27.02.1958
Neðri deild: 57. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í C-deild Alþingistíðinda. (1989)

101. mál, hegningarlög

Ólafur Björnsson:

Herra forseti, Mér skilst, að meginefni þeirra frv., sem hér liggja fyrir, — og skal ég að vísu játa, að það er ekki nema takmarkað, sem ég hef getað kynnt mér þau enn þá, — sé það, að því leyti sem ekki er þá eingöngu um formsbreytingu að ræða, að með þessum frv., ef að lögum verða, sé takmörkuð frá því, sem nú er, heimild dómstóla til þess að ákveða réttindasviptingu, ef menn verða sekir um brot gagnvart hegningarlögunum. Það mun t. d. vera takmörkuð heimild dómstóla til þess að svipta menn kosningarrétti til Alþ. o. s. frv. Enn fremur eru úr ýmsum lögum numin burt ákvæði um það, að óflekkað mannorð, eins og það er orðað, sé skilyrði fyrir ýmiss konar réttindum, atvinnuréttindum og öðru slíku. Eins og kemur fram í grg. fyrir því frv., sem hér er sérstaklega til umr., virðist þannig tilgangurinn, svo langt sem þetta nær, sá að milda afleiðingar refsidóms fyrir þá, sem fyrir honum verða.

Ég dreg enga dul á það, að lögfræðileg þekking mín ristir ekki djúpt, og ég ætla mér ekki þá dul að ræða þá hlið málsins hér á hv. Alþ., þar sem margir af færustu lögfræðingum landsins eiga sæti. Hins vegar snertir refsilöggjöfin, bæði hin almennu hegningarlög og önnur refsilöggjöf, fleiri en lögfræðingana, og þess vegna leyfi ég mér að koma hér fram með örlitlar athugasemdir í tilefni af því, að þessi frv. hafa verið lögð fram, og tek það fram, að þar tala ég aðeins úr hópi hinna óbreyttu borgara, sem við slíka löggjöf búa, en ekki sem sérfræðingur.

Samkvæmt þeim skilningi, sem ég við lauslega athugun hef lagt í þessi lagafrv., er tilgangur þeirra sá að milda, svo langt sem þau ná, ákvæði refsidóms. Lögfræðingar þeir, sem undirbúið hafa þessi lagafrv., vitna í það, að hér sé um að ræða þróun í sömu átt og refsilöggjöfin hafi gengið í okkar nágrannalöndum, og dreg ég ekki í efa, að það sé rétt. En það er annað atriði, sem ég vildi vekja athygli á og er tilefni til þess, að ég stend hér upp. Jafnframt því að lögð eru þannig fyrir Alþ. frv. um að milda afleiðingar þess fyrir sakborninga, að þeir eru orðnir brotlegir við hin almennu hegningarlög, þá hefur þróun löggjafarinnar á ýmsum sviðum gengið hér í gagnstæða átt, og á ég þar fyrst og fremst við hina viðtæku löggjöf um efnahagsmál, sem sett hefur verið á undanförnum áratugum. Sem dæmi má þar nefna löggjöf um verðlagsmál, húsnæðismál, gjaldeyrismál, skattamál o. s. frv. Á sviði þessarar löggjafar hefur þróunin sífellt gengið í þá átt, að það eru fleiri og fleiri verknaðir, sem eru gerðir refsiverðir, og þyngri og þyngri hegningar, sem við þeim eru lagðar. Ég nefni sem dæmi af handahófi litið frv., sem útbýtt var hér í hv. Nd. fyrir fáum dögum um breytingu á lögum um húsnæðismálastofnun o. fl.

