09.12.1957
Neðri deild: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (1907)

68. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Hér liggur fyrir til umræðu frv. til laga um breytingu á húsnæðismálalöggjöfinni, sem gengið var frá á síðasta þingi. Það er af flm. gerð sú grein fyrir tilgangi þessa frv., að þeir hafi, flm. og þeirra flokkur, mikið að athuga við þá húsnæðismálalöggjöf, sem sett var á síðasta þingi, og vilja nú freista þess að fá á henni breytingar í þá átt, sem þeir telja vera til bóta.

Í 1. gr. er sú efnisbreyting einkum, að sá fulltrúi, sem tilnefna skal í húsnæðismálastjórn af Landsbanka Íslands, Seðlabankanum, skuli hafa atkvæðisrétt. Ég verð að segja, að þetta er nokkuð seint séð hjá hv. flm. Þetta ákvæði breyttist ekki með setningu húsnæðismálalöggjafarinnar á síðasta þingi. Þetta var eitt af þeim atriðum, sem var tekið óbreytt upp úr löggjöf þeirri, sem gilti undir yfirráðum fyrrverandi hæstv. ríkisstj. Þegar sú löggjöf var sett undir forsæti Ólafs Thors, þótti rétt að hafa þann háttinn á, að fulltrúi Landsbankans hefði að vísu setu í húsnæðismálastjórninni, en ekki atkvæðisrétt um lánveitingar, og það er nákvæmlega eins og það er nú. Og ég efast stórlega um, að Landsbankinn eða fulltrúi hans í húsnæðismálastjórninni eigi að hafa áhrifavald á það, til hvaða einstaklinga lánin séu veitt. Ég hygg, að það sé miklu eðlilegra, að um það fjalli þeir fulltrúar í húsnæðismálastjórn, sem ekki þurfa sérstaklega að hafa bankasjónarmiðið fyrst og fremst í huga, heldur þörf þeirra, sem um lánin sækja. Ég efast um, að það sé til bóta að gera bankasjónarmiðunum í því tilliti hærra undir höfði, en gert var með fyrrv. löggjöf og gert er með núv. löggjöf. Ég skal ekki fjölyrða frekar um það atriði. Ég sem sé er þeirrar skoðunar, að það væri ekki til bóta að breyta því.

Við 2. gr. núgildandi löggjafar er lagt til, að 2., 3. og 4. töluliður í 2. gr. falli í burtu og í staðinn komi, að setja skuli á stofn tækniráð húsnæðismálastjórnar, sem skipað sé fulltrúum frá eftirtöldum aðilum: húsnæðismálastjórn, iðnaðardeild atvinnudeildar háskólans, húsameistara ríkisins, teiknistofu landbúnaðarins, Landsambandi iðnaðarmanna, Félagi ísl. iðnrekenda, byggingarvörudeild Sambands ísl. samvinnufélaga og Félagi ísl. byggingarefnakaupmanna. Það er nærri því, að það sé stofnað þarna heilt félag. Það er svo fjölmennt, þetta ráð, sem þarna á að stofna, að það væri eiginlega miklu nær að kalla það félag, sem þarna væri komið á fót.

Nú er það þó þannig, að í gildandi löggjöf er einmitt gert ráð fyrir tækniráði, og er ákvæði um það einmitt í þessari sömu grein laganna, í 2. gr., að vísu undir öðrum tölulið. Þar segir:

„Heimilt er félagsmálaráðherra að skipa nefnd sérfróðra manna húsnæðismálastjórn til aðstoðar og ráðuneytis um tæknileg mál, og ákveður ráðherra þóknun til nefndarmanna.“

Þarna er heimild í lögunum um að koma upp tækniráði, en ekki gert ráð fyrir, að það sé svona mikið bákn eins og nú er gert ráð fyrir af hv. flm. þessa frv. Allar líkur eru til, að þessi heimild verði notuð, því að húsnæðismálastjórn hefur rætt það mál, hvort ekki sé heppilegt að kalla tæknifróða menn til ráðs með húsnæðismálastjórninni, og hefur till. um nokkurt skeið legið í húsnæðismálastjórn um það atriði að skjóta því til ráðuneytisins, að þessi heimild væri notuð. Ég held, að það geti verið gott, að húsnæðismálastjórnin kalli sér til ráðuneytis færa tæknimenntaða menn, og til þess er heimild, en að hafa það slíkan mannsafnað eins og gert er ráð fyrir í 2. gr. þessa frv. held ég að verði nokkuð þunglamalegt í framkvæmd og óvíst, að ráð manna gefist betur, þó að þeir komi fleiri saman, — til þess þurfi það a. m. k. allt að vera vitrir menn og góðgjarnir, og geri ég nú ráð fyrir, að þessi samtök gætu lagt til eitthvað af slíkum mönnum. En svo mikið er víst, að þetta yrði heilmikið bákn.

