10.12.1957
Neðri deild: 36. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (1911)

68. mál, húsnæðismálastofnun

Flm. (Jóhann Hafstein) :

Herra forseti. Þegar frá var horfið þessum umr. í gær, voru nokkur atriði, sem fram höfðu komið í ræðu hæstv. félmrh., sem ég vil gera lítillega að umtalsefni.

Hæstv. félmrh. talaði um það, að sér fyndist, að íbúðir þær, sem verið væri að byggja hér í Reykjavík með forgöngu bæjarstjórnar til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði, mundu vera of dýrar, og sérstaklega bar hann mikinn kvíðboga fyrir því, að þeir efnaminnstu mundu ekki geta notið góðs af þeim framkvæmdum, sem hér er um að ræða.

Í fyrsta lagi varðandi það, að íbúðirnar séu of dýrar, þá vil ég taka fram, að þegar ég hef talað í þessu sambandi um fokheldar íbúðir, bæði fyrr og síðar í umr., og einnig ef minnzt hefur verið á verðlag í því sambandi, þá er það í raun og veru miklu meira, sem búið er að gera við þessar svokölluðu bæjaríbúðir, heldur en í venjulegum skilningi er átt við, þegar talað er um fokheldar íbúðir. Þannig eru raðhús bæjarins, sem byrjað var á samkvæmt þessari byggingaráætlun, afhent í því ástandi, að þau eru það, sem venjulega er kallað fokheld, en auk þess eru þau með tvöföldu gleri í gluggum, útihurðum og hitalögn og auk þess gengið frá þeim og máluð að utan. Hitalögnin, hin sameiginlega hitalögn, sem þegar er búið að byggja, frágangur húsanna allur að utan, tvöfaldir gluggar og útihurðir er allt umfram það, sem í venjulegum skilningi er átt við um fokheldar íbúðir. En þegar kemur að fjölbýlishúsunum við Gnoðavog, er enn þá lengra gengið í þessu efni, en í raðhúsunum og byggingarframkvæmdunum komið töluvert lengra áfram, þar sem þar er um fleiri sameiginleg atriði á milli íbúðanna að ræða, en í raðhúsunum, sem ganga þarf frá sameiginlega, áður en íbúðirnar eru afhentar. Allt þetta ber að hafa í huga, og til viðbótar vil ég taka það fram, að það hefur verið lögð áherzla á að hafa þessar byggingar hagkvæmar. Raðhúsin eru 4 herbergja íhúðir með sérinngangi fyrir hverja fjölskyldu, fyrir hvert svokallað hús eða hverja íbúð. Í fjölbýlishúsunum eru 2 og 3 herbergja íbúðir, og þar er einn sameiginlegur stigauppgangur fyrir 8 íbúðir. Áætlanir eru nú á kreiki um raðhús, sem eru einfaldari að formi en þessi, sem nú þegar hafa verið byggð, og þá væru að vissu leyti kannske ekki eins aðlaðandi fyrir fólkið, en engu að síður fullkomin og hagkvæm hús, en t. d. fleiri um stigagang og lóðir ekki þar af leiðandi hægt að aðgreina eins og í fyrra tilfellinu. Að sjálfsögðu er hægt að athuga þetta mál nánar, en ég vil leggja áherzlu á, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefur sent húsnæðismálastjórninni hverju sinni allar þær áætlanir, sem hún hefur haft á prjónunum til þess að byggja, svo að útrýmt verði heilsuspillandi húsnæði, og þessum áætlunum hafa fylgt mjög ýtarlegar kostnaðaráætlanir, og er mér ekki kunnugt um, að í neinu tilfelli hafi komið fram nein athugasemd frá húsnæðismálastjórn.

