07.11.1957
Neðri deild: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 166 í C-deild Alþingistíðinda. (1891)

24. mál, veltuútsvör

Flm. (Björn Ólafsson) :

Herra forseti. Á síðasta þingi flutti ég ásamt hv. þm. A-Húnv. og hv. þm, Snæf. frv. um breyt. á útsvarslögum á þann hátt, að veituútsvar, sem nú er farið að leggja á í öllum sveitarfélögum landsins, væri gert frádráttarhæft, vegna þess mikla misréttis, sem þetta útsvar veldur. Þetta frv. var afgreitt frá þinginu á þann hátt, að meiri hl. fjhn. lagði til, að því yrði vísað til stjórnarinnar, og að sjálfsögðu hlaut frv. þau örlög.

Það má furðulegt heita, hversu lengi Alþingi og ríkisstjórnir hafa staðið gegn því að veita bæjarfélögunum nýjan og heilbrigðan tekjustofn til þess að standa undir útgjöldum sínum. Löggjafarvaldið hefur á undanförnum árum bætt á bæjarfélögin margvíslegum útgjöldum án þess að sjá þeim fyrir nýjum tekjustofnum.

Það hefur margoft verið bent á, að því hlytu að vera takmörk sett, hversu langt löggjafarvaldið gæti gengið á þeirri braut að skipa bæjarfélögunum að standa undir lögum og ráðstöfunum, sem þingið samþ. og kosta bæjarfélögin mikið fé, án þess að örlaði á því, að þeim væru heimilaðar nýjar leiðir til tekjuöflunar.

Sveitarútsvarið hefur frá öndverðu verið aðaltekjustofn bæjar- og sveitarfélaga. En fyrir nokkrum árum var svo komið að þessi tekjustofn var orðinn gersamlega ófullnægjandi, ef átti að fullnægja þeim kröfum, sem þegnarnir og löggjafarvaldið gerðu til bæjarfélaganna. Þá var gripið til tekjuöflunar, sem ég held mér sé óhætt að fullyrða að eigi hvergi annars staðar nokkra hliðstæðu, en það er veltuútsvarið. Og þetta útsvar, sem bæjarfélögin urðu að grípa til í vandræðum sínum, er lagt á án nokkurs tillits til tekna eða efnahags gjaldendanna.

Þetta stríðir að sjálfsögðu beint gegn lögum um útsvör, sem kveða svo á, að útsvör skuli lögð á eftir efnum og ástæðum. Þarna er farið þveröfugt að. Þetta útsvar mismunar gjaldendum miklu meira, en nokkrir aðrir opinberir skattar. Þar að auki er þetta mjög hættuleg tekjuöflun. Það eru nú bæjarfélögin farin að sjá. Og hættan liggur í því, að með þessum útsvörum dregur hið opinbera, sveitar- og bæjarfélögin, til sín eignir og veltufé þeirra atvinnuvega, sem verða að bera þetta útsvar. Nú eru veltuútsvör, held ég mér sé óhætt að fullyrða, lögð á um allt land, og álagningarprósentan mun vera frá 0.6% og upp í 5% og allt þar á milli. Mikið hefur verið talað um þetta útsvar hér í Reykjavík, sem að vísu er ekki að furða, þar sem hér eru flest fyrirtækin, sem fyrir útsvarinu verða, en ég fullyrði, að veltuútsvör í Reykjavík, eru lægri en annars staðar á landinu, þegar allt kemur til alls.

Með því frv., sem hér er lagt fram, er veltuútsvarið miðað við 3% hæst, og bæjarfélögunum sé lögheimilt að leggja á veltuútsvar, en á öðrum grundvelli, en tíðkazt hefur.

