09.12.1957
Efri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í B-deild Alþingistíðinda. (211)

73. mál, kosningar til Alþingis

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Vegna forfalla hæstv. dómsmrh. vil ég fylgja þessu frv. úr hlaði með fáeinum orðum fyrir hönd ríkisstj., sem stendur að þessu máli.

Eins og menn vita, eru tvenn kosningalög, um sveitarstjórnarkosningar annars vegar og alþingiskosningar á hinn bóginn. Helztu ákvæðin eru í lögunum um kosningar til Alþingis, en mjög víða er svo til þeirra vísað í lögum um kosningar til sveitarstjórna. Þessi lög um kosningar til Alþingis eru frá 1942, og voru þá sett mörg nýmæli í lög um þetta efni. Nú má teljast eðlilegt, að endurskoða þurfi löggjöf eins og þessa af og til, enda hefur reynslan leitt í ljós ýmsa agnúa á þessum lögum, sem full ástæða væri til þess að sníða af þeim.

Árið 1955 var sett n. til þess að íhuga kosningalögin, og sú n. hefur ekki lokið störfum. En frv. það, sem hér liggur fyrir, miðar að því að fá breytt nokkrum ákvæðum kosningalaganna, sem mönnum virðist reynsla undanfarinna ára bendi ótvírætt til að eðlilegt væri að lagfæra. Þykir þá ekki ástæða til þess, að lagfæring þeirra atriða bíði eftir því, að álit komi um endurskoðun kosningalaganna í heild, — en hitt eðlilegra, að setja nú í lög þessar breytingar. Það skal tekið fram, að þær breytingar, sem hér eru ráðgerðar og stílaðar eru við lögin um kosningar til Alþingis, mundu einnig gilda um kosningar til bæjar- og sveitarstjórna, og þykir mönnum eðlilegt einmitt, að þetta frv. gæti fengið afgreiðslu nú, til þess að þessar endurbætur á kosningatilhöguninni gætu komið til framkvæmda í þeim bæjarstjórnarkosningum, sem eiga nú bráðlega að fara fram.

Ég skal þá víkja að þessum breytingum. Þær eru ekki mjög viðtækar, og það er um mjög fá atriði að ræða, og þau eru þannig vaxin, að hv. alþm. eiga áreiðanlega mjög létt með að átta sig á því, sem upp á er stungið, og taka afstöðu til þess.

Það er þá fyrst, að gert er ráð fyrir að setja það inn í lögin, að sá, sem greiðir atkv. utan kjörfundar fyrir fram, greini það, svo greinilega sem honum er unnt, hvar hann muni verða staddur á kjördegi, og færi ástæður fyrir því, að hann vill greiða atkv. fyrir fram, og að þessar ástæður skuli færðar til bókar. Þetta virðist alveg eðlilegt til þess að auðvelda eftirlit með, að ekki sé misnotaður réttur manna til þess að greiða atkv. fyrir fram, ef þeir gera ráð fyrir að verða staddir fjarri heimili sínu á kjördegi. En eins og mönnum er kunnugt, þá er það þannig, að atkv. manns, sem hefur neytt atkvæðisréttar síns fyrir fram, er ógilt, ef sannast, að hann sé staddur innan þess hrepps eða kaupstaðar, þar sem hann stendur á kjörskrá, þegar kosning fer fram. Það þykir alveg eðlilegt að lögleiða þetta til þess að reyna að stuðla að þeirri framkvæmd þessa lagaákvæðis, sem löggjafinn hefur ætlazt til, sem sé að fyrirframkosningar eigi sér ekki stað, nema menn ætli raunverulega að vera fjarri heimili sínu á kjördag og þurfi þess.

Þá er næst, að í lögunum, eins og þau eru núna, eru skýr ákvæði um, hvenær kjörfundir skuli hefjast. En í framkvæmdinni hefur það orðið mjög óljóst, hvenær kjörfundir skuli enda. Hefur það í framkvæmdinni orðið þannig, að sums staðar hafa kjörfundir náð fram á nótt og kosningum því í raun og veru alls ekki verið lokið sjálfan kjördaginn. Þetta er mjög óviðkunnanlegt og með öllu ástæðulaust, og geri ég ráð fyrir því, að það hljóti að vera fullt samkomulag um að breyta þessu, því að það er vitaskuld vorkunnarlaust að ljúka öllum þessum kosningum sjálfan kjördaginn. Það er ekki ástæða til þess að fara mörgum orðum um þessa sjálfsögðu breytingu, en aðeins vil ég taka það fram, að það hefur orðið villa við undirbúning málsins á síðasta stigi þess, og hún er í því fólgin, að till. ríkisstj. er sú, að lokað verði kjörfundinum kl. 23, en það stendur 22 í frv. Þessi villa hefur orðið í málinu, og fer stjórnin fram á, að hv. nefnd, sem tekur þetta mál til meðferðar, taki þessa breytingu upp frá henni eða þá að stjórnin mun sjálf flytja brtt. um þetta. Þetta bið ég hv. þingdeildarmenn að taka strax til íhugunar.