Ég held þess vegna, að óhætt sé að slá því föstu, að bæði er hér um hagkvæmar íbúðir að ræða, a. m. k, miðað við það, sem gerist bæði hér í Reykjavík og annars staðar, og auk þess held ég, að það sé alveg óhætt að slá því föstu og menn geti verið öruggir um það, að byggingarframkvæmd Reykjavíkurbæjar verður hagað með það fyrir augum, að gersamlega verði útrýmt herskálunum og öðru svipuðu heilsuspillandi húsnæði, og þar af leiðandi verður einnig séð fyrir þörfum þeirra, sem verst eru settir efnalega.

Ég vil vekja athygli á því, að þegar hafa barnflestu fjölskyldurnar fengið úthlutað húsnæði í raðhúsunum, og nú mun taka við úthlutun á 3 herbergja íbúðum og 2 herbergja í Gnoðavogshúsunum, og verður að sjálfsögðu enn að taka verulegt tillit til stærðar fjölskyldnanna. En ég vil líka minna á þá staðreynd, að þegar rannsókn var gerð á því, hverjir byggju í herskálum, sem byggingaráætlun er grundvölluð á, þá er verulegur fjöldi, sem býr í herskálunum, milli 50 og 100 íbúðir, þar sem aðeins er um að ræða einstaklinga, einstaklinga eða einstæðar mæður, ef til vill með eitt eða tvö börn. Slíku fólki er auðvitað hægt að koma fyrir í miklu einfaldari og minni íbúðum, en þegar hafa verið byggðar í þessu skyni eða þá í leiguhúsnæði.

Nú vil ég taka það fram, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefur á undanförnum árum lagt megináherzlu á það í sambandi við sínar byggingarframkvæmdir að gera einstaklingunum eða fjölskyldunum kleift að eignast þær íbúðir, sem bæjarstjórnin hefur haft forgöngu um að byggja. Engu að síður hefur því sjónarmiði verið hreyft, að ef til vill verði, áður en lokið verði þeirri framkvæmd að rífa alla herskála og heilsuspillandi húsnæði, að byggja eitthvert leiguhúsnæði, þótt ekki yrði í stórum stíl, af hálfu bæjarstjórnar. En það er einnig á að líta, að bæjarstjórn Reykjavíkur hefur yfir að ráða töluvert miklu leiguhúsnæði í dag, og sumt af því fólki mundi vafalaust og hefur þegar óskað eftir að vera aðnjótandi hinna nýju íbúða, sem eigendur og kaupendur þeirra, og væri þá hægt að ráðstafa því leiguhúsnæði, sem þannig losnar, til þess fólks, sem nú býr í herskálum og heilsuspillandi húsnæði og hefur ekki bolmagn sjálft til þess að eignast eða byggja sér húsnæði.

En í þessu sambandi vil ég taka fram, að það ber að forðast í lengstu lög að byggja leiguhúsnæði fyrir fólk af hálfu bæjarstjórnar, miðað við þá reynslu, sem af því hefur fengizt. Þetta er ekki aðeins dómur minn um þetta atriði, heldur er þetta skoðun meiri hluta bæjarstjórnar Reykjavíkur, og þetta sjónarmið kom mjög berlega fram af hálfu fulltrúa þeirra höfuðborga Norðurlanda, sem sátu hér á höfuðborgaráðstefnu á s. l. sumri. Ég vil í því sambandi geta þess, að fyrrverandi forseti bæjarstjórnar Oslóborgar, Ole Bull, hæstaréttarlögmaður, gat þess á þessari ráðstefnu, að það hefði nú á síðari árum verið horfið frá þeirri leið af hálfu borgarstjórnar í Osló að byggja leiguhúsnæði til þess að ráða bót á húsnæðisvandræðunum. Og það er kunnugt, að það er ekki aðeins, að frá þessari stefnu hefur verið horfið, eftir því sem verða má, að byggja slíkar nýbyggingar, heldur hefur Oslóborg beinlínis afhent stór íbúðahverfi, sem borgin átti og leigði, þeim, sem þar bjuggu, afhent það íbúunum til eignar og umsjár. Þetta kom ekki aðeins fram hjá fulltrúum Oslóborgar, heldur einnig frá fulltrúum annarra höfuðborga á þessari ráðstefnu og er alveg í samræmi við reynsluna hér í Reykjavík. Öll reynslan staðfestir, að það er miklu farsælli og heillavænlegri stefna að leggja megináherzlu í samstarfi bæjarins og borgaranna á að ráða einhverja bót á húsnæðisskortinum, að miða framkvæmdir sínar við það, að einstaklingarnir sjálfir eða fjölskyldurnar geti orðið eigendur íbúðarhúsnæðisins.

