09.12.1957
Neðri deild: 35. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (1909)

68. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Ég skal nú ekki ræða málið almennt núna, ég gerði það nokkuð hér í upphafi fundar, en víkja að nokkrum atriðum, sem hv. frsm. kom nú að.

Hann sagði, að það þyrfti áreiðanlega miklu meira en 12 millj. á ári frá ríki og sveitarfélögum til þess að ná fljótt því marki að útrýma heilsuspillandi húsnæði, og má vera, að það sé rétt. En það held ég þó, að nokkuð mundum við þokast fljótlega í áttina með því að útrýma því, ef 12 millj. kr. væru lagðar fram af ríki og bæ og gengið á röðina þannig, að útrýmt væri örugglega því versta eftir hendinni, og það er sú aðferð við það, sem við þyrftum fyrst og fremst að geta orðið sammála um löggjöf um, stjórnarflokkar og stjórnarandstaða. Það er sannast að segja svo, að ég er afar hræddur um, að það liðu kannske áratugir og við horfðum sífellt upp á hið versta og hörmulegasta húsnæði, þó að of fjár væri veitt úr bæjarsjóði og ríkissjóði, meðan eingöngu eru farnar þær leiðir, sem nú eru farnar. Það er sem sé áreiðanlegt, að það fólkið, sem í versta húsnæðinu býr, hefur engar 30–40 þús. kr. að leggja fram á fyrsta stigi byggingarmálsins fyrir sig, til þess að geta orðið aðnjótandi hinna hagkvæmustu lána frá bæjarfélagi og ríkissjóði. Og það er það, sem að er. Og þar vék ég að því, að það væri athugandi, hvort við gætum ekki eiginlega orðið frekar sammála um það að hefjast handa um lagasetningu og framkvæmd, sem kæmi þessu fólki til nota, t. d. með því að hefja byggingu leiguhúsnæðis handa því fólki, sem ekkert fé hefur fram að leggja sem sína hlutdeild í byggingarkostnaði. Og ég er afar hræddur um það, að hvað sem líði fjárveitingum af hendi ríkissjóðs og bæjarfélaga, verði þetta fólk lengst út undan, nema því aðeins að þannig væri tekið á málunum til þess að koma upp íbúðarhúsnæði yfir það. Annað er svo það, að ég skal láta það í ljós hér, að ég er þeirrar skoðunar, að þær íbúðir margar, sem bæjarfélögin eru að byggja og sérstaklega Reykjavíkurbær, verði of dýrar. Ég veit ekki, hvernig á því stendur, en mér virðist þær vera anzi dýrar, þegar þær núna, rúmlega fokheldar, að vísu með miðstöðvarkerfi, eru komnar upp í 240–260 þús., — er það ekki? — eins og skilizt er við þær, þegar eigendurnir taka við þeim (Gripið fram í.) — og fjögurra 267, er það ekki? (Gripið fram í: Nei.) Ja, ég er hræddur um, að það sé milli 240 og 260 þús. kr., sem fjögurra herbergja íbúðin kostar nú, þegar Reykjavíkurbær afhendir hana einstaklingunum. Það finnst mér afskaplega dýrt. Það er þó hægt að horfast í augu við þá staðreynd, gleðilegu staðreynd, að í verkamannabústöðunum, sem voru teknir í notkun núna fyrir hálfum mánuði, voru fjögurra herbergja íbúðirnar á 260 þús. kr. fullgerðar, og það virðist vera þannig mögulegt að byggja allforsvaranlegar íbúðir, það voru góðar íbúðir, ég skoðaði þær, — og stóðu í 260 þús. kr. fullgerðar. Ég held því, að við verðum að leggja okkur alla fram um það með útboðum og hverjum ráðstöfunum sem hægt er að reyna að koma byggingarkostnaðinum niður, og mér finnst, án þess að ég vilji ásaka neinn, að þær íbúðir, sem Reykjavíkurbær er að byggja, verði anzi dýrar, nálgist það, sem íbúðir ganga kaupum og sölum á hinum frjálsa sölumarkaði hér í Reykjavík, og hann er of hár. Hann er ekki miðaður við raunverulegan kostnað. Það er alveg vitað, að það eru tugir þúsunda króna, sem eru teknar af milliliðum í sambandi við húsasölur hér í bænum í skjóli hinnar miklu eftirspurnar.

