18.12.1957
Neðri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (1937)

81. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Flm. (Bjarni Benediktsson) :

Herra forseti. Það voru þrjú atriði í ræðu hæstv. menntmrh., sem ég vildi gera aths. við. Hann taldi ekki rétt hermt í grg. minni varðandi undirbúning þeirrar lagasetningar, sem hér er um að ræða. Ég tel, að þar hafi í einu og öllu verið sagt rétt frá og engin ástæða til aths.

Hann gat þess, að skipuð hefði verið viðbótarnefnd við þá, sem ég og hæstv. fyrrv. félmrh. komum okkur saman um á sínum tíma, Þetta er rétt, og þetta kom einnig fram í mínum ummælum. Hitt vil ég leiðrétta, þegar hann sagði og var raunar ósammála sjálfum sér, að ýmist sagði hann, að sú n., sem hann hefði skipað, hefði verið ópólitísk eða skipuð mönnum af öllum flokkum. Sú n. var algert einkafyrirtæki hæstv. ráðh., og þó að í henni væri einn ágætur sjálfstæðismaður, var hann ekki valinn í neinu samráði við Sjálfstfl. né taldi hann sig vera umboðsmann flokksins þar. Það er vitað mál, að þessi ágæti maður er einmitt bróðir hæstv. ráðh., og hef ég ekkert við það að athuga, að hæstv ráðh. sýni honum traust, hann á mikið traust skilið, en í þessari n. var hann sem fulltrúi bróður síns, en ekki flokksins, og hafði ekkert samráð við flokkinn. Þess vegna eru till. algerlega einkamál þeirra bræðra, en Sjálfstæðisflokknum með öllu óviðkomandi.

Ég vil svo taka fram eða vekja athygli á því, að hæstv. ráðh. sagði, að sá væri munurinn, að ef skatturinn væri lagður á kvikmyndahús, þá væri ekki verið að taka tekjur af ríkissjóði, en hins vegar væri það gert, ef skatturinn væri lagður á áfengið.

Þetta er algerlega komið undir því, hvernig skattheimtunni er fyrir komið. Ef sá háttur er hafður, sem upphaflega var gerð till. um í frv. um vísindasjóð, að lagt væri sérstakt gjald á hverja flösku áfengis, þá er þar um nýtt gjald að ræða, sem ekki á neinn hátt þarf að snerta tekjur ríkissjóðs frekar, en sérstakt gjald á hvern kvikmyndahússmiða.

Hitt má segja, að eins og ég geri till. í frv. mínu nú, þá taki það tekjur af ríkissjóði. Það er rétt. Ef hæstv. ráðh. vill heldur ná sams konar gjaldi með því að leggja skattinn beint á hverja áfengisflösku og vill vera frv. fylgjandi, sé það gert, þá er ég því fyllilega sammála. En ég vek athygli á því, að það gjald, sem ég legg til að tekið sé, nemur ekki nema litlum hluta þess, sem hæstv. núverandi fjmrh. árlega hefur vanmetið tekjurnar af áfengisverzluninni fyrir fram, annaðhvort vísvitandi eða af vanþekkingu eða dómgreindarleysi, árum saman reiknað þetta rangt, ja, ef hæstv. ráðh. veit fleiri skýringar, þá væri mjög fróðlegt að heyra þær, en ég kann ekki í fljótu bragði aðrar, en þessar þrjár.

Það er sem sagt einungis þarna verið að taka lítinn hluta af því fé, sem hæstv. fjmrh. hefur haft til ráðstöfunar utan fjárl. Það er ekki verið í raun og veru að svipta Alþingi ráðstöfunarrétti á þeim tekjum, sem áætlaðar hafa verið, þegar það er að ákveða útgjöld fjárl., heldur einungis verið að draga úr þeim mun, sem hæstv. fjmrh. hefur gert m. a. í því skyni, að því er sumir segja, að hann geti farið fram hjá ákvæðum fjárl. um bindingu útgjalda.

Að þessu leyti hygg ég, að það muni ekki verða tilfinnanlegt fyrir góð málefni, þó að þetta gjald yrði á lagt. Aðalatriðið er það, hvort menn telja, að nær sé, að gróði af áfengissölu renni til þessara þarfa og íþyngja eigi neytendum áfengisins í þessu skyni, eða hvort torvelda eigi aðsókn að kvikmyndahúsum.

Ég gat þess á dögunum, að enginn vafi væri á því, að kvikmyndirnar væru eitt af því, sem helzt drægi úr og keppti við áfengisneyzlu. Það gladdi mig mjög, að hæstv. menntmrh. virtist vera því sammála og er þess vegna ósammála tveimur hv. þm. Framsfl., sem hafa talið áfengisneyzlu eiga sérstaklega uppsprettu sína hjá þeim lærdómi, sem menn fái af því að skoða kvikmyndir, en það voru hv. 1. þm. Eyf. (BSt) og hv. þm. Barð. (SE), sem þann boðskap fluttu hér.