Um það verður ekki deilt, að bæjarfélögunum er ákaflega brýn nauðsyn að halda tekjustofni sem þessum, og það er víst óhætt að fullyrða það, að þau gætu ekki komizt af, ef þennan tekjustofn ætti að taka af þeim, án þess að nokkuð annað kæmi í staðinn. Þetta sýnir m. a. sú samþykkt, sem var gerð í síðasta mánuði af fulltrúum bæjarfélaga frá Austur-, Norður- og Vesturlandi, þar sem þeir gerðu ákveðnar till., m. a. í sambandi við veltuútsvarið, að það yrði gert frádráttarhæft, til þess að mönnum væri fært að standa undir því, á sama hátt og við lögðum til í frv., sem ég gat um í byrjun, og að veltuútsvarið gengi jafnt yfir alla. Þar áttu fulltrúar bæjarfélaganna við, að samvinnurekstur bæri að sínu leyti sömu byrðar hvað veltuútsvarið snertir eins og aðrir gjaldendur í landinu. En þessi samþykkt bæjarfélaganna frá þremur landsfjórðungum sýnir líka það, að bæjarfélögunum er orðið ljóst, að ekki er hægt lengur fyrir þau að halda uppi þessum gjaldstofni eða leggja á veltuútsvarið, án þess að það sé gert frádráttarhæft. Þess vegna hafa þeir gert þessa till. sína, að útsvarið verði gert frádráttarhæft. En ég tel, að það fyrirkomulag, sem kemur fram í þessu frv., sé á allan hátt miklu heppilegra og heilbrigðara.

Ég ætla að leyfa mér að taka nokkur dæmi til þess að sýna, hversu veltuútsvarið kemur geipilega ójafnt niður á gjaldendur. Það virðist leika verst þau fyrirtæki, sem hafa mikla veltu og eru rekin með litlum hagnaði af hverri krónu, sem þau velta. Þetta kemur því harðast niður á þeim fyrirtækjum, sem bezt eru rekin frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Þessi dæmi, sem ég tek, eru ekki aðeins tekin úr Reykjavík. Þau eru tekin hingað og þangað að af landinu, enda er þetta vandamál í öllum bæjarfélögum landsins. Dæmin eru flest tekin af iðnaðarfyrirtækjum í ýmsum greinum, sem hafa mikinn rekstur á okkar mælikvarða, en þetta á einnig við verzlun og alls konar fyrirtæki í landinu, sem gefa þjónustu á ýmsa lund. Upplýsingarnar eru um skattgreiðslur á þessu ári. Þær eru fengnar hjá löggiltum endurskoðendum, án þess að upp séu gefin nöfn greiðenda, og er því enginn trúnaður rofinn í sambandi við þessar upplýsingar.

Fyrsta dæmi: veltuútsvar 55.800 kr., tekjuskattur og útsvar 300.614 kr., Samtals 356.414. Nettótekjur fyrirtækisins 504 þús. Afgangur 147 þús. Annað: veltuútsvar 176.500, tekjuskattur og útsvar 316.599. Samtals 493 þús. af nettótekjum 530 þús. Afgangur er 36.951. Menn taka eftir, að tekjurnar eru svipaðar hjá báðum fyrirtækjunum, en fyrra fyrirtækið borgar 55.800 í veltuútsvar, en hitt 176.500. Þriðja dæmi: veltuútsvar 128.080 kr., tekjuskattur og útsvar 221.608. Samtals skattar 349.688 af nettótekjum 406.600. Afgangur 56.660. Fjórða dæmi: veltuútsvar 115.660, tekjuskattur og útsvar 293.011 kr. Samtals 408.671. Nettótekjur 503.900. Afgangur 95.229. Fimmta dæmi: veltuútsvar 138.496, tekjuskattur og útsvar 232.065 kr. Samtals 370561 af nettótekjum 389.400, Afgangur 18.839. Sjötta dæmi: veltuútsvar 92.100 kr., tekjuskattur og útsvar 27.910. Samtals 120.010 af nettótekjum 753.00 kr. Greitt umfram tekjur 44.710. Sjöunda dæmi: veltuútsvar 296.450 kr., tekjuskattur og útsvar 208.810. Samtals 505.260 af nettótekjum 426.531. Greitt umfram tekjur 78.729. Menn veiti því athygli, að veltuútsvarið af 426 þús. kr. er 296 þús. Áttunda dæmi: veltuútsvar er 172.725, tekjuskattur og útsvar 39.910. Samtals 212.635 af nettótekjum 131.940. Greitt umfram tekjur 80.695 kr. Níunda dæmi: veltuútsvar 292.800, tekjuskattur og útsvar 242.561. Samtals 535.361 af nettótekjum 433.200. Greitt umfram tekjur 102.161 kr. Tíunda dæmi: veltuútsvar 836.200, tekjuskattur og útsvar 335.188. Samtals 1.171.388 kr. af nettótekjum 512.898. Greitt umfram tekjur 658.490 kr.

