06.03.1958
Neðri deild: 61. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (2112)

142. mál, skipakaup

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson) :

Herra forseti. Í grg. þessa máls er nokkuð rakin í örfáum dráttum forsaga málsins. Ég skal nú leitast við að rekja það nokkru nánar, þótt ég geri ráð fyrir, að flestir hv. þm. séu því eitthvað kunnugir og því óhætt að fara fljótt yfir sögu.

Frá því að togveiðar hófust hér fyrir alvöru, hafa skipin, veiðarfærin og aðferðin sjálf við veiðarnar tiltölulega lítið breytzt, að öðru leyti en því, að skipin hafa verið stækkuð og fengið aflmeiri vélar. Jafnframt því hefur varpan verið stækkuð og vírarnir lengdir.

Þessar breytingar valda því, að skipin eru nú afkastameiri, ef fiskigengd er jöfn, auk þess sem þau geta togað á meira dýpi en áður var, en aðferðin, gerð vörpunnar og skipanna, er að mestu hin sama. Þó varð sú breyting á hjá okkur Íslendingum, þegar nýsköpunarskipin svonefndu voru keypt, auk þess sem áður er getið um stærðina, að vélar nokkurra þeirra eru nú dieselvélar í stað gufuvéla, eins og áður var, en gufuvélarnar í þeim allar olíukyntar, í stað þess að áður voru þær allar kolakyntar. Þegar þau skip voru keypt, var svo óalgengt að hafa dieselvélar þannig, þótt allir séu víst sammála nú um, að það væri heppilegra, en þegar skipin voru keypt, vildu flestir kaupendanna heldur gufuskipin. Hjá sumum réð það sjónarmið að vísu, að dieselskipin komu seinna, en gufuskipin, en þörfin var sums staðar orðin svo brýn fyrir skipin af atvinnuástæðum, að kaupendur töldu ekki verjandi að bíða eftir seinni skipunum.

Það mun alllangt síðan því var hreyft hér á landi, að byggja ætti tveggja þilfara togara, þar sem varpan og fiskurinn væru tekin inn yfir skut, en ekki á síðu skipsins, eins og verið hefur.

Ég hygg, að Andrés Gunnarsson vélstjóri hafi fyrstur hreyft þessu máli 1945 eða 1946. Hann smíðaði líkan af slíku skipi og reyndi að koma því til leiðar, að slíkt skip yrði byggt. Til þess fékkst þó ekki sá stuðningur, sem þurft hefði, hvorki hér né í Englandi, en þar mun hann einnig hafa reynt að koma málinu á framfæri.

Næst fréttist svo það, að enskt fyrirtæki fær tundurspilli og lætur breyta honum og hefja á honum togveiðar, en taka vörpuna með aflanum í inn yfir skutinn. Sú tilraun gafst svo vel, að fyrirtækið hefur síðan látið byggja stórt verksmiðjuskip með svipuðu lagi. Þá er vitað, að Rússar hafa látið byggja nokkur slík skip. Og nú á s.l. ári hafa Vestur-Þjóðverjar látið byggja þrjú slík skip. Ensku og rússnesku skipin eru verksmiðjuskip, gerð til veiða á fjarlægum miðum og miðuð við, að þau geti verið lengi í veiðiferð. Þýzku togararnir eru minni, eða af svipaðri stærð og stærstu togarar okkar, og ef rétt er frá greint í tímaritum þeirra, er verðið svipað og á nýjustu togurum okkar. Þeir eru að hálfu verksmiðjuskip. Það er gert ráð fyrir, að þegar sótt er á fjarlæg mið, sé í upphafi veiðiferðar unnið úr aflanum um borð, einkum ef afli er tregur, en síðari hluta veiðiferðarinnar er skipið fyllt af ísuðum fiski á venjulegan hátt. Þjóðverjar hafa um leið reynt nýjungar í véla- og skrúfuútbúnaði, sem þó eru meira aukaatriði að sinni, nema það, að á einu skipinu er skiptiskrúfa. Það er vafalaust hentugt fyrir skip, sem þurfa ýmist að toga eða sigla langan veg, en hefur áður verið notað á togurum, sem byggðir voru fyrir Norðmenn í Þýzkalandi.