En það felst meira í þessari 2. gr. frv. en þetta, því að mér skilst, að 2., 3. og 4. töluliður í 2. gr. laganna eigi að falla niður gegn því, að þetta um hið fjölmenna tækniráð komi inn í staðinn. Og hvað er það þá, sem hv. flm. vilja fá út úr núgildandi löggjöf, að því er þetta snertir? Það eru — með leyfi forseta — þessir liðir, sem hljóða þannig:

Í fyrsta lagi á að falla niður: „Að fylgjast jafnan nákvæmlega með byggingarkostnaði í landinu í því skyni að finna, hverjir byggja ódýrust hús, hvaða gerðir íbúðarhúsnæðis reynast beztar og hagkvæmastar og með hvaða hætti þeim verði komið upp með sem minnstum kostnaði. Í þessu skyni er húsnæðismálastjórn heimilt að láta fara fram samkeppni um uppdrætti og byggingu hagkvæmra íbúða og veita lán þeim, sem geta tekið að sér að byggja hagkvæmar íbúðir af ákveðinni meðalstærð með minnstum kostnaði.“

Þetta vilja flm. endilega að falli niður úr gildandi löggjöf. Ég veit ekki, hvað það er, sem þarna ætti að vera til baga góðri framkvæmd í húsnæðismálum. Ég held, að samkeppni um uppdrætti og byggingu hagkvæmra íbúða sé einungis af því góða, og ég skil ekkert í því, ef fulltrúar hinnar frjálsu samkeppni vilja endilega forðast, að það sé boðin út gerð uppdrátta og framkvæmd byggingar íbúðarhúsnæðis. Ég held, að þarna ætti einmitt frjáls samkeppni fyllsta rétt á sér, einmitt í þeim tilgangi að þrýsta þessu verði niður, a. m. k. niður í námunda við það, sem raunverulega er hægt að byggja íbúðarhúsnæði fyrir. En það vitum við að er ein af meinsemdunum hér nú, að það er okrað á neyð fólksins, húsnæðisskortinum. Hann er gerður að gjaldeyri fyrir þá, sem nú geta byggt íbúðir og selt með okurgróða, selt hús langt fyrir ofan raunverulegt kostnaðarverð. Ef hægt væri að fá útboð í íbúðarhúsnæði og komast með þeirri leið í námunda við rétt verð, mundi það auðvitað rýra möguleika þeirra, sem nú á mjög óskemmtilegan hátt auðgast á neyð annarra manna. Ég get því ekki með nokkru móti fallizt á, að það sé ástæða til að fella niður úr gildandi löggjöf ákvæði eins og þessi, sem öll miða að því, að við fengjum komið upp íbúðarhúsnæði fyrir lægri tilkostnað, en nú gerist.

Þá leggja hv. flm. enn fremur til, að eftirfarandi málsgrein falli niður úr löggjöfinni: „Að setja þau skilyrði fyrir lánum, sem telja má að stuðli að því, að byggðar verði fyrst og fremst hagkvæmar íbúðir af hóflegri stærð.“

Hvað er þetta? Vilja menn endilega, að ákvæði um það, að við byggjum hagkvæmar íbúðir til þess að geta byggt fleiri, falli niður? Vilja menn, að það sé alveg frjálst og helzt gefin bending um það, að menn eigi að byggja sem stærstar íbúðir, jafnvel kannske fyrir óhóflegt verð? Það er þetta tvennt, sem þarna er lagt til að falli niður. (JóhH: Hæstv. ráðh. hefur misskilið.) Er það? (Gripið fram í.) Eru það ekki töluliðirnir, sem átt er hér við? (Gripið fram í.) Þetta er þá ætlun ykkar að standi kyrrt í löggjöfinni? Mér kom það mjög undarlega fyrir sjónir, ef það væri ætlunin að fella einmitt þessi ákvæði niður, sem öll eru til þess að reyna að knýja fram réttmætt verð í sambandi víð byggingarkostnaðinn.

Í framhaldi af þessu er svo 4. töluliðurinn, að þarna á: „Að koma á fót og annast leiðbeiningarstarf í því skyni að lækka byggingarkostnað og koma á hvers konar umbótum í húsagerð og vinnutækni við byggingu íbúðarhúsa.“

Þá er 3. mgr. í 2. gr. (Gripið fram í.) Næst á eftir 12. tölulið, já, mgr. þar? Það er orðað þannig í frv., að þetta sé 2., 3. og 4. mgr. 2. gr. En þá erum við komnir að því, sem þeir segjast vilja fella niður flm. Það, sem þeir þá vilja fella niður sérstaklega, er sem nú skal greina, herra forseti:

„Húsnæðismálastjórn er heimilt að láta undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum með því að láta gera skipulagsuppdrætti af þeim í samráði við skipulagsnefnd ríkisins. Þegar slíkir uppdrættir hafa verið samþykktir af skipulagsnefnd og félmrh., er viðkomandi bæjarfélagi skylt að heimila byggingar og láta af hendi eða útvega landsvæði fyrir þær, ef með þarf með eignarnámi, og fer um eignarnám samkvæmt l. nr. 61 frá 1917. Sömuleiðis er viðkomandi bæjarfélagi skylt að leggja nauðsynlega vegi og leiðslur um slík hverfi innan hæfilegs tíma að mati húsnæðismálastjórnar og félmrh.“

Þetta er þá ágreiningslaust það, sem þeir vilja sérstaklega láta fella niður úr gildandi löggjöf, og er þá rétt að víkja nokkrum orðum að því.

Þeir vilja ekki, flm. frv., að húsnæðismálastjórninni sé heimilt að láta undirbúa byggingu íbúðahverfa í kaupstöðum og geta knúið fram, ef töf er á skipulagningu í bæjarfélagi, að geta þá sjálf látið gera uppkast að skipulagsuppdrætti og ganga frá honum í samráði við skipulagsnefnd ríkisins, skipulagsstjóra. Ég held nú, að til þessa komi því aðeins, að skipulagning í bæjarfélagi komi í veg fyrir, að það sé hægt að hefjast handa um nauðsynlegar aðgerðir til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis. Það má kannske segja, að því séu ekki gerandi skórnir, það sé engin ástæða til að ætla, að neitt bæjarfélag láti á því standa. Ef ég nú geng út frá því og geng inn á þann hugsunarhátt, þá vil ég segja, að þá er ekki líklegt að neitt bæjarfélag verði fyrir hörðu af ákvæðum gildandi laga, því að þá mundu bæjarfélögin vitanlega reyna að hafa til skipulag eftir eigin höfði, samþykkt af sama aðila, skipulagsstjóra ríkisins, til þess að hægt væri að ráðast í viðkomandi byggingarframkvæmdir.

