03.03.1958
Neðri deild: 59. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 272 í C-deild Alþingistíðinda. (2104)

139. mál, iðnlánasjóður

Flm. (Magnús Jónsson) :

Herra forseti. Ég vil leyfa mér, ef forseti hefur ekkert við það að athuga, að mæla einnig nú fyrir næsta máli á dagskránni, þar sem þessi tvö mál eru nátengd hvort öðru.

Með frv. þessum, sem annað er um breyt. á lögum um iðnlánasjóð og hitt er um breyt. á lögum um gjald af innlendum tollvörutegundum og við hv. 5. þm. Reykv. flytjum, leggjum við til annars vegar, að fjárráð iðnlánasjóðs séu mjög verulega aukin, og hins vegar, að iðnlánasjóður verði gerður að stofnlánasjóði fyrir iðnaðinn, þannig að hann veiti eingöngu stofnlán, en ekki rekstrarlán.

Ég þarf ekki hér að fara mörgum orðum um mikilvægi iðnaðarins í þjóðfélaginu, það er öllum hv. þm. kunnugt. Það er samkvæmt síðustu skýrslum, sem eru frá 1950, svo, að áætlað er, að um 21% þjóðarinnar hafi beinlínis framfæri sitt af iðnaði, en af þeim eru um 5.7%, sem hafa framfæri sitt af fiskiðnaði. Til viðbótar þessu eru svo um 10%, sem hafa framfæri sitt af byggingum, sem að verulegu leyti er líka iðnaður, þó að þar komi einnig til greina almenn verkamannavinna.

Það gefur auga leið, að iðnaðurinn, svo þýðingarmikill sem hann er í þjóðfélaginu og margþættur, hefur vitanlega eins og aðrar atvinnugreinar mikla þörf fyrir stofnlán til þess að koma sér upp nauðsynlegum húsum til starfrækslunnar og nauðsynlegum vélum, sem til viðkomandi framleiðslu þarf. Eini sjóðurinn í þjóðfélaginu, sem hefur veitt lán í þessu skyni, þegar undan er skilinn fiskiðnaður, sem fær lán úr fiskveiðasjóði, er iðnlánasjóður. Hins vegar eru fjárráð hans mjög lítil, þannig að honum hefur verið allsendis ókleift að veita nokkur viðhlítandi stofnlán til framkvæmda í iðnaðinum. Iðnlánasjóður mun hafa verið stofnaður samkvæmt lögum frá 1935, en um síðustu áramót voru eignir hans ekki nema um 6½ millj. kr., og það gefur vitanlega auga leið, að með slíkum fjárráðum er ekki hægt að sinna nema mjög smávægilegum lánbeiðnum, þannig að öll meiri háttar uppbygging iðnaðarins verður að fara fram eftir öðrum leiðum.

Stærstu iðnfyrirtæki hérlendis, svo sem sementsverksmiðja og áburðarverksmiðja, hafa verið reist með erlendum lánum, enda er að sjálfsögðu ekki, þó að iðnlánasjóður yrði efldur svo sem við gerum ráð fyrir í frv. okkar, möguleiki til þess, að hann geti staðið undir slíkum stórframkvæmdum í iðnaði. Yrði hins vegar horfið að því ráði að efla iðnlánasjóð, svo sem við leggjum til, ætti honum smám saman að geta orðið kleift að veita iðnaðinum mjög verulega aðstoð til uppbyggingar allra almennra iðnfyrirtækja.

Við leggjum til, að helmingur af gjaldi af innlendum tollvörutegundum renni í iðnlánasjóð, en þetta mundu verða 5–6 millj. kr. á ári, miðað við það gjald eins og það er nú.

