05.12.1957
Efri deild: 32. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

69. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Jón Kjartansson:

Herra forseti. Það er ekki til að andmæla þessu frv., að ég kvaddi mér hljóðs. Ég vildi leyfa mér í sambandi við þetta mál að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann geti gefið deildinni upplýsingar um, hvernig hagur félagsheimilasjóðs stendur nú í dag. Eins og kunnugt er, voru gerðar miklar breytingar á þessum lögum á síðasta þingi, tekjur sjóðsins voru auknar verulega, en á móti kom hins vegar það, að mörgum aðilum var bætt við, sem áttu kröfu til sjóðsins. Þetta vorum við ýmsir deildarmenn hræddir um að mundi ganga út yfir dreifbýli, sem vissulega átti að njóta sjóðsins fyrst og fremst. En ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort hann geti gefið upplýsingar um þetta, hvernig sjóðurinn stendur núna, og ef ekki, þá að hv. nefnd aflaði sér þessara upplýsinga.