Ég tek eftir því, að flm. frv. fara þeim orðum um þetta ákvæði, að það sé óhæfa, það sé fullkomin óhæfa, að gengið sé svo freklega á rétt sveitarfélaganna, en það kemur því aðeins til að stangast nokkuð við aðgerðir sveitarfélagsins, að það standi á skipulagningu svæðis, sem nauðsynlegt sé til þess að byggja á slíkar íbúðabyggingar, heil íbúðahverfi. Ég held nú, að um svona atriði hljóti alltaf á milli húsnæðismálastjórnar og sveitarstjórnar að verða gott samkomulag og ákvæðin í gildandi löggjöf kæmu því aðeins til framkvæmda, að óhæfilegur dráttur væri á því, að bæjarfélagið sæi fyrir skipulagningu slíks svæðis, og slíkur dráttur væri farinn að standa í vegi fyrir byggingaraðgerðum. Það kemur ekki til mála, að húsnæðismálastjórn færi að knýja fram skipulagningu eftir þessari heimild, nema því aðeins að þetta stæði af hendi bæjarfélagsins, mjög fyrir framkvæmdum.

Ég vil því gera mér vonir um það, að þeir leggi ekki mikið kapp á að taka þetta ákvæði út úr núverandi húsnæðismálalöggjöf. Þetta er eins konar öryggisventill til þess að gera það tryggt, að framkvæmdir til úrbóta í húsnæðismálum, þyrftu ekki að stranda, þó að bæjarfélag bæri því fyrir sig, að það stæði á skipulagningu á viðkomandi svæði, og þá geti húsnæðismálastjórnin samt með aðstoð æðstu skipulagsyfirvalda flýtt fyrir skipulagningu á þessu viðkomandi svæði.

Ég þarf því ekki að taka það fram, að ég tel næsta ástæðulaust og teldi það spilla núgildandi húsnæðismálalöggjöf, ef þessi öryggisventill væri tekinn í burtu. En að telja það óhæfu, fullkomna óhæfu gagnvart sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga, það tel ég algerlega ofmælt, því að þarna ætti í allflestum tilfellum að vera gott samkomulag um það milli bæjarfélagsins að flýta fyrir skipulagningu, þar sem húsnæðismálastjórn teldi nauðsynlegt að koma upp skipulögðu hverfi íbúðarhúsa. Og það væri þá aðeins, að út af bæri um það, sem þessi grein kæmi til framkvæmda, en þá væri hennar líka þörf. Þá þyrfti hún að geta komið til framkvæmda.

3. gr. frv. er um það, að stafliðurinn g í 1. mgr. og 2., 3. og 4. mgr. 6. gr. laganna falli burt, en einn stafliður (g) komi í staðinn. Og þessi stafliður, sem á að koma í staðinn, er um, að húsnæðismálastjórn skuli setja almennar reglur um veitingu lána, í samræmi við þær reglur skuli útbúin umsóknareyðublöð um lán, einföld, skýr og hentug til afnota fyrir almenning. Þetta er viðvíkjandi 6. gr. Og stafliður g í 6. gr., — ég tel, að það muni vera hann, sem eigi að falla niður, ásamt 2., 3. og 4. málsgr, 6. gr., — þessi g-liður, sem lagt er til að falli niður, að mér skilst, er svona, með leyfi hæstv. forseta:

„Félmrh. skal að fengnum till. húsnæðismálastjórnar setja með reglugerð nánari ákvæði um veitingu lána, er húsnæðismálastjórn hefur með höndum. Um lánveitingar til einstaklinga skal þar m. a. setja ákvæði, sem tryggi, að farið sé eftir ástæðum umsækjenda, húsnæði, fjölskyldustærð, efnahag, lántökumöguleikum o. fl. Enn fremur um hámarksstærð íbúða, sem veita má lán til.“

Ég er þeirrar skoðunar, að það væri sízt til bóta, eins og ástatt er, að falla aftur frá því, að við lánveitingarnar sé farið eftir ástæðum umsækjenda, m. a. tekið tillit til þess, við hvernig húsnæði þeir búa, hver er fjölskyldustærð þeirra, og þannig láta barnmörgu fjölskyldurnar heldur sitja fyrir um lán, og til efnahags, láta það líka ráða nokkru um það, hvort þær fá lán eða ekki, taka þá fátækustu fyrst, og lántökumöguleika, sem þeir hafa að öðru leyti, og enn fremur að setja hámark fyrir stærð þeirra íbúða, sem veita megi lán til. Ég fæ ekki séð, að það væri til bóta, meðan við ekki getum leyst allra vanda í húsnæðismálunum, að taka ákvæði eins og þessi út úr reglugerð og setja einhverjar almennar lauslegar reglur í staðinn. Ég játa það fyllilega, að það var tilgangur minn og annarra, sem að löggjöfinni stóðu í fyrra, að þess yrði betur gætt en hingað til, að þeir, sem fengju lánin, væru einmitt fólk, sem byggi við þröngt eða lélegt húsnæði, það væri fátækt fólk, það væru barnmargar fjölskyldur og að þeim væri þó ekki heimilt að byggja stærri íbúðir, en upp að ákveðnu hámarki, og þar hefur verið staðnæmzt við 360 rúmmetra, nema því aðeins að um mjög stóra fjölskyldu sé að ræða, þá er húsnæðismálastjórn heimilt að fara út fyrir það.