Það hefur einnig blandazt inn í þetta mál, að íbúðirnar séu ekki nógu litlar, sérstaklega kom það fram, þegar húsnæðismálalöggjöfin var sett á síðasta þingi, að það yrði umfram allt að takmarka lánveitingarnar við stærð íbúða og reyna að minnka íbúðirnar, eftir því sem verða mætti. Við sjálfstæðismenn vorum alveg ófeimnir við að halda því fram þá, að hér væri horfið inn á mjög óheillavænlega braut og ekki líklega til góðs. Sömu sjónarmið komu einmitt fram á þeirri höfuðborgaráðstefnu Norðurlanda, sem ég vitnaði til áðan, að alls staðar eru borgarstjórnirnar að hverfa frá smáíbúðunum, 2 herbergja íbúðunum,. og gera íbúðirnar stærri. Allt miðar að því, þvert á móti því, sem virtist vera tekið upp við setningu húsnæðismálalöggjafarinnar hér, eða a. m. k. miðað við þau sjónarmið, sem fram komu hjá aðalstuðningsmönnum þeirra, að það ætti endilega að minnka íbúðirnar, og það kom fram hér í umr. á þingi, að í raun og veru væri óhæfa 4 herbergja íbúðirnar, sem bæjarstjórn Reykjavíkur hefur beitt sér fyrir byggingu á í raðhúsunum. Ég vara alvarlega við þessu sjónarmiði. Það getur látið vel í eyra, að það eigi ekki að vera að byggja eins og kallað er lúxus-íbúðir og stórar íbúðir, — um að gera að hafa íbúðirnar nógu litlar, 2 herbergja og eins herbergis íbúðir og allir fái eitthvert húsnæði. En vandinn er ekki leystur með því, að byggðar séu litlar íbúðir, sem eru yfirfullar af fólki og fullnægja engan veginn sómasamlegri þörf þeirra, sem í þeim búa.

Ég leyfi mér að vekja athygli á því, að stærð íbúða hefur farið vaxandi, meðalstærð íbúða í Rvík, og ég verð að telja það mjög eðlilega og ánægjulega þróun. Þannig liggja fyrir tölur um það, að 1935 var meðalstærð íbúða í höfuðstaðnum 298 m3, 1945 301 m3, 1950 325 m3 og 1956 353 m3. Ég tel, að hér sé um að ræða mjög heillavænlega þróun, sem æskilegt væri að við gætum haldið og ekki þyrfti að hverfa aftur til baka til þess, sem síðar mun hefna sín, vegna þess að áður en varir er orðið óheillavænlegt þéttbýli í hinum minnstu íbúðum.

Það er vert að athuga, að í Reykjavík hefur íbúafjöldinn á herbergiseiningu, ef honum er deilt niður og þá eldhús meðtalið, verið 1928 1.09 íbúar á herbergiseiningu, 1940 1.18, 1950 1.05 og 1956 0.99, eða m. ö, o.: það er ekki einn íbúi á herbergiseiningu árið 1956. Þetta er ekki síður athyglisvert, þegar það er haft í huga, að nærri helmingur allra íbúða í Reykjavík, eða 46.4%, er byggður frá árslokum 1940 og til ársloka 1956. Það er líka rétt, að mönnum finnst stundum ganga seint að greiða úr húsnæðisskortinum. Og það er eitt atriði, sem menn hafa ekki gert sér fyllilega ljóst í því sambandi, og það er hinn bætti efnahagur fólksins, sem gerir meiri kröfur, þ. e. a. s., það eru gerðar meiri kröfur til húsnæðisins, að það sé stærra og betur búið, og þar af leiðandi tekur auðvitað nokkru lengri tíma að bæta úr húsnæðisskortinum, og sennilega er óhætt að slá því föstu, að hér í Reykjavík væri enginn húsnæðisskortur, ef við byggjum við sömu lífskjör að þessu leyti og fyrir 20 árum eða sömu skilyrði eða sama „standard“, eins og það er orðað. En það er alveg nákvæmlega sama reynslan sem við rekum okkur á hjá hinum Norðurlandaþjóðunum.

