08.05.1958
Neðri deild: 89. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í C-deild Alþingistíðinda. (1835)

157. mál, kostnaður við skóla

Frsm. (Páll Þorsteinsson) :

Ég hafði tekið að mér að hafa á hendi framsögu í þessu máli af hálfu menntmn., en þegar 2. umr. málsins fór fram hér í d., var ég fjarstaddur vegna ferðalags úti á landi. Ég vil því leyfa mér við þessa umr. að fara um málið örfáum orðum af hálfu nefndarinnar.

Menntmn. hefur athugað þetta mál og orðið ásátt um að mæla með samþykkt þess. Einn nm., hv. 3. þm. Reykv., var þó fjarstaddur á fundi n., þegar málið var afgreitt, og hefur ekki tekið afstöðu til málsins.

Um langt skeið hefur Ingibjörg Jóhannsdóttir skólastýra og eigandi skólans á Löngumýri í Skagafirði haldið þar uppi húsmæðrakennslu. Í lögum nr. 49 frá 1946, um húsmæðrafræðslu, er heimilað að veita hliðstæð framlög úr ríkissjóði til rekstrar þessa einkaskóla á Löngumýri og aðrir húsmæðraskólar njóta, og sú heimild hefur verið notuð. En nú eru að verða eigendaskipti að þessari stofnun á þann hátt, að Ingibjörg Jóhannsdóttir afhendir þjóðkirkju Íslands öll hús tilheyrandi þessum skóla á Löngumýri í Skagafirði, og gjöfin er látin í té með vissum skilyrðum, og eitt aðalskilyrðið er það, að þjóðkirkja Íslands skuldbindi sig til þess að starfrækja framvegis á Löngumýri húsmæðraskóla fyrir ungar stúlkur.

Í Skagafjarðarhéraði er ekki annar húsmæðraskóli, svo að sú fræðsla, sem þarna hefur farið fram og mun halda áfram í þessari stofnun, þótt eigendaskipti verði, er mjög í þágu Skagafjarðarhéraðs, og raunar sækja þessa menntastofnun nemendur víðar að, eins og algengt er um sams konar skóla. En til þess að tryggt sé, að skólinn verði áfram menntastofnun á þessu sviði, fyrst og fremst fyrir Skagafjörð svo og nemendur annars staðar, sem vilja nema í þessum skóla, þá þykir nauðsyn bera til, að skólinn njóti áfram sama stuðnings þrátt fyrir eigendaskiptin og hann hefur notið.

Það er efni þessa frv. að fá þetta tryggt með löggjöf. Menntmn. er það kunnugt, að flutningsmenn þessa frv. og aðrir, sem áhuga hafa á þessu máli, hafa hug á því, að skólinn geti einnig átt þess kost að njóta fjárhagsstuðnings til þess að veita fræðslu með námskeiðum, án þess að þau standi í beinu sambandi við aðalskólastarfið. Nefndin athugaði nokkuð þessa hlið málsins. Með frv. þessu, ef að lögum verður, er skóla þeim, sem hér um ræðir, veittur hliðstæður réttur til framlaga úr ríkissjóði til kennaralauna og rekstrarkostnaðar eins og aðrir húsmæðraskólar njóta. En í lögum nr. 49 frá 1946, um húsmæðrafræðslu, er ákvæði um námskeið, sem haldin eru á vegum skólanna. Í 17. gr. þeirra laga segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Námskeið í verklegum greinum, er standa eigi skemur, en þrjár vikur, skulu styrkt á sama hátt og önnur kennsla í skólum.“

Menntmn. lítur svo á, að um leið og skólinn á Löngumýri er settur á sama bekk og aðrir húsmæðraskólar, að því er lýtur að rekstrarkostnaði, taki einnig til hans það ákvæði laganna um húsmæðrafræðslu, að námskeið skulu styrkt á sama hátt og önnur kennsla í skólanum, N. leggur því til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir, en svo sem ég gat um í upphafi máls míns, var einn nm. fjarstaddur, þegar n. afgreiddi þetta á fundi sínum.