18.12.1957
Neðri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 240 í C-deild Alþingistíðinda. (1938)

81. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég hef vakið athygli á því við fyrri hluta 1. umr., að það væri á misskilningi byggt hjá hv. flm, þessa frv., sem segir í grg. þess, en þar stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Á grundvelli þessara till.“ — þ. e. a. s. till. nefndar er hann hafði skipað 24. marz 1956 — „lét ráðh. með aðstoð nýrrar n., er hann skipaði, semja þrjú lagafrv., sem lögð voru fyrir síðasta Alþ. og náðu samþykki þess. Sú lagasetning hefur nú tekið gildi undir þessum heitum: Lög um vísindasjóð, lög um menningarsjóð og menntamálaráð og lög um breyt. á lögum nr. 56 frá 30. maí 1927, um skemmtanaskatt og þjóðleikhús.“

Í n., sem ég skipaði til þess að endurskoða lög um skemmtanaskatt og til að gera till. um fjáröflun til vísindasjóðs, áttu sæti þessir menn: Friðfinnur Ólafsson, Haukur Snorrason, Vilhjálmur Þ. Gíslason, Gils Guðmundsson og Jakob Benediktsson. Verkefni n., sem fyrrv. ráðh. hafði skipað og var undir forsæti Birgis Kjarans, var eingöngu að fjalla um vísindasjóðshugmyndina og gera till. um stofnun vísindasjóðs, þ. á m. um fjáröflun til hans. Starf að því að endurskoða lög um menningarsjóð og endurskoða lög um skemmtanaskatt hlýtur því að vera algerlega óskylt hinu fyrra verkefni og reyndist það auðvitað í reynd.

N. undir forsæti Birgis Kjarans skilaði mjög ýtarlegu áliti og ágætri grg. um starfsemi vísindasjóða í nálægum löndum og um nauðsyn þess að stofna vísindasjóð hér á landi. En sú hugmynd sá engan veginn dagsins ljós með skipun þeirrar n., heldur er hún gömul, var, að því er ég man bezt, fyrst sett fram og verulega rökstudd í grein, sem einn nm. skrifaði á fyrri hluta stríðsáranna, og sú hugmynd um stofnun vísindasjóðs hafði veríð margrædd síðan, einnig á opinberum vettvangi. En þó að skýrsla n. um nauðsyn slíkrar sjóðsstofnunar og grg. um starfsemi slíkra sjóða í öðrum löndum væri ágæt, þóttu mér till. hennar um fjáröflun ekki líklegar til þess að ná fram að ganga og verða málinu til framdráttar. Aðalhugmynd n. var sú að taka ákveðinn hluta af áfengisgróðanum í þágu þessara mála. En ég endurtek það, sem ég sagði í ræðu minni við fyrri hl. umr., að þar er í raun og veru verið að vísa á ríkissjóðinn. Það tjáir ekki að halda því fram, að um nýja tekjuöflun sé að ræða, vegna þess að gera megi ráð fyrir, að útsöluverð áfengis hækki jafnmikið og hinu nýja gjaldi á hverja flösku nemur, vegna þess að hér er um almennan tekjustofn ríkisins að ræða, svo að ef út frá almennum verðpólitískum sjónarmiðum þykir fært eða rétt að hækka áfengið, þá er sá tekjuauki peningur, sem eftir venjulegum reglum á að lenda í ríkissjóði. Þess vegna var hér í raun og veru um það eitt að ræða að ávísa á ríkissjóð. Það er lítill vandi að koma fram með slíka hugmynd. Hitt er meiri vandi, að fá samþykki Alþ. á henni.

Þess vegna var það, að ég ákvað að fela hinni nefndinni, sem skipuð hafði verið til að endurskoða lög um menningarsjóð og til að endurskoða lög um skemmtanaskatt, einnig að leita nýrra leiða til tekjuöflunar fyrir menningarsjóð, en það var nefndin, sem ég gat um áðan hvernig skipuð hefði verið.

Sú nefnd athugaði ýmsar leiðir, og m. a. kynnti hún sér sérstaklega skemmtanaskattinn, hæð hans hér og hæð hans í nálægum löndum, og þegar reynslan sýndi, að ekki aðeins skemmtanaskatturinn hér var mun lægri, en í öllum nálægum löndum, heldur einnig verð aðgöngumiðanna líka lægra, en í nálægum löndum, miðað við tekjur, varð sú nefnd á einu máli um að mæla með því, að sú leið yrði farin, sem farin var.

Samsetningu þeirrar nefndar ber sérstaklega að skoða með hliðsjón af því, hvert var aðalverkefni hennar, að endurskoða gildandi lög um menningarsjóð. Í hana voru valdir tveir menn úr menntamálaráði, annar fulltrúi Sjálfstfl. þar og hinn fulltrúi Framsfl. þar. Enn fremur var valinn framkvæmdastjóri menntamálaráðs, sem er starfsháttum þar mjög kunnugur, og Jakob Benediktsson, sem er kunnur að því að hafa þekkingu og áhuga á menningarmálum. Ég skipaði síðan Friðfinn Ólafsson sem formann í nefndinni sem sérstakan fulltrúa minn. Þrír í nefndinni voru úr menntamálaráði eða úr starfsliði þess, eins og ég taldi langeðlilegast með hliðsjón af aðalverkefni nefndarinnar, sem var endurskoðun laganna um menningarsjóð. Þeim var síðan einnig falið að endurskoða lögin um skemmtanaskatt, því að á því var brýn nauðsyn, og ég taldi ekki ástæðu til að skipa sérstaka nefnd til þess, heldur taldi rétt að láta þessa menn einnig vinna það verk í samráði við þá, sem sérfróðastir voru á því sviði, þ. e. tollstjórann og deildarstjórann í menntmrn.