Ef við lítum á skiptingu íbúðanna í stærðir í Reykjavík, þá er það nokkuð athyglisvert, að 1928, eða fyrir tæpum 30 árum, eru af öllum íbúðunum í bænum eins herbergis íbúðir með eldhúsi, — eldhúsið er alls staðar innifalið, — eins herbergis íbúðir eru 24.8% af íbúðunum í bænum. 1940 eru eins herbergis íbúðir 8.8%, 1950 6.2%, 1956 5.2, og miðað við byggingar, sem byggðar voru á árinu 1956, eru eins herbergis íbúðir með eldhúsi 0.3%. Það er m. ö. o. varla nokkuð eða í hverfandi mæli, sem byggðar eru þessar minnstu íbúðir, og því, eins og ég sagði áðan, tel ég að beri mjög að fagna. 2 herbergja íbúðir voru af öllum íbúðum borgarinnar 1928 31.1%, 1940 30.2%, 1950 28.3% 1956 25.3% og 1956 10.1%, miðað við þær byggingar, sem byggðar voru á árinu. Þeim hefur sem sagt hlutfallslega einnig fækkað, 2 herbergja íbúðunum.En ef við lítum á 3 herbergja íbúðir eða íbúðir, sem eru minnst 3 herbergi eða fleiri, þá voru þær 1928 44.l% af öllum íbúðum borgarinnar, eru orðnar 61% 1940, 65.4% 1950, 69.5% 1956, og af þeim íbúðum, sem byggðar voru 1956, 89.6%.

Ég hef leyft mér að vekja athygli á þessum staðreyndum hér til þess að vara alvarlega við þeim hugsunarhætti að ætla sér að leysa eða bæta úr húsnæðisskortinum með því að hverfa aftur að því ráði að byggja hinar minnstu íbúðir.

Eftir þeim áætlunum, sem nú eru um stærðir íbúða í Stokkhólmsborg, þá er gert ráð fyrir því, að a. m. k. 55% af öllum þeim íbúðum, sem byggðar verða á næstunni, séu a. m. k. 3 herbergja íbúðir og stærri. Við erum að vísu þarna enn á nokkru hærra stigi en þeir. En ég held, að þegar allt kemur til alls, þá beri, eins og ég sagði áðan, að fagna þróuninni, sem orðin er, og gjalda varhug við afturhvarfi frá henni.

Það liggja einnig fyrir upplýsingar um það, að það er að því leyti svipað ástand t. d. hjá nágrönnum okkar, að því er haldið fram, að nú liggi fyrir töluverður húsnæðisskortur í borg eins og Stokkhólmi, en ef „standardinn“ væri sá sami og fyrir 20 árum eða því um líkt, ef menn byggju við sömu skilyrði, þá væri ekki við nein húsnæðisvandræði að etja. Þetta eru allt saman veigamikil atriði, sem menn verða að gera sér fulla grein fyrir, þegar þessi vandasömu mál eru rædd. Að sjálfsögðu er eðlilegt, að slík sjónarmið eins og hér er hreyft verði nánar athuguð undir meðferð málsins og ekki sízt þegar málið kemur til meðferðar í nefnd.

