29.10.1957
Neðri deild: 11. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (1898)

36. mál, jafnvægi í byggð landsins

Flm. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki að orðlengja um þetta frv., sem hér liggur fyrir. Hv. þdm. er það kunnugt, því að það hefur legið hér fyrir hinu háa Alþingi nokkrum sinnum áður, að vísu ekki í öllum atriðum eins og þetta frv., sem nú er borið fram, en öll meginatriði málsins eru þó hin sömu.

Með frv. þessu er ætlazt til að koma föstu skipulagi á hinar svokölluðu jafnvægisráðstafanir, sem jafnan eru nefndar svo, þ. e. a. s. þær ráðstafanir, sem af hálfu hins opinbera eru gerðar til þess að leggja grundvöll að öruggu atvinnulífi víðs vegar um landið.

Það hefur ekki verið ágreiningur um það hér á Alþingi, að þessar ráðstafanir væri nauðsynlegt að gera, og um allmargra ára bil hefur verið í fjárlögum varið ákveðnum upphæðum í þessu skyni. Á síðasta þingi var sú fjárhæð hækkuð allverulega, og voru á þessu ári til úthlutunar 15 millj. kr.

Það er hins vegar sömu sögu að segja nú eins og áður, að þetta er ákveðið frá ári til árs. Enginn veit fyrir fram, hvað verður til ráðstöfunar á næsta ári, hvorki hvað upphæðin sé há né heldur hverjir það verða, sem úthluta. Þetta hvort tveggja leiðir af sér, að hér verður meira og minna um handahófsaðgerðir að ræða, og það er engum efa bundið, að það fé, sem varið hefur verið til atvinnuaukningar, hefur nýtzt miklum mun verr, en hefði verið, ef þessi mál hefðu verið í föstu formi.

Ég held, að það hljóti allir að játa það við nánari íhugun og átta sig á því, að það er auðvitað ekki hægt að framkvæma neinar kerfisbundnar ráðstafanir, sem nái yfir lengri tíma, með því að hafa þetta svo laust í reipunum eins og verið hefur, og það er því engum efa bundið, að það er hin mesta nauðsyn, þó að hingað til hafi ekki fengizt samþykki fyrir því, að koma þessum málum í skipulegt horf. Með þessu frv. er sem sagt ætlunin að reyna að leggja grundvöll að skipulagningu þessara mála, og er þá jafnframt gert ráð fyrir því, að ákveðið verði með lögum um lengri ára bil, hvaða fé verði til ráðstöfunar. Hér er ekki lagt til að auka útgjöld ríkissjóðs frá því, sem var á þessu ári, og ég geri naumast ráð fyrir, að hér á Alþingi sé uppi sú skoðun, að það beri að draga úr þeirri fjárveitingu, sem var á þessu ári, þannig að það ætti naumast að þurfa að verða ágreiningur um þau fjárútlát, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Það liggur hins vegar í augum uppi, að því hærri sem þessar fjárveitingar eru, sem úthlutað er án nokkurra ákvæða eða reglna frá Alþingi, þá vex hættan á því, að ýmiss konar óeðlileg sjónarmið komi til greina við úthlutun þessa fjár, og það er í rauninni fráleitt af Alþingi, sem er með fjárlögum að ákveða um ýmsar minni háttar fjárveitingar, allt niður í nokkur hundruð króna, hvernig því skuli varið, að veita í einu 15 millj. kr. til ráðstöfunar ríkisstj., hver sem hún er á hverjum tíma, án þess að setja nokkrar reglur um það, hvernig þeim fjármunum skuli varið.

Með þessu frv. er ætlunin, að Alþingi sjálft skipi stjórn hins svokallaða jafnvægissjóðs, sem gert er ráð fyrir að setja á stofn, og að þessi stjórn setji sér ákveðnar starfsreglur á þeim meginsjónarmiðum, sem fram eru sett í frv., og eftir þeim reglum verði síðan úthlutað, þannig að bæði þeir, sem úthluta eiga, verði bundnir við fastar reglur og einnig að sveitarfélög og einstaklingar og aðrir, sem aðstoðar telja sig þurfa, geti fyrir fram vitað um, hvaða sjónarmið ráði við úthlutun þessa fjár og hvaða atriði það eru, sem helzt komi til greina að veitt verði aðstoð til.