Þegar síðan mér sýndist þurfa að leita nýrra ráða til þess að afla nauðsynlegs fjár, ef hægt ætti að vera að koma vísindasjóði á laggirnar, þóttu mér það langeðlilegustu vinnubrögðin að beina því til þessarar nefndar, sem starfandi var, að hún fengi til athugunar álit fyrri nefndarinnar, sem starfaði undir forsæti Birgis Kjarans, og segði álit sitt um tillögur þeirrar nefndar og leitaði nýrra ráða, því að ég hafði mikinn áhuga á því, að nú færi ekki eins og gert hefur undanfarin 10 ár, að hugmyndin um vísindasjóð yrði rædd, en ekki yrði úr henni. Ég hafði mikinn áhuga á því að láta hugmyndina einmitt geta náð fram að ganga og vildi því leita ráða, sem mér þættu líkleg til þess að geta hlotið stuðning hér á hinu háa Alþ.

Það tókst. Sú nefnd varð sammála, og ég undirstrika sérstaklega þetta, — ég er búinn að skýra frá því, hvernig hún var skipuð, — að hún varð öll á einu máli um að leggja til, að sú leið væri farin, sem farin var. Að öðru leyti vann hún eins og fyrri nefndin — starf sitt með ágætum, þ. e. starfið að endurskoðun laganna um menningarsjóð og endurskoðun laganna um skemmtanaskatt. Síðara verkefnið var sérstaklega vandasamt, eins og hv. fyrrv. menntmrh. án efa kannast við. Framkvæmd þeirra laga var að ýmsu leyti í óefni. Þær undanþáguheimildir, sem smám saman höfðu verið veittar, voru í raun og veru að stefna skemmtanaskattinum sem tekjustofni í verulega hættu og þannig að vissu leyti að kippa grundvelli undan þeirri starfsemi, sem skemmtanaskatturinn hefur stutt, þ. e. starfsemi þjóðleikhússins og starfsemi félagsheimilasjóðs. Með þeirri breytingu, sem nú hefur verið gerð á skemmtanaskattslögunum, eru frekari undanþáguveitingar, en þegar hafa verið leyfðar stöðvaðar, svo að öruggt má nú telja, að þær nytsemdarstofnanir, sem njóta skemmtanaskattsins, þ. e. þjóðleikhúsið og félagsheimilasjóður, eigi að geta verið öruggar, ekki um minnkandi tekjur af skemmtanaskatti í framtíðinni, heldur vaxandi tekjur af honum.

Ég skal ekki ræða málið almennt frekar. Ég endurtek, að ég er sammála hv. þm. um það, að kvikmyndir geta haft og hafa miklu menningarhlutverki að gegna og sérstök ástæða er til að gera æskulýðnum kost á því að njóta menningarlegra kvikmynda í ríkari mæli, en nú á sér stað. Ég er honum sammála um, að það gæti án efa orðið nytsamt í hinni bráðnauðsynlegu baráttu gegn því, að unglingar leiti á náðir áfengis sér til dægrastyttingar, ef dægrastyttingu skyldi kalla.

En ég er enn sem fyrr þeirrar skoðunar, að með þeirri smávægilegu hækkun, sem vegna þessara ráðstafana varð á verði kvikmyndamiða, þ. e. um eina krónu, sé ekki með óeðlilegum hætti torveldað, að unglingar geti notið kvikmynda sér til gagns.

Í því sambandi vildi ég gjarnan geta þess, að í menntmrn. er nú til athugunar að gera allverulegar breytingar á skipulagi og starfsemi kennslukvikmyndasafnsins. Ég vona, að fyrir framhaldsþingið verði hægt að leggja nýtt frv. til laga um kvikmyndasafn ríkisins, þar sem sú merka stofnun fái aukið verkefni frá því, sem verið hefur, og vonandi einnig aukin fjárráð. Með því móti vona ég að hægt verði að stuðla að því, að kvikmyndirnar með aðstoð skólanna geri æskulýðnum meira gagn, en átt hefur sér stað hingað til.

Það kæmi einnig mjög vel til athugunar að efna til sérstakrar samvinnu kvikmyndahúsanna í landinu, sem nú eru sum í opinberri eða hálfopinberri eign og sum í einkaeign, einmitt í því skyni að afla kvikmynda til landsins, sem hafa sérstakt menningargildi, og gera þá um leið ráðstafanir til þess, að unglingar eigi að þeim greiðan og ódýran aðgang. En þar sem hér er í raun og veru um annað mál að ræða en það, sem hér er til umr., og mál, sem væntanlega kemur síðar til umr. á þessu þingi, vil ég ekki tefja tíma d. með því að fjölyrða um það.