Hv. flm. gera ráð fyrir því, að í samræmi við þær almennu lauslegu reglur, sem þeir vilja láta koma, verði umsóknareyðublöðin höfð í samræmi við skilyrðin. Þetta er auðvitað augljóst mál. Þegar löggjöfin ætlast til þess, að tekin séu ákveðin tillit við lánveitingarnar, þá þurfa þau atriði, sem hafa áhrif á, hvort lánið verður veitt eða ekki, að koma skýrt fram í því umsóknareyðublaði, sem sent er út til fólksins, sem ætlar að sækja um lán. Þá gefur viðkomandi allar þær upplýsingar, sem áhrif hafa á lánveitingu eða synjun um lánveitingu. Hann gefur í fyrsta lagi upplýsingar um, við hvernig húsnæði hann búi. Það er grundvallaratriðið. Og þá eru spurningar á umsóknareyðublaðinu um það, að hann geti lýst með því að svara spurningunum, hvernig húsnæðið sé, hvort það sé þröngt eða rúmgott, hvort það sé rakafull íbúð, hvort það sé köld íbúð, hvaða gallar og kostir séu á henni. Sé lýsingin þannig, að þetta fólk búi við dágott húsnæði, er það auðvitað grundvallaratriði fyrir því, að það megi synja þar um lán, meðan a. m. k. ekki er hægt að veita nema þeim, sem allra verst eru settir um húsnæði, lán. Ef í lélegri fjölskylduíbúð er stór fjölskylda, þá er það gefið upp og svarað spurningum um það. Ef efnahagur er mjög bágborinn, þá er það auðvitað atriði, sem gerir þörfina enn brýnni, að koma til hjálpar með lánveitingu. Sjálfsagt er líka, að það séu á umsóknareyðublaðinu gefnar upplýsingar um það, hvort umsækjandi hafi nokkra aðra lántökumöguleika, hvort hann sé t. d. meðlimur í lífeyrissjóði, sem geri það nokkurn veginn líklegt eða kannske alveg fullvíst, að hann fái eða hafi fengið lífeyrissjóðslán allt upp að 100 þús. kr. Víst skiptir það miklu máli, hvort maðurinn nýtur slíkrar aðstoðar frá því opinbera eða ekki, og allt þetta þarf því að vera á umsóknareyðublöðunum og heimtaðar upplýsingar um það.

Þetta vilja flm. frv. að falli í burtu. Það er sjónarmið út af fyrir sig, ég játa það, en ég held, að menn verði þá að gera það upp við sig, hvort menn telja eðlilegra, að svona upplýsingar séu gefnar, til þess að hægt sé af húsnæðismálastjórn að láta þá ganga fyrir, sem eru fátækir, hafa stórar fjölskyldur, búa við lélegt húsnæði o. s. frv., eða hitt, að með þessi lánveitingamál fari tveir, þrír eða fjórir menn. Það voru skv. fyrrverandi löggjöf tveir menn, sinn frá hvorum stjórnarflokki þá, þeir tóku við þeirri upphæð, sem löggjöfin fékk þeim í hendur til þess að úthluta til húsnæðismála, skiptu henni að jöfnu á milli sín, annar sneri sér svo í norður og hinn sneri sér svo í suður, og svo bara veittu þeir lán flokksbræðrum og kunningjum án tillits til íbúðarástands, án tillits til fjölskyldustærðar, án tillits til efnahags o. s. frv., og þurfti engin eyðublöð að fylla út til þess að ganga úr skugga um þetta. Það má vel vera, að þeir menn, sem standa að baki frv., og aðrir telji réttara að hafa þetta svona. Það væri náttúrlega ósköp frjálslegt og lítið vandmeðfarnar þær 20, 30, 40, 50 millj. kr., sem á ári hverju væri varið til þessara mála, en við vitum ósköp vel, það blasa við okkur dæmi núna um fátæka fólkið, sem er með sínar umsóknir enn frá 1955, sem var skilið eftir, meðan þetta ástand var og engar reglur um úthlutun lána. Það segir til sín. Ég fyrir mitt leyti er alveg fráhverfur því að hverfa að því ráði aftur að hafa engar reglur eða svo óljósar reglur, að það sé hægt að láta einhleypan mann, sem hefur gott herbergi hér í bænum, kannske á íbúð eða tvær íbúðir, eins og dæmin eru til um, og veita honum svo lán, áður en stór barnafjölskylda, sem býr í kjallara eða bragga, fær lán. En þetta gerðist og þetta mundi gerast áfram, ef húsnæðismálastjórn væri ekki bundin reglum um það, hvernig hún eigi að veita lán, hverja hún eigi að láta sitja á hakanum, þótt ekki þyki gott.