Sú aðstoð, sem veitt hefur verið til atvinnuaukningar, hefur víða komið að miklum notum á undanförnum árum, en þó vantar mjög á það á ýmsum stöðum eða a. m. k. töluvert, að þeim tilgangi verði náð, sem til var stofnað með þessu atvinnuaukningarfé. Ef hægt væri um nokkurra ára bil að gera ráð fyrir vissum fjárveitingum eða lánum á ákveðna staði, væri lagður grundvöllur að því, að þar væri hægt að stuðla að meiri háttar atvinnuframkvæmdum, sem lagt gætu traustan grundvöll að atvinnulífinu á viðkomandi stað, og til þess hefur áreiðanlega verið ætlazt með þessari aðstoð á undanförnum árum, þó að ekki hafi náðst samkomulag um að koma á þetta föstu skipulagi.

Ég vildi nú leyfa mér að vænta þess, að eftir þá reynslu, sem fengin er af þessum málum, sé hér á Alþingi kominn nægur stuðningur við þá hugmynd að koma þessum málum fyrir á skipulagslegan og kerfisbundinn hátt, þannig að þetta frv. geti náð fram að ganga. Það má auðvitað um það deila, í hvaða formi þetta nákvæmlega eigi að vera, og vel getur verið, að það séu einhver einstök atriði í þessu frv., sem menn kysu að hafa á annan veg. Það er ekki meginatriði málsins, og við flm. erum til viðtals um allar breytingar, sem til bóta mættu horfa. Höfuðatriðið er það, að það er okkar skoðun, að því verði með engu móti lengur skotið á frest að koma þessum málum í kerfisbundið horf, og þar sem virðist vera almennur áhugi á því að halda þessum ráðstöfunum áfram og reyna að ná þeim tilgangi að skapa traust atvinnulíf víðs vegar úti um byggðir landsins, hlýtur að vera grundvöllur fyrir því að ná samkomulagi um að koma þessum málum í eitthvert skynsamlegt og viðunandi horf. Þessi atvinnumál öll hafa verið rannsökuð ýtarlega á undanförnum árum, af ýmsum aðilum, nefndum, sem í þau hafa verið sett, þannig að það skortir ekki á, að alls konar rannsóknir hafi verið gerðar, sem auðið sé að byggja á lagasetningu sem þessa. Eins og hv. þm. muna, var hér starfandi sérstök nefnd, sem einmitt átti að vinna að þessum málum og lagði fram sínar till. hér á Alþingi. Þær náðu ekki fram að ganga af einhverjum ástæðum.

Frv. því, sem við fluttum hér á síðasta þingi, var vísað til hæstv. ríkisstj. með þeim ummælum frá meiri hl. þeirrar nefndar, að þess væri vænzt, að ríkisstj. undirbyggi lagasetningu um þessi mál. Það frv. hefur ekki enn séð hér dagsins ljós, hvort sem hæstv. ríkisstj. hefur það að einhverju leyti í undirbúningi eða ekki. En okkur sýnist, að hér væri um það mikið nauðsynjamál að ræða, að hvort sem það væri ætlun ríkisstj. að leggja fram á þessu þingi eitthvert frv. til úrlausnar í málinu, væri sjálfsagt engu síður til þess að hreyfa því og ýta á eftir aðgerðum í því að leggja fram þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 54.

Ég endurtek svo aðeins, að ég vænti þess, að frv. eða sú hugmynd, sem hér liggur á bak við um að koma þessum málum í fast og skipulegt horf, fái nú það nægilegan stuðning á þessu þingi, að lög verði sett um framkvæmd þessara mála. Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en legg til, að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og til fjhn.