Ég vil svo loks að gefnu tilefni vekja athygli á því, að ég hreyfði því sjónarmiði hér í gær við umr., að það væri ekki einhlítt á takmörkuðum lánamarkaði að miða við það sjónarmið eitt, að þeir, sem verst væru settir, minnst efnum búnir eða fátækastir, ættu á hverjum tíma að sitja fyrir lánsfénu, það væri ekki einhlítt vegna þess, að það væri aðeins eitt ráð til að bæta úr húsnæðisskortinum og það væri að byggja nógu mikið nýtt húsnæði. Ég hafði þann fyrirvara á orðum mínum, að e. t. v. mundu einhverjir hafa freistingu til þess að leggja út af þeim öðruvísi en þau eru meint, og ég gerði það af alveg sérstöku og ásettu ráði vegna þeirra fulltrúa, sem blöðin hafa hér í þingsölunum og hafa það verkefni að greina satt og rétt frá því, sem sagt er af hálfu þm. Nú vill svo vel til, eftir að við höfum þá tækni, að umr. þm. eru teknar upp, að það er í raun og veru alltaf hægt að afsanna það, sem ósatt er sagt frá í blöðunum. En samt sem áður er það hvimleitt, að fréttaritarar blaðanna skuli ekki geta staðizt þá freistingu að fara algerlega rangt með mál þm., sérstaklega þegar þm. sjálfir hafa haft fyrirvara um það, að þeir ættu í því efni að gæta varúðar. Þetta segi ég að gefnu tilefni, því að ekkert af því, sem stendur í morgun í Þjóðviljanum um það, hvað ég hafi sagt um lánveitingar til efnaminna fólks og fátæks, fær staðizt víð það, sem ég raunverulega sagði í minni ræðu í gær. Ég hefði gjarnan viljað lesa þessa ræðu upp og bera hana saman við umsögn Þjóðviljans. Því miður var ekki búið að vélrita þessa ræðu nú, og það er auðvitað hægt að gera það á öðrum vettvangi. En það, sem menn verða að gera sér grein fyrir og festa sjónir við hér, er að húsnæðismálin verða ekki leyst með því að segja ósatt frá um úrlausn þeirra, leyna meginatriðum í sambandi við úrlausnir þeirra. Og því verður ekki mótmælt, og sú staðreynd stendur alveg óhögguð, að það er ekki einhlítt til þess að leysa úr húsnæðisvandræðunum að veita takmörkuðu fjármagni öðru fremur til þeirra, sem erfiðasta aðstöðu hafa til þess að eignast húsnæði og byggja yfir sig. Það er ekki einhlítt. Á þetta benti ég, á sama tíma sem ég lagði áherzlu á, að framkvæmd Reykjavíkurbæjar til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis væri við það miðuð að liðsinna öllum og ekki síður þeim efnaminni og fátækari í þessu efni. En fagurgali og stórar yfirlýsingar og ósannindi, eins og fram hafa komið bæði hér í þinginu og í frásögnum í blöðum um það, sem hér er sagt, verður ekki þeim húsnæðislausu til neinna úrbóta. Mér er að vísu alveg ljóst, að engir skilja þetta betur en þeir sjálfir, sem eiga við erfiðleikana að stríða. En vegna þess, að hér hefur svo augljóslega verið rangt með farið í einu af dagblöðunum, eins og ég gerði grein fyrir áðan, og af því að beinlínis blaðinu var gefin ákveðin vísbending af minni hálfu um, að það skyldi ekki láta það henda sig að mistúlka það, sem sagt var, þá vildi ég láta þetta fram koma. Ég mun svo, þegar fyrir liggur afrit af ræðunni, gera ráðstafanir til þess, að mönnum verði síðar í þessum umr. ljóst það, sem hér hefur misfarizt hjá fréttamönnum, sem staddir eru hér með leyfi þingsins, en að vissu leyti verða þm. að bera traust til, að þeir fari ekki vísvitandi rangt með mál þeirra.