Hv. 1. þm. Eyf., hinn ágæti vinur vor, forseti Ed., gat þess í umr. í Sþ., að hann væri heiðursfélagi í tilteknu ungmennafélagi, og er það mjög ánægjulegt. En þá ætti hann einnig að hafa aðgang að því, sem stóð í Skinfaxa, málgagni ungmennafélaganna, ekki alls fyrir löngu og var prentað upp í öðru blaði, þar sem alveg sama skoðun kom fram á því, hvílíkt varnarmeðal kvikmyndasýningar væru gegn áfengisneyzlu, eins og ég hef hér gerzt talsmaður fyrir. Þar var tekið til orða eitthvað á þann veg, að ef unglingar færu á kvikmyndahús og eyddu þar kvöldinu, þá væru þeir úr hættu að þessu leyti, en ef þeir slæddust inn á sumar tegundir veitingahúsa, væru á rangli um göturnar, og ef þeir færu á dansleiki, þá væri voðinn vís í þessum efnum. En ef þeir sæktu kvikmyndahús eða færu á betri tegund veitingahúsa, þá væri hættan minni en ella.

Þarna er sagt á raunsæjan hátt það, sem er aðalatriði þessa máls, og þess vegna tel ég, að þeir menn séu að gera meiri skaða, en þeir í fljótu bragði gera sér grein fyrir, sem vilja íþyngja kvikmyndunum að þessu leyti, torvelda aðsókn þeirra beinlínis á kostnað kvikmyndanna, létta undir með áfengisneyzlunni, vegna þess að það er hægt og sjálfsagt að hækka verðið á áfenginu sem þessum viðbótarskatti nemur, og þá verður það þeim mun dýrara, menn eiga erfiðara með að veita sér það, í stað þess að nú verður þeim mun dýrara að fara í kvikmyndahúsin. Og það gjald er verulega tilfinnanlegt fyrir fjölskyldur, þar sem margir unglingar eru, sem alloft sækja þessar skemmtanir.

Hæstv. menntmrh. gerði mikið úr því og taldi það hafa ráðið úrslitum í þessu máli, að komið hefði í ljós, að skemmtanaskattur hér væri miklu lægri, en hann væri erlendis. Ja, ég spyr nú: Eru hundrað í hættunni, þó að einn skattur sé lægri á Íslandi, en einhvers staðar annars staðar í heiminum? Ætti það ekki einmitt að vera stolt hæstv. menntmrh. að reyna þó að halda einum skatti lægri, en þar, sem spurnir fara af þvílíkum skatti annars staðar? Eða er viðleitnin sú að keppa eftir því að slá í öllum greinum skattheimtunnar öll þau met, sem menn hafa heyrt getið um? Meiri þýðingu hefur þó, og því gera menn sér hér ekki ætíð nógu vel grein fyrir, að erlendis eru sökum aðstæðna og veðurfars miklu meiri möguleikar fyrir unglinga og raunar fullorðna líka til að eyða sínum tómstundum á heilbrigðan hátt, heldur en er hér á Íslandi. Í stórborgum erlendis eru að vísu margar hættur og margar freistingar, en þar er líka margt fagurt og gott hægt að læra og eyða sínum stundum við að kynna sér. Þar eru söfn, menntastofnanir, leikhús, hljómleikar og ýmislegt þess háttar, sem við höfum ekki að bjóða neitt í líkingu við, ekki einu sinni hér í Reykjavík, hvað þá víðs vegar úti um landið, þar sem byggð er fyrst að myndast í þéttbýli. En að þessu slepptu er veðurfar í hinum suðlægari löndum svo miklu mildara, að útivist, að leik margs konar, íþróttaástundun, gönguferðum og öðru slíku, er miklu hægari, en hér á landi, þar sem segja má, að veðurfar og birta er með þeim hætti, að menn eru nokkurn veginn — allur þorri manna — innilokaðir í húsum verulegan hluta ársins. Þess vegna er það ákaflega aðkallandi fyrir þá, sem í alvöru vilja sinna uppeldismálum þjóðarinnar, og ég efast ekki um, að hæstv. menntmrh, sé í þeim hópi, að gera sér einmitt grein fyrir þessu, að hve miklu leyti viðfangsefnið er annars eðlis hér á landi, en í útlöndum. Einmitt þess vegna eru kvikmyndirnar með öllum sínum göllum, m. a. þeim, að þær eru á öðru tungumáli en okkar, þýðingarmeiri liður í uppeldinu hér, en víðast hvar annars staðar og minni ástæða til þess að keppa við aðrar þjóðir um skattlagningu einmitt á þeim, vegna þess að hér er um svo lítið að ræða, úrvalið er svo lítið, — alveg eins og kemur fram í þessum ummælum Skinfaxa, sem ég veit að hljóta að liggja fyrir hér á lestrarsal þingsins, — úrvalið er svo lítið fyrir þann æskulýð, sem ekki hefur ákveðnu starfi að gegna í sínum tómstundum, og hættan á því, að einmitt sé leitað til þess, sem oft er auðveldast, til áfengisneyzlu, svo mikil, að við verðum að gera róttækari ráðstafanir á móti þeirri hættu hér, en víðast hvar annars staðar. Og í þeim efnum hafa kvikmyndirnar, eins og ég segi, meiri þýðingu hér, en annars staðar, þar sem ég til þekki, og því legg ég ríka áherzlu á, að þessi skattálagning verði flutt af kvikmyndunum og yfir á áfengið.