06.03.1958
Neðri deild: 61. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (2113)

142. mál, skipakaup

Gunnlaugur Þórðarson:

Herra forseti. Mál það, er hv. þm. Ísaf. hefur hér hreyft, er mjög athyglisvert, og var skilmerkilega gerð grein fyrir því hér í ræðu hv. þm. Ísaf. Ég vil aðeins bæta því við, þar eð því hefur verið haldið fram af ýmsum, að fiskurinn verði verri, þegar með aflann er farið eins og gert er á þessum nýju togurum, þ. e. a. s. hann er ekki hífður inn, heldur dreginn inn, að þeir, sem hafa reynslu af þessu, segja, að fiskurinn sé engu lakari, nema síður sé, í þeim skipum, sem draga vörpuna inn yfir skutinn. Ég vil eindregið styðja tillögu þá, sem hér er komin fram.