sé verið að taka úr einhvern hemil, nema því aðeins að hv. þm. V-Húnv. vilji halda því fram, að ríkisstj. muni, ef slík skipan verður upp tekin, verða algerlega ábyrgðarlaus í þessum efnum og hætta að hafa nokkra tilburði í þá átt að sporna við umframgreiðslum. Það vil ég ekki álíta.

Hv. þm. V-Húnv. vildi halda því fram, að með þessu frv. væri sérstök árás gerð á hæstv. núverandi fjmrh., þar sem ég hefði í minni ræðu talað um það, að umframgreiðslur væru nú komnar yfir hundrað millj., og hann taldi, að því er mér skildist, að þá gæti ekki í rauninni verið átt við annan mann. en núverandi fjmrh. Nú, látum það gott heita, við hvern sem átt er. Ef það á ekki við annan en hann, þá verður það að sjálfsögðu að vera svo, og þá er það vitanlega mjög leitt, ef hann hefur tekið upp þann hátt og hann einn að hafa umframgreiðslur svona stórfelldar.

Það atriði, að ég hefði forðazt hlutfallareikning í minni ræðu og verið þar á sömu línu og hv. þm. A-Húnv., þá er um það efni að segja, að ég hef að sjálfsögðu ekkert á móti hlutfallareikningi, en hlutfallareikningur hefur því aðeins rétt á sér, að verið sé að bera saman sambærilegar upphæðir. Það er ekki nóg að segja það í þessu sambandi, að vitanlega séu hundrað milljónir minna virði í dag, en þær hafi verið fyrir 8 eða 9 árum. Þegar er verið að meta það, hvort ástæða sé til umframgreiðslna á fjárlögum eða ekki, verður að sjálfsögðu að taka það með í reikninginn, hvaða aðstöðu fjmrh. á hverjum tíma hefur til þess að sjá fram í tímann, hver þróunin muni verða á fjárlagaárinu, og það er að sjálfsögðu ákaflega mismunandi aðstaða. Það er alveg rétt, að fjárlög hafa hlutfallslega farið oft miklu meira fram úr áætlun, en undanfarin síðustu ár. En í ýmsum þeim tilfellum var gersamlega útilokað fyrir fjmrh, að vita, hver verðlagsþróunin mundi verða á fjárlagaárinu. Og það, sem ég lagði áherzlu á í minni ræðu, var einmitt það, að nú síðustu árin hefði mjög oft verið um að ræða litla hækkun á vísitölu, mjög litla hækkun á vísitölu á fjárlagaárinu, þannig að um verðbreytingar hefði ekki verið að ræða, sem hefðu getað orkað nema að mjög litlu leyti á umframgreiðslur fjárlaga. En þessu er allt annan veg háttað ýmis þau ár, sem hv. þm. V-Húnv. vék hér að í sinni ræðu og hæstv. fjmrh., þannig að það er eigi síður villandi að nota hlutfallsútreikninga þeirra, heldur en að nota þann töluútreikning, sem hv. þm. A-Húnv. hefur haft í sínu frv., ef hægt er að segja, að þar sé um einhvern villandi samanburð að ræða.

Hv. þm. V-Húnv. hefur nú nokkuð dregið í land varðandi það, að hann eða hæstv. ráðh. séu á móti þessu frv., það sé að sjálfsögðu allra góðra gjalda vert að benda á leiðir til þess að draga úr eyðslu hjá ríkinu og umframgreiðslum. En þó gengur nú allt hans mál út á það að finna þessum hugmyndum allt til foráttu. Ég sagði í minni ræðu hér áður, að það gæti vel verið, að það væri hægt að finna einhverja aðra skipan á þessu máli, og flm. hefur hér lýst því yfir, að hann sé til viðræðu um það, og það kemur þá að því í hv. fjhn. að reyna á hinn góða vilja formanns þeirrar nefndar, hv. þm. V-Húnv., sem því miður er sagður ekki vera allt of fljótur að afgr. ýmis mál frá n., ef honum geðjast ekki að þeim. En teiji hann þetta mál góðra gjalda vert, eins og hann sagði hér í ræðu sinni áðan, má vænta þess, að hann sé fús til þess að hraða afgreiðslu þess og benda þá á þær leiðir, sem hann telur færari í þessu efni, en á er bent í frv.