Þá er, að það hefur mjög mikið verið að því gert, að umboðsmenn frá flokkum og listum hafa setið á kjörfundunum, eins og sjálfsagt er, til þess að fylgjast með kosningunni, og þá hefur þessum umboðsmönnum verið falið að skrifa niður, hverjir neyta kosningarréttar síns. Hafa svo þessar upplýsingar verið notaðar til þess að fylgjast ýtarlega með því, hverjir hafa greitt atkv. og hverjir ekki, og þá til þess að ýta á það með öllu móti, að þeir greiði atkv., sem ekki hafa neytt kosningarréttar síns.

Mönnum sýnist það vera alveg óeðlilegt og það stuðli ekki að neinu lýðræðislegra sniði á kosningunum, að þetta sé haft á þessa lund, og því er lagt til hér, að það sé ekki heimilt að skrifa á kjörfundinum sjálfum, hverjir greiða atkv., og eru um þetta ákvæði í 3. gr. þessa frv.

Þá er nýmæli um meðferð kjörskránna, eftir að kosningu lýkur, og á það að vera til þess að tryggja, að það sé ekki hægt eftir á að grúska í kjörskránum til þess að skoða, hverjir hafi setið heima og ekki neytt atkvæðisréttar síns, því að það sýnist engin ástæða til þess, að slíkt sé mögulegt, ef hægt er að fyrirbyggja það, þar sem það á að vera einkamál manna, hvort þeir kjósa eða ekki.

Í núgildandi kosningalögum eru talsverð ákvæði um það, hvað teljast skuli óleyfilegur kosningaáróður. Þeim, sem standa að þessu frv., sýnast þessi ákvæði þurfa að vera nokkru fyllri , en þau eru núna og að sett væru ný ákvæði, sem miðuðu að því að friða sem mest sjálfan kjördaginn fyrir áróðri eða takmarka hann á þær lundir, sem tiltækilegt þykir. En það, sem hér er stungið upp á í þessa stefnu, er að setja það í lög, að áróður á sjálfan kjördaginn á kjörstaðnum og í næsta nágrenni kjörstaðarins sé óleyfilegur, þannig að bannað sé að hafa uppi flokksmerki t.d. á kjörstaðnum og áróður þar eða í næstu húsum og næsta nágrenni. Þetta vænti ég að menn geti sameinazt um.

Loks er svo ákvæði um, að banna skuli allar merkingar á bílum eftir flokkum og listum á sjálfan kjördaginn og notkun gjallarhorna í áróðursskyni. Þetta sýnist líka vera algerlega eðlilegt ákvæði. Það er ákaflega hvimleitt, að fólk dragist í dilka við flutninga til kjörstaðarins og allt sé fullt af bifreiðum með flokksmerkjum á sjálfan kjördaginn, en á allan hátt miklu virðulegra og eðlilegra, að þessu sé hætt og menn starfi að þessum málum án þess að hafa svo mikinn áróðursblæ sem er á öllum þessum bílamerkingum og því, sem í sambandi við það stendur, Enn fremur sýnist vera sjálfsagt að banna áróður í gjallarhorn og önnur slík tæki á sjálfan kjördaginn.

Allt er þetta, sem hér er stungið upp á í þessa átt, aðeins miðað við sjálfan kjördaginn, til þess að kosningarnar geti farið virðulegar fram, en mögulegt er með þeim hætti, sem nú er á hafður.

Loks eru svo ákvæði, sem fela í sér hækkun sekta fyrir brot á kosningalögunum, og það er í samræmi við breyttar ástæður, síðan þau voru sett.

Ég vil svo leggja til, að þessu máli verði vísað til hv. allshn. að lokinni þessari 1. umr.