Eins og hv. þm. er kunnugt, voru á síðasta Alþ. sett lög um skyldusparnað, Þar var að því leyti um nýmæli að ræða, að mönnum er nú ekki — eða þeim, sem þessi lög taka til — heimilt að ákveða það lengur sjálfum, hvernig þeir skipta því, sem þeir vinna sér inn, á milli þess, sem þeir nota eða eyða og spara. Við sjálfstæðismenn vorum að vísu andvígir því, að þessi leið væri farin, og töldum hana ekki líklega til að ná tilætluðum árangri og lögðum fram till. um annað, sem við töldum líklegra til árangurs til þess að afla fjár til húsnæðismálanna. Þær till. voru felldar, og er ekki ástæða til þess að rekja það nánar. En uppgötvað hefur verið, að á því að framkvæma þessi lög um skyldusparnað eru ýmsir framkvæmdaörðugleikar. Reglugerð um þessi efni var síðbúin, eins og kunnugt er, og nú er lagt fram þetta frv., þar sem m. a. í grg. er talað um nauðsyn þess að koma á ströngu eftirliti með framkvæmd skyldusparnaðar og enn fremur sagt, að til þess að framkvæma slíkt eftirlit er óhjákvæmilegt að heimila allströng viðurlög, ef út af er brugðið ákvæðum laga og reglugerðar hér að lútandi. Það er talið nauðsynlegt að setja sérstök refsiákvæði, ef menn verða brotlegir við lögin um skyldusparnað. Þessi refsiákvæði eru ákveðin í 5. gr. þessa lagafrv. Þar er nú ekki gengið lengra en það, að brot gegn lögum þessum og reglugerðum á að varða sektum allt að því 10 þús. kr. En á síðasta Alþ. voru einnig samþ. lög um svipað efni, þar sem voru lögin um bann gegn því að taka húsnæði, sem teiknað var sem íbúðarhúsnæði, eins og það var orðað, til annarra nota. Þar voru sektarákvæðin allmiklu strangari, eins og kunnugt er, eða heimilað að ákveða allt að því einnar milljón kr. sekt, sem munu vera þau ströngustu sektarákvæði, sem hér hafa þekkzt, en jafnframt sett lágmarksákvæði, þannig að sektin átti að nema a. m. k. 10 þús. kr.

Ég nefni þessi dæmi aðeins sem dæmi af handahófi. Það er á öllum öðrum sviðum slíkrar löggjafar, sem þróunin hefur gengið í sömu átt, að það eru fleiri og fleiri verknaðir, sem eru gerðir refsiverðir, og viðurlögin, ef út af er brugðið, eru stöðugt þyngd.

Það má einnig vekja athygli á því, að undirbúningur annars vegar þeirra mála, sem hér hafa verið lögð fyrir, og undirbúningur hinna ýmsu þátta efnahagslöggjafarinnar, eins og húsnæðismálalöggjafarinnar, er með töluvert ólíkum hætti. Þessi lagafrumvörp, sem hér hafa verið lögð fyrir, hafa verið undirbúin af okkar færustu sérfræðingum í refsirétti. Það eru menn eins og prófessor Ármann Snævarr, Þórður Eyjólfsson hæstaréttardómari, Jónatan Hallvarðsson hæstaréttardómari, sem hafa undirbúið þessi lög og þá auðvitað kynnt sér lagaákvæði í nágrannalöndunum og þróun löggjafar þar um svipuð efni. Hvað snertir þá margvíslegu lagasetningu, sem sett hefur verið um efnahagsmál, er undirbúningurinn með öðrum hætti. Tökum t. d. húsnæðismálalöggjöfina. Þeir menn, sem undirbúa þau frumvörp fyrir Alþ, og leggja þá m. a. fram sínar tillögur um refsiákvæði, ef menn gerast brotlegir við slík lög, eru sérfræðingar hæstv. ríkisstj. í húsnæðismálum, Hannes Pálsson, Sigurður Sigmundsson og hvað þeir nú heita. Er ekki líklegt, — ég fer ekki að leggja neitt persónulegt mat á þessa menn og hina sérfræðingana, sem undirbúið hafa hegningarlögin, enda skiptir það ekki máli, — en hvað sem því líður: Er ekki líklegt, að sjónarmið þessara manna verði ákaflega mismunandi, að það verði töluvert önnur sjónarmið, sem liggja því til grundvallar, þegar verið er að endurskoða hegningarlöggjöfina, en þau, sem liggja til grundvallar breytingum á efnahagsmálalöggjöfinni?

Það var einmitt einn af þessum sérfræðingum, sem staðið hafa að undirbúningi þessa frv., sem ég af tilviljun kom til að tala við um milljónasektarfrumvarpið, sem samþ. var hér á síðasta þingi. Hann vakti athygli mína á því, að ákvæðið um lágmarkssekt, þessa 10 þús. kr. lágmarkssekt, bryti mjög í bága við þróun refsilöggjafarinnar í öðrum löndum, enda er það náttúrlega sýnt, að refsingin, sem þannig verður ákveðin, stendur í öfugu hlutfalli við efnahag sakborninga. Fyrir auðugan mann skiptir það ekki miklu máli, þó að honum sé gert að greiða 10 þús. króna sekt, en fyrir fátæklinginn gegnir öðru máli. En dómstólarnir hafa þarna ekki neitt svigrúm eða neina heimild til þess að hafa sektina lægri en 10 þús. kr., ef menn á annað borð gerast brotlegir við þessi lög.