Þá heyrði ég það enn þá, að hv. frsm. leggur geysilega mikla áherzlu á, að það verði felld út úr 2. gr. gildandi húsnæðislöggjafar þessi málsgrein, með leyfi forseta:

„Húsnæðismálastjórn er heimilt að láta undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum með því að láta gera skipulagsuppdrætti af þeim í samráði við skipulagsnefnd ríkisins. Þegar slíkir skipulagsuppdrættir hafa verið samþykktir af skipulagsnefnd og félmrh., er viðkomandi bæjarfélagi skylt að heimila byggingarnar og láta af hendi eða útvega landsvæði fyrir þær, ef með þarf með eignarnámi, og fer um eignarnám skv. lögum nr. 61 frá 1917. Sömuleiðis er viðkomandi bæjarfélagi skylt að leggja nauðsynlega vegi og leiðslur um slík hverfi innan hæfilegs tíma að mati húsnæðismálastjórnar og félmrh.“

Það má segja kannske, að þarna séu allverulegar kvaðir og skyldur lagðar á bæjarfélög um það, að ekki standi á skipulögðu byggingarsvæði, þegar aðgerðir ætti að gera á þann veg að byggja íbúðarhúsahverfi. En ég fullyrði, að það eru engar líkur til þess, að húsnæðismálastjórn héldi þannig á þessu ákvæði, að ekki væri fyrst leitað samkomulags við viðkomandi bæjarfélag um að skipuleggja ákveðið svæði og leggja til land, og því aðeins að á þessu væri ófyrirgefanlegur dráttur, kæmi til þess, að húsnæðismálastjórn ýtti á framkvæmd með því að nota þessa heimild. Hitt er vitað, að bæði að því er snertir einstaklinga hér í borg og aðra, sem ætla að byggja, þá er oft og tíðum hvað erfiðast að komast af stað, af því að það er ekki til skipulagt svæði, sem bæjaryfirvöldin benda á, eða fáanlegar lóðir, og það stendur fyrir allri framkvæmd löngum og löngum. Ég dyl það því ekki, að ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki til bóta á gildandi löggjöf að fella þetta ákvæði niður. Hins vegar veit ég það, að því verður ekki beitt af neinum hrottaskap gegn neinu bæjarfélagi og fyrst reyndar samkomulagsleiðir. Dugi þær ekki, þá gæti náttúrlega til þess komið, að þessi öryggisventill kæmi í „funksjón“, þannig að húsnæðismálastjórn léti undirbúa skipulagningu fyrir íbúðarhúsahverfi, og gæti þó því aðeins komizt fram með það, að samþykki skipulagsnefndar fengist fyrir.

Þá er það sýnilegt, að við erum alveg öndverðrar skoðunar um, hvernig útlánareglur eigi að vera. Ég fór um það nokkrum orðum hér áðan, að eins og þetta var, þá var það svo, að það voru engar útlánareglur. Þeir góðu menn, þessir tvímenningar, voru engu bundnir um það, hvernig þeir vörðu því lánsfé, sem þeir höfðu á milli handa. Þeir voru því ekki að brjóta neinar reglur eða nein lög eða bregðast neinum trúnaði, þegar þeir bara veittu lánin eftir eigin geðþótta. Það var þannig: bara eftir eigin geðþótta, persónulegum geðþótta. Ég þekki þessa menn báða. Og á þeim var staðið, af kunningjum, flokksbræðrum og úr öllum áttum stóðu á þeim járnin. Og þegar þeir þurftu engar lagareglur að brjóta, engar reglur að brjóta, hvað þá? Ja, þá fór það þannig, að það var togað út úr þeim lán til þeirra, sem minni þörf höfðu á því en þeir, sem eftir sátu og fengu ekkert. En þetta vita þeir ósköp vel og játa líka sjálfir. Þeir menn, sem vilja hafa það þannig, ég skil það ósköp vel, að þeir vilja engar reglur hafa, vilja hafa það eins og það var. En ég segi bara: Eftir því sem við erum með takmarkaðra fé á milli handa, eftir því er nauðsynlegra, að reglurnar séu strangari um, að út úr hópi þeirra hundraða, sem bíða, séu fyrst og fremst teknir þeir, sem mestrar hjálpar eru þurfi. Og það verður ekki gert öðruvísi, en að reglur séu um það, að þeir, sem lánin veita, skuli taka tillit til ástands íbúðarhúsnæðis, sem fólkið býr við, fjölskyldustærðar, efnahags, lánamöguleika og þar fram eftir götunum. Og það er þetta, sem í núverandi stigakerfi er tekið ákveðið tillit til.