Út frá þessu skal það játað, að húsnæðismálastjórn hefur samið spurningaeyðublöð til þeirra, sem sækja um lán. Þeir eiga að gefa upplýsingar um þau meginatriði, sem máli skipta. Enn fremur eiga þeir að gefa upplýsingar um það húsnæði, sem þeir ætla sér að kaupa eða byggja. Og mér fannst að hv. 1. flm. væri enn óánægðari með, að það skyldu vera heimtaðar upplýsingar um húsnæðið, sem umsækjandinn ætlar sér að byggja. Nú er það svo, að hver maður, sem ætlar sér að byggja íbúðarhús, kemst ekki hjá því fyrr eða síðar, að hann verður að gera sér grein fyrir því sjálfur, hvernig hann ætlar að hafa það hús, og það er ekkert neyðarúrræði að snúa sér til tæknilega menntaðs manns, arkitekts eða byggingarmeistara, og leita ráða hjá honum, áður en farið er að teikna það meira að segja. Og allt þetta þarf í raun og veru. Ef sæmilega skynsamlega er farið af stað með íbúðarhúsbyggingu, þarf að vera búið að gera þetta, áður en rokið er í bygginguna. En það er allt of mikið um þetta, að menn rjúka í að byggja hús án þess að hafa jafnvel nokkra teikningu til. Og allir þeir tæknilega menntuðu menn, sem um þessi mál hafa fjallað, innlendir og útlendir, nú á yfirstandandi ári, hafa sagt: Hér er ákaflega mikið áfátt hjá Íslendingum, þeir fara af ákaflega lítilli fyrirhyggju út í byggingar, og leiðir það stundum til þess, að byggingin stendur miklu lengur yfir, en ella þyrfti að vera. — En það kostar sína peninga, vextirnir af því fjármagni, sem safnast fyrir í hálfgerð hús, eru engir smámunir, eins og vaxtafótur er hér á landi. Og nú höfum við einmitt horft upp á það, að hundruð, ef ekki þúsund íbúðir hafa verið sundurflakandi hálfgerðar hér hátt upp í tvö, jafnvel þrjú ár hjá einstaklingum, sem hafa farið á stað með byggingar svona lítið undirbúnar.

Það er því ekki alveg út í hött, eins og hv. 1. flm. frv. lét skína í, að ýmsar spurningar eru á lántökueyðublaðinu um það, hvernig hús eigi að vera, sem eigi að verða veð fyrir væntanlegu láni. Ég heyrði t. d., að hv. flm. hneykslaðist á því, að það væri spurt um á lántökueyðublaðinu, hvaða þykkt einangrunar væri tilskilin. Ég verð að segja það, að fyrir notagildi húss og bara það, að húsið sé reglulega vel veðhæft, þýðir það ekkert lítið, að húsið sé vel einangrað, og í okkar kalda landi er það eitt frumskilyrði þess, að við byggjum gott íbúðarhús, að einangrun sé ekki ófullnægjandi. Það borgar því áreiðanlega bæði blekið og pappírinn, sem fer til þess að upplýsa það, hvernig einangrun eigi að vera í húsinu, að svara þeirri spurningu á umsóknareyðublaðinu, og það er í því öryggi fyrir báða, lánveitandann og eiganda væntanlegs húss.

Það voru fleiri atriði, sem hv. þm. hneykslaðist á að væri verið að spyrja um. En það eru allt saman atriði, sem hver einasti maður verður að viðurkenna að hafa þýðingu, bæði fyrir þá lánastofnun, sem á að eiga veð í viðkomandi fasteign, og fyrir þann mann, sem ætlar sér að eiga þetta hús sem eign. Þetta eru allt saman atriði, sem sá, sem ætlar að byggja, þarf að horfast í augu við fyrr eða síðar, og er þá langbezt og skynsamlegast, að hann geri sér grein fyrir því og kalli menn til ráða um þetta, sem vit hafa á, einmitt um leið og hann stígur fyrstu sporin til þess að undirbúa bygginguna. Og hafi hann gert það, þá er það ekkert nema smávægi eitt að taka á sig það ómak að festa niðurstöðuna af þessari sameiginlegu athugun hans og væntanlegs smiðs eða þess, sem ætlar að teikna húsið, á spurningaeyðublaðið, sem hann þarf að senda frá sér til þess að reyna að tryggja sér lán. Og nú er það ætlunin, og á það er mjög fast þrýst, m. a. af lánastofnunum eins og t. d. seðlabankanum, að á meðan sé verið að vinna upp þau hundruð ég vil segja þær þúsundir hálfgerðu íbúða og reyna að tryggja þeim lán og koma þannig þeim hálfgerðu íbúðum, sem nú eru hér og annars staðar, í nothæft ástand, sé reynt að draga svolítið úr byggingu nýrra íbúða með því að gera mönnum að skyldu að senda fyrst uppdrátt að húsi, fá svar við því, hvort hann fái lán eða ekki, áður en hann byrjar, eða að öðrum kosti eigi hann á hættu að fá ekki lán úr þessu lánakerfi. Þetta er til þess að reyna að koma því á hreint, að menn reyni að tryggja sér þá fjárhagslegu aðstoð, sem völ er á frá því opinbera, frá fyrstu byrjun, frá því áður en þeir byrja eða um leið og þeir byrja á byggingunni, en ekki að fara út í bygginguna án þess að hafa samráð við nokkurn mann, án þess að hafa látið teikna húsið, án þess að hafa tryggt sér lán o. s. frv., eins og menn hafa gert að undanförnu. Það er eingöngu með umsókninni, með mörgum spurningum á henni verið að þrýsta mönnum til þess að horfast í augu við væntanlega byggingarerfiðleika strax og gera sér grein fyrir þeim — og að svo miklu leyti sem þeir geta ekki sjálfir gert sér grein fyrir þeim að kalla þá faglega menntaða menn til.