Það var þetta atriði, sem ég taldi ástæðu til að vekja athygli hv. þdm. á einmitt í sambandi við þau frumvörp, sem hér liggja fyrir um breyt. á hegningarlögunum og refsiákvæði í samræmi við þau, — það mikla misræmi, sem þannig er um að ræða varðandi þróun refsilöggjafarinnar, þegar um er að ræða viðurlög við afbrotum, sem þó eins og lögfræðingar orða það — almennt eru talin svívirðileg að almenningsáliti, að í þeim efnum virðist þróunin ganga stöðugt í þá átt að milda viðurlögin við slíkum afbrotum. Aftur á móti þegar um efnahagsmálalöggjöfina er að ræða, gengur þróunin í hina gagnstæðu átt, hún gengur stöðugt í þá átt að þyngja viðurlög við slíkum brotum. Er ekki hætta á því, að þetta leiði þá til þess, að hin ýmsu ákvæði refsilöggjafarinnar, ef á heildina er litið, verði í innbyrðis meira eða minna ósamræmi?

Nú er sá munur á, hvað snertir annars vegar brot gegn hegningarlögunum, að hegningarlögin eru sett í samræmi við réttarmeðvitund almennings, þannig að yfirleitt er ekki ágreiningur um það, að slík brot séu refsiverð. Allt öðru máli gegnir hins vegar um hina víðtæku efnahagslöggjöf, sem sett hefur verið á undanförnum áratugum. Hún er að meira eða minna leyti í andstæðu við réttarmeðvitund almennings.

Það er í rauninni nýmæli, að það skuli vera refsiverður verknaður að ráðstafa eigin húsnæði, t. d. á þann hátt, sem menn sjálfir óska eftir. Slíkt þekktist ekki fyrir fáum áratugum. Sama máli gegnir t. d. um verðlagslöggjöfina og ákvæði um viðurlög við brotum gegn verðlagslöggjöfinni, að það eru líka nýmæli. Sama máli gegnir um gjaldeyrislöggjöfina. Fyrir 30 árum eða svo var hverjum heimilt að kaupa og selja erlendan gjaldeyri eftir vild. Hvað skattalögin snertir er það að vísu þannig, að það hefur alllengi verið í lögum, að mönnum hefur verið skylt að telja fram til skatts, en fyrir 30–40 árum voru skattar yfirleitt það lágir, að menn töldu ekki ómaksins vert að svíkja undan skatti.

Þessi víðtæka löggjöf um efnahagsmál er þannig þess eðlis, að nærri því hver borgari í þjóðfélaginu er meira eða minna brotlegur við hana. Um það er öllum kunnugt, að svo er.

Mikil hætta er og á því, að hið mesta handahóf verði á framkvæmd slíkrar löggjafar, þannig að það verði að meira eða minna leyti komið undir skoðunum dómara og annarra embættismanna, sem um slík brot fjalla, hver viðurlögin verða. Tökum sem dæmi brot gegn ákvæðum húsaleigulöggjafarinnar um það, að menn megi ekki breyta íbúðarhúsnæði í atvinnuhúsnæði. Ef við tökum sem dæmi höfunda „gulu“ bókarinnar, þá telja þeir og þeir, sem hafa sama hugsunarhátt og þeir, að hér sé um hinn svívirðilegasta glæp að ræða og viðeigandi, að viðkomandi séu dæmdir í hina þyngstu refsingu. Aðrir líta svo á, að hér sé um að ræða ótilhlýðilega skerðingu á eignarréttinum, og hafa tilhneigingu til að taka vægt á slíkum brotum. Það hlýtur að auka enn öryggisleysið í þessum málum, að vegna þess, hvers eðlis þau eru, ræður meira eða minna handahóf, bæði í því, hverjir það verða, sem dæmdir verða fyrir brot á slíkri löggjöf, og hvernig verður á þau litið. Sú hætta er á, að sú þróun, sem hér er um að ræða, leiði svo til almenns virðingarleysis fyrir lögum og rétti í landinu.

Ég get ekki látið hjá líða einmitt í tilefni af þessum frumvörpum, sem hér eru lögð fram, að vekja athygli á þeirri þróun, sem hér hefur orðið, og því mikla misræmi í refsiákvæðum, ef litið er á löggjöfina í heild, sem hér verður um að ræða, og finnst, að hv. Alþ. geti ekki látið hjá líða að athuga þessa hlið á málinu, áður en þau frumvörp, sem hér liggja fyrir, verða endanlega afgreidd.