24.10.1957
Neðri deild: 8. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í C-deild Alþingistíðinda. (1882)

20. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Ragnhildur Helgadóttir) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að láta í ljós nokkra ánægju yfir þeim áhuga, sem sessunautur minn, hv. þm. V-Húnv., sýnir þessu máli, og að hann hefur eytt tíma í að reyna að reikna út áhrif þessa frv., ef að lögum yrði, á skattgreiðslu hjóna með 4 börn á framfæri. Hann kvartaði um, að upplýsingar um áhrif þessa frv. hefðu ekki komið hér fram. En satt að segja taldi ég heldur leiðara að þreyta hv. þdm. með löngum talnalestri, en hef hins vegar langan lista um áhrif þessa frv. í fórum mínum, sem þegar er prentaður í þingtíðindum síðan í fyrra, og einnig hef ég talnalista beint frá skattstofunni og skal fúslega láta formanni hv. fjhn. þessar upplýsingar í té, en þær eru mun nákvæmari og fyllri en þær upplýsingar, sem hv. ræðumaður kom hér með áðan, og sýna, að þetta frv. hefur mjög hagstæð áhrif fyrir öll hjón og ekki sízt þau hjón, þar sem bæði hjónin afla beinna tekna. Hv. ræðumaður lét í það skína, að þetta frv. yrði einungis til þess að lækka stórlega tekjur hátekjumanna, og taldi það mjög miður farið. Þessir hátekjumenn, sem hann vildi telja svo miklar meinvættir þjóðfélagsins, eru í þessum tilfellum kannske helzt hjón, sem bæði afla allgóðra tekna, og veit ég ekki, hverja á að telja hátekjumenn, ef ekki fólk, sem svo er ástatt um. Ef til vill er maðurinn með sínum tekjum einum saman ekki talinn hátekjumaður, en þegar tekjur beggja hjónanna eru lagðar saman, fellur það undir það, sem hv. ræðumaður kallar því nafni. Svo virtist einnig sem hann teldi það galla á þessu frv., að lágir skattar lágtekjufólks lækkuðu lítið. En það liggur í augum uppi, að óréttlætið er meira, því hærri sem skattstiginn verður, og meiri þörf á að lagfæra þá annmarka, sem þar koma fram, heldur en lága skatta lágtekjufólks, sem hefur 4 börn á framfæri, eins og var í því dæmi, sem hv. ræðumaður nefndi. Vissulega væri langæskilegast, að fólk þyrfti enga skatta að greiða. En fyrst fólkið þarf enn þá að greiða beina skatta í þessu þjóðfélagi, þá er sannarlega vert að reyna að koma í framkvæmd því réttlæti, sem nokkur föng eru á.

Hv. ræðumaður spurði einnig, hvort áætluð hefðu verið þau áhrif, sem framkvæmd slíks frv. kynni að hafa á tekjur ríkissjóðs. Ætla má, að þótt öll nákvæmni í reikningum skattstofunnar væri viðhöfð, væri gersamlega ómögulegt að segja fyrir um það, hver áhrif slíkt frv. hefði, er nokkuð liði frá, því að svo mörg atriði hefur slík nýskipan skattamála áhrif á, að það yrði alls ólíkt því, sem nú er. Framtöl yrðu réttari, fólk mundi leggja meira á sig til að afla meiri tekna, og þannig mætti gera ráð fyrir, að þær upphæðir, sem yrðu taldar fram til skatts, yrðu mun hærri, en að óbreyttu ástandi.

Ég mun svo, eins og ég áður sagði, vona að nefndin sýni þessu máli frekari skilning en áður hefur verið, og hygg enda, að það muni mega ráða af orðum hv. síðasta ræðumanns, að nokkur áhugi verði nú þessum málum sýndur.