Ég legg því ekki mjög mikið upp úr því, þó að því sé slegið upp í blaði og um það sé talað hér á Alþ., að það sé illa farið með blessað fólkið, sem ætli að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið, að það þurfi að leita til tæknifróðs manns, það þurfi að leita til lögfræðings jafnvel, það þurfi að leita til læknis. Þetta eru nú allt saman ýkjur reyndar. En sannleikurinn er sá, að það er ekki nema rétt, og það er ekki nema gott, að fólk, einmitt um leið og það undirbýr þetta mikla átak að koma þaki yfir höfuð sér, þurfi að leita ráða hjá ýmsum fróðum mönnum um hinar ýmsu hliðar þess mikla vandamáls að byggja gott hús. Og þá eiga þeir að veita þessar upplýsingar í svörum við spurningum á eyðublaðinu, sem sent er út frá húsnæðismálastjórn, svo að þeir, sem brýnasta þörfina hafa og beztar upplýsingarnar gefa, geti tryggt sér það að sitja fyrir um hið takmarkaða lánsfé og að þeir, sem betur eru staddir, fái ekki lán, fyrr en þörf hinna hefur verið fullnægt. Og ég held nærri því, að ef við töluðum um þetta án flokkadrátta, þá værum við öll saman sammála um það, að svona þarf þetta að vera, meðan víð höfum ekki nægilegt fjármagn til að sinna allra þörf.

Ég a. m. k. lít þannig á málin, að einmitt þegar eftirspurnin eftir lánsfé er miklu meiri, en hægt er að fullnægja, þá er enn þá vandfarnara með lánsfé. Þá má það miklu síður henda um mann, sem hefur möguleika til að bjargast á eigin spýtur, eða mann, sem býr við sæmilegt húsnæði, að af hinu takmarkaða fé sé tekið lánsfé handa honum, því að vitanlega skerðir það möguleika hinna. Þá ríður á, að það séu einmitt skynsamlegar og sanngjarnar reglur, sem tryggi, að hið takmarkaða lánsfé fari til þeirra, sem brýnasta og mesta þörfina hafa og í mestum nauðum eru staddir. Með losaralegum reglum fjarlægjumst við þetta. Með engum reglum, eins og starfað var áður samkvæmt fyrrverandi löggjöf, erum við komnir í órafjarlægð frá því að gegna þessari skyldu, að geta borið ábyrgð á því, að þessu takmarkaða lánsfé til húsnæðismála sé varið á skynsamlegan og réttlátan hátt.

Þá eru næstu greinar í frv. allar um það að fella niður 10., 11. og 12. gr. núgildandi húsnæðismálalaga, þ. e. a. s. greinarnar um skyldusparnaðinn, alveg. Ég minnist þess, að hv. stjórnarandstaða barðist mjög á móti því, að nýmælið um skyldusparnað yrði lögleitt á síðasta þingi, en það var nú samt gert, og er því ekkert hissa á því, þó að þeir vilji enn þá fella það í burtu og setja í staðinn ákvæði um frjálsan sparnað. Nú er það svo, að í gildandi löggjöf eru líka lagaákvæði um frjálsan sparnað, svo að hugmyndin um frjálsan sparnað er í lögum. Þarf að vísu nokkurn tíma til þess að koma henni í fulla framkvæmd, en ég veit ekki betur, en að því sé unnið af húsnæðismálastjórn, og til þess hefur hún fengið alla aðstöðu.

En um skyldusparnaðinn er það að segja, að það er ekki svo auðvelt að fella hann niður í einu vetfangi, án þess að það fylgi þá slíkri till. einhverjar till. um fjáröflun til húsnæðismála í staðinn, því að í gegnum skyldusparnaðinn er talið líklegt að komi um 15 millj. kr. a. m. k. á ári, og meðan við höfum jafntakmarkað fé og við höfum til úrlausnar í húsnæðismálunum, er mér ekki um það út af „prinsip“-ástæðum einum að fella niður 15 millj. kr. tekjur frá húsnæðismálunum. Ég sé ekki betur heldur, en með hreinni niðurfellingu þessara greina um skyldusparnaðinn í gildandi löggjöf féllu niður þær tekjur, sem ætlað er að komi í gegnum það. Ég geri ekki ráð fyrir, að það yrði mikið á mununum um það, hvað gæti komið inn í gegnum hinn frjálsa sparnað samkvæmt gildandi löggjöf og samkvæmt hins vegar þeim till., sem í þessu frv. eru um frjálsan sparnað.

Þá held ég, að það sé aðeins eftir eitt atriði frv., sem máli skiptir og ég hef ekki vikið að enn þá, og það er, að í staðinn fyrir orðin „4 millj. kr.“ í 16. gr. laganna komi 12 millj. kr. Það er í raun og veru hin mikla efnisbreyting á gildandi löggjöf, finnst mér. Hitt finnst mér allt saman fremur vera til þess að spilla gildandi löggjöf. En hver sá, er gæti útvegað 12 millj. kr. í staðinn fyrir 4 millj. kr., um það mundi muna 8 millj. kr. í viðbót.