Viðvíkjandi svo greinargerðum fyrir því, hvernig hús þeir ætli að byggja, hvernig hús það eigi að vera, sem þeir séu að sækja um lán til, þá eru meginatriði í eðlilegri útboðslýsingu lögð til grundvallar fyrir þeim spurningum, sem umsækjandinn á að svara. Og ég hef haldið því fram, að í raun og veru sé ekki hyggilegt fyrir neinn að fara af stað með byggingu íbúðarhúsnæðis, nema hann sé, annaðhvort á eigin spýtur eða í samráði við kunnáttumenn, búinn að gera sér grein fyrir því: Hvernig kemur hún til með að líta út, kostnaðaráætlunin að því húsi, sem ég ætla að byggja ? Og þá er eins gott fyrir hann að hafa aflað sér þessarar vitneskju á byrjunarstiginu, áður en hann fer að sækja um lánið meira að segja, heldur en að gera það í miðjum klíðum, þegar hann er kominn út í ógöngur með bygginguna, sem hann fór fyrirhafnarlítið að hefja.

Ég held, að hvað sem við ræðumst við um þetta, hvort það eigi að vera strangar reglur eða losaralegar reglur, þá verðum við alltaf ósammála um þetta, hv. 1. flm. frv. og ég. Það er þarna greinilegt, að það er grundvallarskoðanamunur okkar á milli um það. En ég held, að ég geti varið það fyrir hverjum sem er, að einmitt meðan féð er takmarkað, ríður á, að það sé látið ganga til þeirra, sem mesta hafa þörfina.

Viðvíkjandi því, sem ég vék að því, að seðlabankastjórnin legði núna ríka áherzlu á, að það yrði lögð öll áherzla á að ljúka því íbúðarhúsnæði, sem nú er hálfgert, — en þær íbúðir skipta hundruðum, líklegast eru þær yfir þúsund bara hér í Reykjavík einni saman og eru sumar búnar að standa í byggingu frá því á árinu 1955 og hafa ekki komizt á það stig, að hægt væri að taka þær til notkunar enn þá, þá er það sammæli húsnæðismálastjórnar og mín og stjórnar seðlabankans, að það sé mikil nauðsyn, og ég heyri líka skoðun hv. 1. flm. frv., sem hér liggur fyrir, að það sé höfuðnauðsyn að geta lokið sem allra flestum af þessum íbúðum sem fyrst, tekið þær í notkun, og það muni áreiðanlega hafa áhrif á bæði húsaleigu og húsasölur hér í bænum og þar að auki bæta úr mjög miklu af húsnæðisskorti hér í borg og hér í nágrenninu. Og það er vissulega rétt. Nú er það, eins og hv. flm. er kunnugt, að lánveitingarnar koma eingöngu til húsa, sem eru á því byggingarstigi, að þær eru orðnar fokheldar, og það, sem yrði úthlutað nú af lánum, færi því til húsa, sem eru á hinum síðari hluta byggingarstigs. Og þá hefur verið um það rætt, að í sambandi við það fé, sem nú verður útvegað, verði í stigakerfinu einmitt aukinn þungi þess, hversu lengi viðkomandi umsækjandi um lán sé búinn að stríða við sína byggingu. Ef hann sé búinn að vera í tvö ár, þá er sýnilegt, að hann hefur átt í miklum erfiðleikum með að koma húsinu áfram og þá verði aukinn þungi þeirra stiga, sem gefin eru fyrir tímann, frá því að húsið varð fokhelt, til þess að ýta þessu fram, og inn á þetta hefur verið gengið. Þetta er orðið bundið fastmælum og kemur til framkvæmda nú. Ég vænti, að þetta atriði liggi skýrt fyrir mönnum nú, og það virðist vera þess eðlis, að menn séu yfirleitt sammála um að það sé réttmætt gagnvart þeim, sem lengi eru búnir að berjast við að koma sínu húsnæði áfram og hefur ekki unnizt það á t. d. tveimur árum, og með tilliti til þess að fá húsnæði, sem búið er að binda mikið fjármagn í, þá sé einmitt rétt að gera þetta.