Það, sem ég benti á í minni ræðu, var, að höfuðatriði málsins væru tvö: annars vegar það, að umframgreiðslurnar væru óviðunandi, og hins vegar það, að það væri sjálfsagt, að Alþingi hefði hér úrskurðarvald eins og um fjárveitingar almennt og um samþykkt fjárlaga. Þetta tel ég vera kjarnann í þessu frv., sem það stefni að. Varðandi hitt atriðið, hvort það ætti að velja einhverja aðra menn til þess að hafa þetta eftirlit með höndum eða ekki, getur það vel komið til álita. En ef það er skoðun hv. þm. V-Húnv., að það hafi enga þýðingu að velja menn til þessa eftirlits, þá held ég, að það stangist mjög á við skoðun hæstv. fjmrh., sem hér nýlega hefur lagt fram frv. um einmitt að velja eftirlitsnefnd til þess að reyna að sporna gegn kostnaði í ríkisrekstri. Hann virðist ekki fordæma þá hugsun, að slík eftirlitsnefnd sé sett á fót, og telur, að það sé líklegt, að hún geti eitthvað orkað í sparnaðar- og aðhaldsátt.

Hv. þm. V-Húnv. hélt hér fram þeirrí furðulegu kenningu, að frv. þetta væri nánast brot á bæði lýðræðis- og þingræðisreglum. Það mátti nú ekki minna gagn gera. Hvernig hann fær rökstutt það, skil ég nánast ekki, enda gerði hann nú ekki neina tilraun til að rökstyðja það, hvernig það gæti verið brot á lýðræði og þingræði að leggja til, að áhrif Alþingis væru aukin. Og ég sé ekki, að með þessu sé verið á neinn hátt að leggja til, að lýðræði sé skert, nema hann telji, að það eitt sé lýðræði, að ríkisstj. fái að ráða fjármálunum eins og henni bezt þóknist. Ég hef ekki skilið, að það sé neitt grundvallaratriði lýðræðisins, að sú skipan mála væri á.

Hann spurði að því, hvenær augu mín hefðu opnazt fyrir því, að það væri óeðlilegt að veita í stóru lagi opinberar fjárhæðir í fjárlögum, án þess að einhver sérstök skipan væri á um skiptingu þess fjár. Ég vil benda hv. þm. á eitt atriði, sem ég vék að í minni ræðu, og það er varðandi fé það, sem í einu lagi er veitt til atvinnuaukningar. Ég hef hér ásamt fleiri þingmönnum þing eftir þing flutt frv. um að koma þessum málum í skipulegt horf. Og þegar þar er orðið um að ræða 12–15 millj. kr. á ári, þá er að sjálfsögðu alveg fjarstætt að hafa það skipulagsleysi á því eins og nú ríkir. Ég held því, að það hafi komið fram fyrir alllöngu mín skoðun og skilningur á þessu máli, þannig að það liggi ljóst fyrir, að það sé ekki um að ræða neina nýjung í því efni. Að hve miklu leyti þetta eigi að útfærast í öllum einstökum atriðum, getur vafalaust verið álitamál, en ég fæ ekki séð, að það eyðileggi alla möguleika til þess að hafa skynsamlegan hátt á þessum málum, þó t. d. að það yrði borið undir yfirskoðunarmenn ríkisreikninga varðandi skiptingu þessa fjár. Og það var upplýst hér við 1. umr. þessa máls, að þessi skipan mála væri á höfð t. d. í Englandi, og það hefur enginn, held ég, látið sér detta í hug þar, að það væri gersamlega útilokað, að þingnefnd eða þingkjörnir menn hefðu eitthvert áhrifavald á þessa skiptingu, — og að slíkir hlutir séu ómögulegir hér, sem þar eru taldir mögulegir og eðlilegir, það fæ ég ekki skilið.