Í fyrrverandi húsnæðismálalöggjöf var sérstakur kafli um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, og í þeirri löggjöf voru ekki ætlaðar 4 millj. kr., eins og núna, til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, heldur 3 millj. kr. Hjá fyrrverandi ríkisstj. voru 3 millj. kr. ætlaðar til þess hlutverks. Þegar löggjöfin var sett í fyrra, var þessi upphæð hækkuð um 25%. Hún var hækkuð úr 3 millj. kr. í 4 millj. kr. Og nú er ákvæði um það, að þessar 4 millj. eiga því aðeins að greiðast, að bæjarfélög eða sveitarfélög leggi fram jafnmikið fé á móti, og þannig var lagaákvæðið líka áður. Það þýddi því, að meðan 3 millj. voru ætlaðar af ríkisfé til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, var gert ráð fyrir, að á móti kæmu 3 frá sveitarfélögunum, þ. e. a. s. til þessa hlutverks voru af þjóðfélagsins hendi ætlaðar 6 millj. Samkv. þessari löggjöf, sem flm. eru svo sérstaklega óánægðir með, eru ætlaðar 8 millj. kr. til þessa hlutverks, svo framarlega sem sveitarfélögin leggja á móti ríkisfénu, 8 í staðinn fyrir 6. Þetta var talið sómasamlegt, 3 millj. framlagið hjá fyrrv. ríkisstj., og ég man ekki eftir, að flm. þessa frv. kæmu með neinar brtt. um, að það væri brýn nauðsyn að hækka það, hækka úr 3 þá. En þegar þær eru orðnar 4, kemur till. um það frá þeim, sem stóðu að fyrrv. ríkisstj., sjálfstæðismönnum, að það hækki úr 4 og upp í 12, þrefaldist frá því, sem núna er, fjórfaldist frá því, sem áður var. Vissulega er full þörf á þessu. Það skal ekki úr því dregið af minni hendi. Það er full þörf á því, bæði hér í Reykjavík og í kauptúnum úti um land og í sumum bæjarfélögunum líka, og það væri hægt að koma þessu fé fyrir, ef rösklega væri gengið að því verkefni að útrýma heilsuspillandi húsnæði.

Það var reyndar svo, að meðan þessar 3 millj. voru á fjárlögum, voru þær ekki notaðar til fulls einu sinni. Í fyrra stóðu sakirnar þannig, þegar við vorum að ræða hina nýju húsnæðismálalöggjöf, að þær 3 millj., sem höfðu verið á fjárlögum þá, það ár og árið á undan, höfðu ekki verið notaðar til fulls, hvorki af Reykjavík né neinum öðrum bæjarfélögum, svo að í viðbót við þessar 4 millj., sem nú voru teknar inn á fjárlögin, var afgangur eftir af hinni lægri fjárveitingu. Nú virðist hafa verið gert nokkuð mikið hér í Reykjavík sérstaklega til þess að byggja samkvæmt þessum kafla laganna, og það má segja, að það sé útlit fyrir, að nú gangi a. m. k. þessar 4 millj. upp. Þó var það þannig, þegar seinast voru athuguð þessi mál, að Reykjavíkurbær var ekki búinn að útrýma jafnmörgum íbúðum og ríkið hafði lagt fram fé til, til útrýmingar. En lagaákvæðin voru þannig í fyrrverandi löggjöf og eru óbreytt nú í núverandi löggjöf þannig, að samkvæmt þessum kafla á viðkomandi bæjarfélag, sem ætlar að nota sér ríkisframlög samkvæmt honum, að byggja húsnæði, þetta og þetta margar íbúðir, til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis í sama sveitarfélagi. Þegar þessar byggingar eru komnar upp, og það liggur fyrir vottorð um, að þær séu orðnar íbúðarfærar og fólk úr heilsuspillandi húsnæði í bæjarfélaginu komið í þær, þá á hins vegar að koma vottorð frá lögreglustjóranum í Reykjavík um það, að þetta og þetta og þetta heilsuspillandi húsnæði samkvæmt vottorði borgarlæknis hafi nú verið tekið úr notkun sem íbúðarhúsnæði og jafnað við jörðu, hafi það verið braggar. Þegar svona er komið, þá er ríkinu skylt að leggja fram jafnmikið fé og sveitarfélagið hefur lagt fram skv. þessum kafla laganna. Svona voru lögin, og svona eru þau. Ríkið á því ekki að leggja fram einn einasta eyri þarna, fyrr en búið er að ljúka byggingu og búið er að útrýma, enda er ekki hægt að vera öruggur um, að heilsuspillandi húsnæði sé útrýmt, með öðrum hætti en svona.

En hvað hefur húsnæðismálastjórnin gert? Hún hefur lagt fram fé. Seinast þegar var tekin skýrsla, nú í haust, var hún búin að leggja fram fé til útrýmingar 99 íbúðum, 70 þús. kr. á íbúð, að ég hygg, en Reykjavíkurbær var ekki búinn að útrýma nema 34, svo að enn þá hefur ekki staðið upp á ríkið. Það er ranghermt, ef því er haldið fram, en því hafði verið haldið fram í sumar, að það væri ekki Reykjavíkurbæ að kenna, það væri ríkið, sem vanefndi sínar skyldur. En það er sem sé ekki rétt enn.

