09.12.1957
Efri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

73. mál, kosningar til Alþingis

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Alþingi hefur nú setið að sinni um tveggja mánaða skeið, og ég held, að það sé sannmæli, að bæði þingheimur og alþjóð hafi beðið með nokkurri óþreyju eftir því, að eitthvað kæmi af stórum og merkum málum frá hæstv. ríkisstj. En hingað til hefur lítið á því bólað, og elztu þingmenn hér segjast ekki minnast þess, að slík málefnafátækt og úrræðaleysi hafi fyrr verið á þingi frá hendi ríkisstjórnar, enda hefur það verið svo hér dag eftir dag í deildum þingsins, að málefni hafa vart verið til frá stjórnarinnar hendi eða meiri hlutans, og hafa forsetar haft nokkrar áhyggjur af því stundum. En a.m.k. mun það réttur og almennur dómur, að mjög hafi skort á alla forustu frá hendi ríkisstj. þessa tvo mánuði og algert úrræðaleysi um öll hin meiriháttar mál. Það er þá helzt nú fyrir helgina, að svolítið heyrðist frá stjórninni, þar sem hún kunngerði það öllum landslýð, að í því máli, sem hún hefur talið sitt stærsta mál, sé hún gersamlega klofin og tveir stjórnarflokkanna telji það næstum því landráð meira að segja að ræða um það stefnuskrármál þeirra, að varnarliðið skuli fara úr landi, en einn stjórnarflokkurinn telur nauðsyn, að það fari sem allra fyrst.

En nú virðist sem hæstv. ríkisstj. hafi loksins fundið sitt stóra mál, og hún virðist hafa orðið sammála um það að leggja þetta mikla frv. um breytingar á kosningalögum fyrir Alþingi nú, og svo mikið þykir liggja við, að það er tekið á dagskrá hér með afbrigðum til 1. umr., án þess að þdm. hafi átt þess nokkurn kost einu sinni að lesa frv, yfir áður, því að því er útbýtt á þessum sama fundi.

Nú skyldi maður ætla, að hér væri um mjög stórt og merkilegt mál að ræða, sem markaði þá stórt spor í stjórnmálasögu landsins. En það er margt, sem kemur manni nokkuð undarlega fyrir sjónir, og skal ég aðeins drepa á örfá atriði þess.

Fyrst er þess að geta, að 13. apríl árið 1954 var samþ. þál. í Sþ. um að kjósa 7 manna nefnd til þess að endurskoða lög um kosningar til Alþingis og lög um sveitarstjórnarkosningar. Þessi nefnd var svo kosin þá rétt á eftir, 7 manna nefnd, og hefur hún því setið að störfum nú í tæp fjögur ár. Menn skyldu því ætla að, að því færi að draga, að hún skilaði áliti og tillögum um endurskoðun kosningalaganna. En mér vitanlega hefur ekkert heyrzt frá nefndinni enn þá. Ég vil taka það fram, að það er fleira mishermt eða rangt í þessu frv. heldur en það, sem hæstv. fjmrh. gat um, því að í grg. segir, að árið 1955 hafi verið kosin n. á Alþingi, en það var árið 1954.

En hvernig stendur nú á því, að ekki er þá beðið eftir tillögum þessarar mþn., sem Framsfl. hefur formennsku í? Hvers vegna er ekki beðið eftir því, að hún skili þá heildartillögum eða einhverjum einstökum till. í þessu máli? Einhverjar sérstakar ástæður hljóta að liggja til þess, að stjórninni þykir svo mikið við liggja, að hún vaknar nú svo skyndilega af því værðarmóki, sem yfir henni hefur verið þessa tvo mánuði þingsins, og telur nú líf liggja við, að kosningalögunum sé breytt. Hæstv. ríkisstj. á kannske eftir að skýra, hvernig á því stendur, að þessar tilteknu breytingar eru svo ákaflega aðkallandi.

Að vísu var búizt við því, að eftir vafalaust margra vikna þóf innan ríkisstj, og stjórnarflokka væri hér lögð til ein meiri háttar breyting, þ.e.a.s. heimild fyrir flokka, sem ekki geta komið sér saman um annað, en að lýsa því yfir, að þeir ætli að vinna saman eftir kosningar, að atkvæði þeirra skuli reiknuð sem eitt. En jafnvel um það hafa þeir ekki getað orðið sammála, a.m.k. bólar ekkert á því í þessu frv. Í samningatilraunum stjórnarflokkanna að undanförnu mun það hafa verið eitt aðalatriðið að koma á slíkum kosningabandalögum. En á það er sem sagt ekki minnzt í frv.

