05.05.1958
Neðri deild: 87. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í C-deild Alþingistíðinda. (1820)

58. mál, fræðsla barna

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Ef frv. þetta væri samþ., mundi þar með verða stigið ákaflega mikið skref varðandi allt fræðslukerfi landsins, sem gæti haft afleiðingar um ófyrirsjáanlegan tíma og haft veruleg áhrif á það, hvernig kennslukerfi framtíðarinnar verður hér á landi. Menn kunna að halda, að þetta sé að gera mikið úr málinu. En við skulum aðeins líta til reynslu nágrannaþjóða okkar um það, hversu alvarlegt það getur verið, ef trúmál og kennslumál blandast mikið saman. Af þessum ástæðum og ýmsum öðrum hefur meiri hl. menntmn. ekki séð sér fært að mæla með samþykkt frv. á þessu stígi.

Hins vegar eru okkur ljósar ýmsar þær aðstæður, sem munu hafa orðið bein orsök þess, að frv. er fram komið. Við leggjum því til, að ríkisstj. kynni sér vandlega fjárhag þessara skóla og athugi hag þeirra, sérstaklega með tilliti til þess, að einhverjir þeirra kynnu að neyðast til eða vera að því komnir að hætta störfum af fjárhagsástæðum.

Ég hef ekki, nema tilefni gefist, frekari orð um þetta nál., en till. meiri hl. menntmn. er, að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.