Svo kom nú eiginlega rúsínan í málflutningnum fram, þegar hv. þm. sagðist ekki skilja í því, hvernig stæði á, að við legðum ekki til, að sá háttur yrði upp tekinn eins og í Bandaríkjunum, að banna allar umframgreiðslur, — og ekki mundi það nú auðvelda málið, eftir hans skoðun. Annars er ástæðan til þess mjög einföld og skiljanleg, og hún byggist á því, að í Bandaríkjunum situr þingið yfirleitt meginhluta ársins eða svo að segja allt árið, en hér er þó enn svo, enda þótt þingtími hafi nú verið lengdur allríflega undir forsæti núverandi ríkisstj., að það eru nokkrir mánuðir ársins, sem þing situr ekki hér, þannig að það er ekki mögulegt að fá, eins og gert er í Bandaríkjunum, sérstaka lagaheimild hverju sinni, ef um óumflýjanlegar umframgreiðslur er að ræða. Og það er vitanlega viðurkennt af öllum, að það getur slíkt ástand skapazt, að það sé óeðlilegt annað, en inna af höndum einhverjar umframgreiðslur, þannig að það er að sjálfsögðu ekki fært að taka upp þá skipan mála að banna það algerlega. Það hefur verið, sýnist mér, reynt að fara skynsamlegan milliveg í þessu frv. varðandi lausn þessa máls, að reyna að setja á það hemil, án þess þó að það sé allt of langt gengið og skapaðir óeðlilegir erfiðleikar.

Ég held það séu ekki önnur atriði í ræðu hv. þm. V-Húnv., sem ég sé ástæðu til þess að svara. Ég skal aðeins að lokum minnast á það, sem hann sagði síðast í sinni ræðu, að það væri einkennilegt, að hv. þm. A-Húnv. virtist ekki kunna að fara með tölur, þar sem hann væri að tala um útgjöld ríkissjóðs svo og svo há, að þau hefðu hundraðfaldazt á tilteknu tímabili, því að það væri ekki sjáanlegt af fjárlögum.

Vitanlega eru það alveg sambærilegar tölur, sem þarna er um að ræða, því þó að sá háttur hafi verið á hafður að taka þessar fjárveitingar og greiðslur til útflutningsframleiðslunnar á þann hátt að setja á laggirnar sérstakan sjóð til að standa undir þessum greiðslum, þá er fjár aflað í þennan sjóð eftir nákvæmlega sömu leiðum og er aflað til ríkissjóðsins, og það er auðvitað í rauninni hin mesta blekking, sem er til komin eingöngu á þann hátt, að hæstv. núv. fjmrh. vildi ekki láta fjárlögin hækka svona mikið. Þá var fundin þessi regla, að mynda bara nýjan sjóð til þess að halda fjárlagaútgjöldunum niðri. Nú hefur verið gengið enn þá lengra í þessu tilfelli með því að taka nýjar og nýjar upphæðir út af fjárlögunum, Hvort á að mynda nýjan sjóð enn, það veit ég ekki, en með því að hafa þennan hátt á, er náttúrlega hægt að koma blátt áfram í veg fyrir, að fjárlög hækki nokkurn skapaðan hlut. Mér skilst jafnvel, að þau lækki nú frá því í fyrra, svo að þetta lítur náttúrlega ljómandi vel út á pappírnum. En að ætla að bjóða nokkrum manni upp á þá kenningu að halda því fram, að þetta sé góð og gild vinnubrögð, — og þetta er náttúrlega hægt í prósentuútreikningi síðar meir, — en ég held samt, að það þýði ekki að ætla að vera að villa um fyrir mönnum í þessu efni og halda því fram, að hér sé bara um fé að ræða, sem ekki skipti nokkru máli, af því að það gangi ekki til að borga einhverja tiltekna hluti, heldur aðrar þarfir. Hér er um að ræða fé, sem ríkið tekur af borgurunum til þess að uppfylla vissar þarfir, sem leiðir af ákveðinni þróun í þjóðfélaginu, og skiptir auðvitað engu meginmáli, hvort bókhaldslega séð er fært inn í ríkissjóðinn eða einhvern annan sjóð, þannig að sá samanburður er fullkomlega eðlilegur.

Ég vil svo aðeins að lokum vænta þess, að velvilji sá, sem kom fram hjá hv. þm. V-Húnv. til þess að koma einhverjum skynsamlegum hemli á þessar síauknu umframgreiðslur ríkissjóðs, nægi til þess, að hann muni í fjhn. reyna að ýta þessu máli áfram og þannig, að það geti fengið endanlega afgrelðslu nú á þessu þingi.