Eitt aðalatriði þessa máls mun vafalaust vera það að lögbjóða, að kjörfundi skuli slíta og loka kjörstað kl. 22 á kjördag. Nú kemur það að vísu fram í framsöguræðu hæstv. ráðh., að þetta sé allt saman misskilningur, það hafi alls ekki verið meiningin að loka kjörfundi kl. 22. heldur kl. 23, og má vera, að fleira sé missagt í þessum fræðum, sem kemur þá fram síðar við meðferð n. eða í meðferð þingsins.

Nú vil ég taka fram, að ég er einn þeirra, sem telja algerlega ástæðulaust, að kjörfundi sé haldið áfram fram eftir nóttu, og tel eðlilegast og í rauninni eðlilegastur skilningur á núgildandi kosningalögum, að kjörfundi sé slitið á miðnætti, þegar kjördagur er liðinn.

Ég hefði talið mjög eðlilegt, ef talinn hefur verið vafi á því, hvernig ætti að skilja kosningalögin að þessu leyti, að því yrði alveg slegið föstu og það gert skýrt, að kjörfundi skuli ljúka, þegar kjördagur er á enda, þ.e.a.s. kl. 24 á miðnætti.

Rökin fyrir hinu fæ ég ekki fullkomlega skilið, hvers vegna það á að vera nauðsynlegt að ljúka kjörfundi kl. 23 eða kl. 22, eins og upphaflega hefur verið í frv. En þetta virðist vera mikið áhugamál einhverra aðila, og fást væntanlega í meðförum málsins skýringar á því, hvað þar liggur sérstaklega á bak við.

Önnur ákvæði í þessu frv. eru í fyrsta lagi það, eins og segir í 3. gr., að það er óheimilt að skrifa hjá sér, hverjir greiða atkvæði eða hverjir greiða ekki atkvæði. Ég verð að segja, að mér finnst þetta nú harla — ef ég má nota það orð — „ójúridiskt“ orðalag, og veit nú ekki almennilega, hvernig á að túlka það í framkvæmd, þegar farið yrði að kæra mann til refsingar, ef hann hefði leyft sér að skrifa hjá sér nafn einhvers manns, sem væri búinn að kjósa. Þetta er orðað svo almennt: Óheimilt er að skrifa hjá sér, hverjir greiða atkvæði eða hverjir greiða ekki atkvæði, — og eru lagðar refsingar við og þær þyngdar stórum frá þeim refsiramma, sem er í gildandi lögum. Líklega mun nú hugsunin, sem er á bak við þetta, vera sú, að óheimilt sé umboðsmönnum listanna eða frambjóðendum að skrifa niður á kjörfundinum sjálfum, hverjir kjósa, en ákaflega er orðalagið allt saman óljóst og sýnir, að mjög hefur verið kastað höndum til samningar þessa frv.

Enn fremur segir í 8. gr. frv., að það varði refsingu allt að 4 þús. kr., ef maður safnar saman upplýsingum eða gefur öðrum upplýsingar um það, hverjir hafi kosið á kjördegi. Það er sem sagt orðið refsivert, ef einn maður, sem veit til þess, að annar hafi kosið, skýrir þriðja manni frá því. Vafalaust vakir þetta ekki fyrir hæstv. ríkisstj., en þannig er frv. samið, að ef það yrði samþ. eins og það liggur fyrir, má enginn maður skýra öðrum manni frá því skriflega né munnlega, hvort þessi eða hinn sé búinn að neyta atkvæðisréttar síns, að viðlögðum háum sektum.

Ef sú hugsun er á bak við þetta allt saman, sem ég býst við að sé, þá er a.m.k. nauðsynlegt að gera gagngera breytingu á orðalagi þessara greina beggja, 3. og 8. gr.

Þriðja atriðið, sem virðist lögð á áherzla í þessu, er sú að banna að hafa flokksmerki, merki lista eða önnur auðkenni á sjálfum kjörstaðnum, og mun tilgangur vera sá, eins og segir í grg., að halda sem mestum friði um kjördaginn, — hvernig sem hæstv, ríkisstj. tekst að tryggja það í framkvæmd að öðru leyti að halda miklum friði í sambandi við kosningar og kjördag, — en það má vel vera, að þetta yrði til einhverra bóta, að flokksmerki og merki lista yrðu ekki sérstaklega höfð á sjálfum kjörstaðnum, og sé ég ekki, að það sé neitt við það út af fyrir sig að athuga.