Við teljum, að það sé í alla staði eðlilegt, að iðnaðurinn njóti a. m. k. hluta þessa gjalds. Raunar má segja, að hann ætti að njóta þess að öllu leyti, en þar sem hér er um verulegan tekjustofn að ræða fyrir ríkissjóð, höfum við á þessu stigi málsins a. m. k. ekki talið fært að ganga lengra, en taka helming gjaldsins. Öllum hv. þm. er kunnugt, að fiskveiðasjóður hefur fyrst og fremst verið byggður upp af gjaldi, sem framleiðendur fiskafurða hafa sjálfir greitt til sjóðsins með sérstöku álagi. Það, sem við leggjum hér til að gert verði varðandi iðnaðinn, er því hliðstætt, enda þótt að vísu þetta gjald sé ekki tekið nema af sumum framleiðsluvörum íslenzks iðnaðar.

Eftir að Iðnaðarbankinn kom til sögunnar, hefur horfið nauðsynin á því, að iðnlánasjóður veiti rekstrarlán, enda í rauninni ófært, að sjóðurinn geri það, þegar hann hefur jafnlítil fjárráð og raun ber vitni um. Og enda þótt hann yrði efldur eins og við gerum ráð fyrir, væri það þó ástæðulaust, að sjóðurinn sinnti slíkri rekstrarlánastarfsemi, þar sem hliðstæðir sjóðir gera það ekki.

Frá hálfu samtaka bæði iðnaðarmanna og iðnrekenda hafa hvað eftir annað komið fram óskir um það, að komið yrði upp byggingarlánasjóði fyrir iðnaðinn, sem gerði kleifa þá uppbyggingu hans, sem nauðsynleg er, því að það mun öllum landsmönnum vera ljóst, að það þarf að leggja ríka áherslu á að efla sem mest í þjóðfélaginu allan þjóðhagslega heilbrigðan iðnað, því að ef við eigum að verða þess umkomnir að leggja varanlegan grundvöll að traustu efnahagskerfi, verður ekki fram hjá því gengið, að iðnaðurinn hefur þar mjög mikilvæga þýðingu, og það er raunar svo, að bæði um landbúnað og sjávarútveg er það að segja, að á slíkum atvinnuvegum er erfitt að byggja, þannig að frá ári til árs getur orðið — vegna ýmiss konar örðugleika stafandi frá árferði — mjög mismunandi framleiðsla þessara atvinnuvega. En um iðnaðinn er það að segja, að það eru miklu meiri möguleikar á því að hafa þar ráð á, hversu sú þróun verður og hversu mikilli framleiðslu má gera ráð fyrir á hverju ári.

Það er því undirstöðuatriði fyrir hvert þjóðfélag, sem vill byggja upp traust atvinnulíf, traust efnahagskerfi, að hafa þroskaðan iðnað.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þessi frumvörp. Þau lágu hér bæði fyrir á síðasta Alþingi, en urðu þá ekki útrædd. Eins og ég áðan gat um, grípa málin svo mjög hvort inn í annað, að það er í rauninni ekki auðið annað, en taka þau til meðferðar í sömu nefnd, því að við óskum að sjálfsögðu ekki eftir því, að frv. til laga um iðnlánasjóð verði afgreitt, eins og það hljóðar hér, nema því aðeins að frv. um gjaldið af innlendum tollvörutegundum fái samtímis afgreiðslu, þar sem það frv. leggur undirstöðuna að fjárráðum sjóðsins.

Það mun vera skylt að vísa til fjhn. því frv., þar sem um er að ræða breytingu á ákvæðum laga, sem varða tekjuöflun ríkissjóðs, og sé ég því ekki annað fært, en leggja til við hæstv. forseta, að þessu frv., sem hér um ræðir undir þessum dagskrárlið, um breytingu laga um iðnlánasjóð, verði einnig vísað til þeirrar hv. nefndar. Og til þess að ég þurfi ekki aftur að tala um seinna málið, þar sem ég í rauninni hef gert það að nægilegu umtalsefni, leyfist mér kannske um leið að gera till. um, að því frv. verði einnig vísað til hv. fjhn.