Hér koma svo þrjú dæmi um gjaldendur, sem sýna tap á árinu. Fyrsta dæmi: veltuútsvar 149.100, enginn tekjuskattur. Tap 369.486 kr. Annað: veltuútsvar 14.690, enginn tekjuskattur. Tap á árinu 892 kr. Þriðja: veltuútsvar 290 þús., enginn tekjuskattur. Tap á árinu 589.975.

Um það verður ekki deilt, að þessi dæmi eru rétt. Hér er ekki verið að búa til neinar tölur, og þessi dæmi eru tekin víðar, en frá Reykjavík. Nettótekjur þeirra tíu skattgreiðenda, sem ég las upp fyrst, nema samtals 3.914.069 kr. Af þessum tekjum er fyrirtækjunum gert að greiða samtals veltuútsvar 2.304.811, og tekjuskattur og útsvar 2.218.276, eða samtals 4.523.087 eða samtals um að jafnaði 609 þús. kr. á þessum tíu fyrirtækjum umfram tekjurnar, Fimm fyrirtæki af þessum borga samtals 964.785 umfram tekjur, en fimm fyrirtæki fá að halda samtals 355.767.

Á þessu sést, hversu gífurlega ranglátur skattur veltuútsvarið er. Og þetta sýnir einnig, að ekki er hægt fyrir nokkurt þjóðfélag að halda upp slíkum skatti. Þjóðfélagið er að grafa undan sínum eigin fjárhagsgrundvelli með þessu. Og svona skattur getur ekki staðið nema takmarkaðan tíma. Það er útilokað. Skattgreiðandinn er gersamlega varnarlaus. Hann fær ekki að draga þetta frá. Hann getur ekki fengið að taka tillit til þess á neinn hátt. Veltuútsvarið getur gert hann gjaldþrota á einu ári, þó að hann hafi verið áður vel stæður. Og mér er kunnugt um það, að síðan veltuútsvarið fór að komast í algleyming, er fjöldi fyrirtækja í ýmsum greinum, sem verður að draga skattinn frá eignum sínum. En þegar eignareikningur þeirra er kominn í baklás, ef svo mætti segja, þegar reikningurinn er orðinn öfugur, eru þau skyldug samkv. landslögum að gefa sig upp sem gjaldþrota.

Einn gjaldandi, sem hefur 504 þús. kr., greiðir 55 þús. í veltuútsvar, en annar, sem hefur 512 þús., greiðir 836 þús. í veltuútsvar. Þriðji gjaldandi, sem hefur 75 þús. kr. tekjur, greiðir 92 þús. kr. Og svona mætti lengi halda áfram að telja. Það er því lífsnauðsyn frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð, að gera breytingu á þessari skattheimtu, annaðhvort á þennan veg, sem hér er lagt til, sem ég álít að sé sá heilbrigðasti og sá eini, sem getur komið til greina, eða útsvarið verði gert frádráttarhæft, sem er að vísu nokkur bót, en alls ekki fullnægjandi. Ef það verður ekki gert, munu menn sjá, áður en langt um líður, að veltuútsvarið hefur valdið miklu meiri skaða, en menn hafa nokkurn tíma gert sér í hugarlund. Ég þori að fullyrða, að hvergi á byggðu bóli þekkist svona opinber skattur eins og þessi. Hann þekkist hvergi nokkur staðar. En því verður heldur ekki neitað, þó að mikil nauðsyn sé á að breyta skattinum, að bæjarfélögin verða að fá tekjustofn í staðinn fyrir þennan skatt. Það er ekki hægt að afnema skattinn sem slíkan, heldur verða þau að fá eitthvað í staðinn. Og það er hlutverk löggjafans að sjá bæjarfélögunum fyrir skattstofni og að slíkur skattstofn sé heilbrigður, en ekki eins og sá sem nú er og étur stoðirnar undan tekjustofnum ríkisins og bæjarfélaganna eins og fúaormur, sem kemst inn í timbur.

Það mun verða sagt, að á þennan hátt verði útsvarið gert að óbeinum skatti, sem landsmenn verði að greiða í vöruverði. Það er alveg rétt, en hins er þá að gæta, eins og ég hef þegar tekið fram, að veltuútsvarið í núverandi mynd er svo fjarstæðukennd skattheimta, að það er aðeins tímaspursmál, hversu lengi er hægt að halda henni áfram. Ef breytingin kemur ekki skjótt, þá mun hún bráðlega valda, eins og ég hef tekið fram, mjög alvarlegum fjárhagslegum erfiðleikum í mörgum helztu atvinnuvegum landsins.