18.12.1957
Neðri deild: 45. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 88 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

69. mál, skemmtanaskattur og þjóðleikhús

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á síðasta þingi voru sett lög um breytingar á lögunum um skemmtanaskatt og þjóðleikhús, þess efnis, að lagt var krónugjald á ýmsar kvikmyndasýningar og dansleiki og því varið til menningarmála. Þeir embættismenn, sem framfylgja þessum lögum, hafa talið nauðsynlegt að gera frekari breytingar til skýringar á ákvæði, sem ég hygg að hafi verið ljóst öllum hv. þm., a.m.k. þeim, sem að málinu stóðu, og þess vegna er þetta frv. fram komið.

Meiri hl. menntmn., sem hefur fjallað um málið, mælir með því, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.