07.11.1957
Neðri deild: 19. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í C-deild Alþingistíðinda. (1892)

24. mál, veltuútsvör

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég mun ekki fara langt út í það að þessu sinni að ræða frv. það, sem hér liggur fyrir, en vil þó láta það koma fram við þessa umr., að ég tel, að það sé mikil þörf á því að endurskoða lögin um tekjustofna sveitarfélaga. Eins og fram kemur í grg. frv., hefur á síðari áratugum verið bætt mjög gjöldum á sveitarfélögin, án þess að þeim hafi verið séð fyrir nýjum tekjustofnum. Það er óhugsandi, að þau geti staðið undir þeim gjöldum, nema tekjustofnar þeirra séu nokkuð tryggir. Ég held því, að það sé brýn nauðsyn til að athuga útsvarslögin á nýjan leik og tryggja það, að sveitarfélögin hafi þá tekjustofna, sem geti komið þeim að fullu gagni við þau gjöld, sem þau eiga að inna af hendi, og þá þjónustu, sem þeim er ætlað að veita. Með hverju ári sem líður eru gerðar meiri og meiri kröfur til sveitarfélaganna um alls konar þátttöku í félagsmálum og þjónustu við íbúa sína, en tekjustofnar, sem þau hafa að grípa til, eru eingöngu útsvörin.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir því að forma betur en áður hefur verið þann tekjustofn, sem sveitarfélögin hafa gripið til, sem er veltuútsvörin. Ég held, að það ætti að athuga þá hlið málsins samhliða útsvarslögunum í heild. Ég er ekki alls kostar viss um, að það sé heppilegt að taka einstaka þætti í tekjustofnum sveitarfélaganna til athugunar, en tel hins vegar mikla nauðsyn bera til, að málið verði athugað í heild og tekjustofnar, bæði þessi og aðrir, verði ákveðnir, betur en nú er.