02.06.1958
Efri deild: 115. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í C-deild Alþingistíðinda. (1854)

157. mál, kostnaður við skóla

Forsrh. (Hermann Jónasson) :

Herra forseti. Það lá að vísu í orðum hv. 11. landsk. þm., að ég hef farið með rétt mál. Hann sagði, að skólinn mundi starfa með löglegum hætti núna, en það hefði verið tæpt á undanförnum árum. Við skulum ekki vera að tala neitt tæpitungumál með það, að það hefur verið vísað til gjafabréfs, og á þeim grundvelli hefur skólinn verið rekinn með 8 og 9 nemendum í staðinn fyrir 12. (Gripið fram í.) Já, 14 í vetur, segir hann, og það dreg ég heldur ekkert í efa, að það muni vera. Og sama er með Hallormsstað. Ég vildi aðeins, að þetta kæmi fram, því að það lá við, að það væri rengt, sem ég hafði sagt um þetta mál, en þær upplýsingar eru réttar. Það er gott, að það er upplýst núna, að það er tveimur nemendum fleira, og áhugakona um þessi mál fór vestur nú fyrir nokkru, — ég hygg, að það hafi verið s. l. sumar, — til þess að reyna að koma því til vegar, að skólinn gæti haldið áfram löglega, án þess að nefna þar nokkur nöfn, og ræddi við mig, áður en hún fór og eftir að hún kom. En svona hefur það verið á mörkum.