11.02.1958
Neðri deild: 50. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (1980)

96. mál, sala jarðarinnar Raufarhafnar

Flm. (Gísli Guðmundsson) :

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til umræðu, er flutt samkv. ósk hreppsnefndar Raufarhafnarhrepps, og efni þess er að heimila ríkisstj. að selja Raufarhafnarhreppi jörðina Raufarhöfn, sem er ríkiseign.

Það er a. m. k. eitt nýlegt fordæmi fyrir því, að ríkið hafi selt sveitarfélagi lönd, og fyrir þessu þingi liggur einnig annað frv. um heimild til slíkrar sölu.

Þetta frv. er að miklu leyti sniðið eftir lögum, sem samþykkt voru á síðasta þingi um sölu á löndum í Kópavogskaupstað, en einnig er hér höfð hliðsjón af 4. gr. laga nr. 64 1941, um jarðakaup ríkisins vegna kauptúna og sjávarþorpa.

Ég vil leyfa mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. landbn., en til þeirrar nefndar var vísað sams konar frv., sem var til umræðu nýlega.