Þá skal ég leitast við að gera lauslega grein fyrir þeim mun, sem er á togurum af venjulegri gerð og þessum nýju skipum.

Venjulegur togari hefur eitt þilfar. Á því er togvindan, og inn á það er varpan og aflinn tekinn. Þar fer einnig fram öll vinna við fiskinn, þar til hann er tilbúinn til að leggjast í salt eða ís í lest skipsins. Einnig fer þar fram aðgerð á vörpunni, ef með þarf.

Þarna eru menn að vinnu lítt varðir fyrir sjó og veðrum, á meðan varpan er tekin, og auk þess liggja togvírarnir fram og aftur um þilfarið, en á vírunum er talið að sé 10–15 tonna átak, en meira, ef festur koma fyrir, og hefur þá iðulega komið fyrir, að togvírarnir hafa slitnað og verið hætt við slysum og stundum orðið slys að. Meðan varpan er tekin, liggur skipið flatt fyrir sjó og vindi.

Á nýju gerðinni eru þilförin tvö. Á efra þilfari er togvindan, og inn á það er varpan dregin með aflanum í. Síðan er aflanum hleypt úr henni niður um op aftast á efra þilfari niður á neðra þilfar. Vírarnir liggja beint frá togvindu í gálgana. Þegar varpan er dregin inn, eru mennirnir, sem að því vinna, á efra þilfari, allhátt yfir sjó, auk þess sem skipinu er haldið upp í á meðan.

Öll vinnan við aflann fer fram undir þiljum, og færibönd eru notuð til að létta vinnuna líkt og í verksmiðju í landi.

Vegna þess að ekki er geymdur fiskur eða unnið að honum á efra þilfari, verður þar góð aðstaða til aðgerða á vörpunni, ef með þarf.

Þótt þessar lýsingar séu mjög ófullkomnar, vona ég, að af þeim sé ljóst, hvað aðstaða öll til vinnu er betri á nýju gerðinni, og alveg vafalaust, að slysahætta er verulega minni.

Að sögn skipverja, sem reynt hafa báðar gerðirnar, er mikill munur á, hve skemmri tími fer í að taka inn vörpuna og aflann á nýju skipunum, og ætti því tíminn, sem þau hafa veiðarfærin í sjó, að lengjast að öðru jöfnu. Auk þess segja þeir, að auðvelt sé og hættulaust að toga, þótt veðrið sé mun verra, en unnt er að gera með skipum af gamla laginu.

Þetta eru aðalatriðin og ástæðurnar til, að sjálfsagt er fyrir okkur að fá þessa nýju gerð togara. Ýmsar aðrar nýjungar skipta minna máli, en auðvelda þó stjórn skipsins og auka nýtni þess, eins og t. d. skipsskrúfan og sjálfstýring, svo að eitthvað sé nefnt.

Það er enginn vafi á því, að sérstaklega er heppilegt að ákveða þetta nú, áður en gengið er frá samningum um smíði þeirra 15 togara, sem ákveðið hefur verið að fá til landsins, og það er einmitt mikilsvert, að það verði a. m. k. tvö af fyrstu fjórum skipunum, sem við fáum, með þessu lagi, því að eftir þeim upplýsingum, sem fengizt hafa, er ekki búizt við, að fleiri skip fáist á ári en 4–5, og væri sjálfsagt, að við áskildum okkur rétt til að fá öll síðari skipin af nýju gerðinni, ef við óskum og segjum til um það með hæfilegum fyrirvara.

Ég er ekki í vafa um, að þeir, sem kynnast og reyna nýju gerðina, vilja ekki síðar eldri gerðina. Það segja líka, eins og ég sagði áðan, skipverjar, sem reynt hafa nýju skipin.

Hitt er aftur á móti ekki víst, að við teljum okkur henta að hafa útbúnað að öllu eins til vinnslu aflans og aðrar þjóðir hafa gert. Við stöndum þar allt öðruvísi að vígi, erum nær fiskimiðunum og eigum nægar verksmiðjur til að vinna aflann í landi. Sá útbúnaður fer eftir því, sem væntanlegir eigendur kynnu að óska og um semst, enda auðvelt að breyta því eða bæta úr síðar, ef henta þykir.

Ég vil leyfa mér að óska eftir, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.