Þá er enn fremur bannað að hafa flokksmerki, merki lista eða önnur auðkenni á bifreiðum, meðan kjörfundur stendur yfir. Það er harla einkennilegt ákvæði, að á kjördag má í því kjördæmi ekki hafa nein auðkenni á bifreiðum. Hvað þýðir þetta? Ég býst við, að hugsunin, ef einhver hugsun er á annað borð á bak við þetta, sé sú, að flokksmerki og merki lista eigi ekki að hafa þar. En að gefa almennt bann að viðlagðri refsingu við því að hafa bara nokkurt auðkenni á bíl á kjördag, — ja, strangt tekið ætti líklega að framkvæma það þannig, að það yrði að taka númerin af bílunum og annað það, sem kynni að auðkenna bifreiðarnar.

Ég bendi á þessi atriði m.a. til þess að sýna, hversu feikilega er kastað höndum til samningar þessa frv., og það er alls ekki sæmandi einni ríkisstj. að leggja svona hrákasmíð fyrir Alþingi.

Nú skulum við segja, að það væri aðaltilgangur þessa frv. að friða kjördaginn, eins og hæstv. ríkisstj. kallar það, og vernda kjósendur og þá leynd og frið, sem á að vera um kosningarréttinn, eins og segir í grg. Hvers vegna er þá ekki skrefið stigið lengra og beinlínis ákveðið með lögum að banna alla bílanotkun og alla smölun á kjördag? Það er ekki gert með þessu. En það væri þó vissulega nokkuð róttækt skref, sem mundi miða eitthvað í áttina til að friða kjörstaðina. Ég sé ekki í frv., að í þá átt sé gengið. En ef ákvæði þessa frv., sérstaklega um það að banna umboðsmönnum listanna að skrifa, hverjir neyta kosningarréttar síns, eru hugsuð þannig, að það eigi að skapa mönnum meiri frið og koma í veg fyrir kosningasmölun svokallaða, þá held ég, að þetta sé algerður misskilningur. Ég held einmitt, að þetta mundi verka öfugt.

Nú mun það vera þannig og hefur verið um langan aldur hjá öllum stjórnmálaflokkum, að þeir hafa reynt eftir föngum að fylgjast með því jafnóðum, hverjir neyta atkvæðisréttar síns, og þegar liður á kjördaginn, munu kosningaskrifstofur allra flokka gera einhverjar ráðstafanir til þess að reyna að fá þá fylgjendur sína á kjörstað, sem ekki hafa neytt atkvæðisréttar síns. Þannig hefur það nú verið í áratugi.

Ef bannað er að fylgjast með því, hverjir eru búnir að kjósa, skilst mér, að afleiðingin hljóti að verða sú, að kjósendur verða fyrir miklu meira ónæði, vegna þess að þessar kosningaskrifstofur hafa þá ekki hugmynd um, hverjir eru búnir að kjósa, og senda þá vafalaust sína fulltrúa eða kosningasmala eða hverju nafni menn vilja kalla þessa starfsmenn eða fyrirgreiðslumenn til hinna og þessara og í mörg hús, þar sem búið er að kjósa. Ég held þess vegna, að hér sé um algera hugsanavillu að ræða; ef tilgangurinn er sá að losa bæði hús og heimili og kjósendur við þetta ónæði, sem stafar af hinum svokölluðu kosningasmölum, þá muni þetta verka alveg öfugt.

Ég vildi nú strax við þessa umr. benda á þessi atriði málsins, en að sjálfsögðu verða þau og önnur athuguð nánar í þeirri n., sem fjallar um það, og þá við síðari umr, málsins. En ég vil endurtaka það, að ég tel það mjög eðlilega breytingu á framkvæmd, að kjörfundi sé slitið á miðnætti, og teldi, að út af fyrir sig þyrfti ekki lagabreytingu til þess, væntanlega mundi nægilegt, að ríkisstj. eða dómsmrn. beindi því til kjörstjórnanna, að þessi skilningur væri eðlilegastur á gildandi kosningalögum.

En að lokum vil ég segja, að mér þætti ákaflega fróðlegt að fá upplýsingar um það líka, hvað líður starfi þeirrar mþn., sem fyrir tæpum fjórum árum var falið að endurskoða kosningalögin.