Viðvíkjandi fjárupphæðinni til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, þá stendur það fast, sem ég áðan sagði, að núverandi stj. hefur hækkað þetta fjárframlag um 25%, úr 3 millj. í 4, og tekjurnar til húslánakerfisins jók hún líka stórlega frá því, sem áður var, og framlagið til byggingar verkamannabústaða var hækkað úr tæpum 2 millj. í 4 og útveguð 8 millj. kr. lánsupphæð á því sviði. Þetta er í raun og veru allstórt átak, miðað við það, sem áður var, en einmitt hafði hv. frsm, skýrt frá því, að fyrrverandi ríkisstj. hefði haft það sem eitt sinna höfuðmála að reyna að afla fjár til húsnæðismálanna til þess að leysa þau til frambúðar. Og ég vil segja það, að ef þau mál hafa verið leyst til frambúðar að áliti fyrrverandi ríkisstj. með 3 millj. kr. framlagi til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, með tæpum 2 millj. kr. til verkamannabústaða og með þeirri fjáröflun, sem þá stóð að baki veðlánakerfinu, þá er búið að gera æði miklu meira, en sú ríkisstj. ætlaðist til með því að hækka framlagið til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis úr 3 í 4 millj., sem þýðir, að í staðinn fyrir 6 millj. koma nú 8, þegar tekið er tillit til mótframlags frá sveitarfélögum, og að í staðinn fyrir 2 millj. til verkamannabústaða koma 4, sem þýðir, að mótframlag sveitarfélaganna á að vera 4 millj. í staðinn fyrir 2 áður, og síðan, að svo að tugum millj. skiptir er aflað fjár til byggingarsjóðs og veðlánakerfisins samkv. þeirri löggjöf, sem var lögfest hér á síðasta þingi. Svo er hægt að koma að vísu og segja: Ja, þörfin er enn meiri en svo, að hún sé leyst með þessu. — En það er ólíkt myndarlegar tekið á þessum málum nú, en með þeirri löggjöf, sem áður gilti, og hafði þó verið ætlað að leysa þessi mál til frambúðar. Að hinn leytinu er svo, eins og allir vita, sú skoðun manna, að Íslendingar verji meira af þjóðartekjunum til fjárfestingar, en nokkur önnur þjóð geri og að það sé ekki hægt að leyfa sér, hvorki að því er snerti byggingu íbúðarhúsnæðis né aðra fjárfestingu, að halda í horfinu, eins og við höfum gert að undanförnu, hvað þá heldur að auka. Það er því tvennt, sem kemur til greina: Í fyrsta lagi: Er hægt að útvega það fé, sem brtt. þeirra, sem að frv. standa, fer fram á? Og í annan stað: Er hægt að koma því saman við fjárfestingargetu þjóðarinnar að margfalda aðgerðir þjóðfélagsins í þessum málum? Ef við rekumst á þetta hvort tveggja sem lítt yfirstíganlega örðugleika, þá finnst mér, að við verðum fyrst og fremst að gera allt, sem hægt er, til þess að byggja hagkvæmar íbúðir, ekki allt of stórar, vanda vel til þeirra og nota á allan hátt eigin framlög einstaklinganna, eins og hér hefur verið gert, og hafa strangar reglur um það, að ýtrasta réttlætis sé gætt um lánveitingarnar fyrir einstaklingana, sem eru að berjast við að byggja. Þá dugir ekkert handahóf. Það væri miklu fremur hægt að leyfa sér að hafa um þetta losaralegar reglur eða engar reglur, ef við hefðum nægilegt fé til þess að verja til þessara mála. En það höfum við takmarkað, og þess vegna verðum við að gæta alls í þessum málum, elns og reynt er að gera með þeim reglum, sem settar hafa verið af húsnæðismálastjórn. Ég hef þar á engan hátt gripið inn í, engar tillögur gert um þessar reglur, nema ég tel það skynsamlegt, að þær bæði taki tillit til efnahags og aðstöðu fólks í húsnæðismálum, lánamöguleika, og líka, að víðvíkjandi nýjum lánveitingum séu gefnar eins góðar upplýsingar og hægt sé um, hvernig það húsnæði sé, sem menn ætli að færast í fang að byggja, áður en lán sé veitt.