Í grg. með þessu frv. er sagt, að það sé ekki ólíklegt, að um 10 millj. kr. verði nú næst ætlaðar á fjárhagsáætlun Reykjavíkur til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, — ekki ólíklegt. Það er ekki fullyrt svo sem, að Reykjavíkurbær fari svona hátt í þetta. Ég tek það ekki alveg sem örugga vissu, enda er því slegið bara svona fram. Eftir þeim umræðum, sem fram hafa farið í bæjarstjórn Reykjavíkur um þessi mál, er ekki ólíklegt, að um 10 millj. kr. verða ætlaðar til þessara mála á fjárhagsáætlun 1958. Verði það, ef Reykjavíkurbær gerir þetta og notar þá upphæð á fjárhagsáætlun, — til er nú það, að upphæðir hafa verið teknar á fjárhagsáætlun og ekki notaðar, — þá væri mjög æskilegt, að ríkið gæti svarað með sams konar upphæð, þegar byggingarnar væru komnar á það stig, sem lögin ákveða, og búið væri að útrýma hinu heilsuspillandi húsnæði. Þó er galli á þessu í framkvæmdinni, og hann er sá, að þrátt fyrir það, þó að búið sé að greiða úr ríkissjóði hér í Reykjavík margar millj. kr. í þessu skyni á undanförnum árum og í ár, er það bara staðreynd, að fólkið í verstu bröggunum situr í þeim enn eða hefur verið fært til — í betra tilfelli — í eitthvað skárri bragga og er þar, en fólk úr aftur skárra húsnæði oft og tíðum komið í hin nýju og nýtízkulegu raðhús, sem bærinn hefur verið að byggja og bærinn hefur verið að leggja fram fé til og ríkið einnig að leggja fé til, svo að það flögrar að manni, að þó að ríkið legði fram 10 eða 12 millj. og bærinn sínar 10 eða 12, þá kynni einmitt fólkið, sem við hörmulegasta húsnæðisástandið býr og hefur búið, að vera þar eftir enn og aðeins þokað eitthvað til í lítið eitt skárri bragga. Og meðan þetta er svo, þá er ég ekki alveg ánægður með framkvæmdina, þá er það ekki alveg eins göfugt að setja stórfé í þetta til þess að hjálpa öðrum, sem kannske eru ekkert verr staddir í sjálfu sér, en það fólk, sem verður að láta sér nægja 70 þús. kr. lán með háum vöxtum í gegnum húsnæðismálakerfið. Það er líka allt eins gott, að það sé eitthvert samræmi í hlutunum og maður sjái, að með göfugum löggjafarákvæðum sé framkvæmdin eitthvað í námunda við bókstafinn. Það er þessi skuggi á um framkvæmdina að því er snertir útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, að það virðist ganga sorglega seint á hið versta húsnæði og fólk sé eftir í því, þó að fólk fái aðstoð til þess að komast í nýtt og gott húsnæði, sem þó hafði jafnvel öllu betri húsnæðisástæður fyrir.

Ég teldi því, að það væru ekki síður ásæður fyrir okkur að reyna að koma okkur niður á skynsamlega og örugga aðferð til þess að útrýma hinu versta húsnæði og losa hinar verstu braggaíbúðir og kjallaraíbúðir og hanabjálkaloft og reyna að koma okkur bókstaflega saman, stjórnarflokkar og stjórnarandstaða, um löggjafarákvæði til þess. Ég óttast, að það sé ekki hægt með öðru móti, en löggjöf verði sett, sem geri ráð fyrir samstarfi ríkis og sveitarfélaga um byggingu leiguhúsnæðis einmitt fyrir þetta fólk, ef við ætlum að útrýma því versta og hjálpa þeim, sem nauðulegast eru staddir. Ég held, að það verði ekki gert samkv. þessum kafla, hversu ríkulega sem væri veitt fé til hans á fjárlögum og á fjárhagsáætlun Reykjavíkurbæjar, sveitarfélaganna yfirleitt, því að það er ekki á færi þessa fólks að leggja fram neinar 40 þús. kr. sem tryggingarfé, eins og nú mun vera heimtað af því fólki, sem á að fá aðstoð bæjarsjóðs Reykjavíkur og ríkissjóðs að öðru leyti til þess að komast í hin nýju raðhús eða þær byggingar, sem bæjarfélagið er að koma upp. Með því móti verður það ekki það fólk, sem er alsnautt, og sízt af öllu fólkið með stærstu fjölskyldurnar, stærstu barnafjölskyldurnar, sem fær úrbót sinna húsnæðismála. 40 þús. kr. eru ekki í handraðanum, og á því stendur, og þá er gengið fram hjá þeim bragganum og að þeim næsta, sem kannske er miklu skárri. Og síðan á annaðhvort að útrýma honum ellegar færa fólkið úr lakasta bragganum í hann aftur í staðinn. Og þannig gengur það víst oftast nær til.

Ég vil, áður en málið fer til n., láta sem sé í ljós þá skoðun mína, að ég hef ekki fundið neitt í þessu frv., sem sé til verulegra bóta, og mörg ákvæði frv., sem fjalla um að fella niður önnur ákvæði úr gildandi löggjöf, tel ég vera til skemmda, til skaða, og vænti þess, að flutningsmenn leggi ekki áherzlu á að fella neitt út úr gildandi löggjöf, sem væri tjón af að væri fellt niður. Hitt get ég vel fallizt á, að þeir fylgi eftir, eins og þeir hafa máttinn til, að fella niður skyldusparnaðinn, því að það virðist mér vera þeirra „prinsip“-mál, og þeir eru þar greinilega á allt annarri skoðun. En þá yrði líka að tryggja með einhverjum hætti svipaða fjáröflun til húsnæðismálanna í staðinn, ef skyldusparnaðarfyrirkomulagið ætti að falla úr lögum.

Það er viðurkennd þörfin fyrir 12 millj. kr. til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði. En ekki væri ég ánægður með það eitt, þó að allur þingheimur yrði sammála um að þrefalda nú þá upphæð, sem á fjárl. er, nema því aðeins að þingið tryggði það jafnframt, að þá yrði þeim 12 millj. kr. varið til þess að jafna við jörðu braggahverfin hér í borginni hreint og beint án tillits til þess, hvort fólkið, sem í þeim bröggum byggi, hefði 40 þús. kr. handbærar til þess að leggja fram á borðið sem tryggingarfé, áður en það fengi von um nýja íbúð.