22.04.1958
Neðri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í C-deild Alþingistíðinda. (1967)

88. mál, sauðfjárbaðanir

Frsm. (Ásgeir Bjarnason) :

Herra forseti. Í vetur, þegar 1. umr. fór fram um frv. til l. um sauðfjárbaðanir, gat ég um helztu breytingar í frv. frá núgildandi lögum, jafnframt því sem ég lýsti því, hve miklum skaða fjárkláðinn olli á sínum tíma, og því bæri að fara varlega í þessum efnum. Enn þá fyrirfinnst kláði í sauðfé, og hefur hans orðið meira vart á þessum vetri, en undanfarandi. M. a. af þeim orsökum getur landbn. ekki fallizt á að samþ. frv. óbreytt frá því, sem það var lagt fyrir þingið, og leggur n. því til, að samþ. verði þær brtt., sem eru á þskj. 388.

Fyrri till. er þess efnis, að baða skuli sauðfé árlega, en í frv. er gert ráð fyrir, að það skuli aðeins baðað annað hvert ár, og er 2. brtt. afleiðing af fyrri brtt. Vænti ég þess, að hv. þm. geti fallizt á að samþ. frv. ásamt þeim brtt., sem liggja fyrir á þskj. 388.