21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 287 í C-deild Alþingistíðinda. (2139)

8. mál, vegalög

Flm. (Sigurður Bjarnason) :

Það er hárrétt, sem hv. þm. Barð. tók hér fram til svars við ummælum hv. 1. þm. N-M., að sú flokkun vega, í þrjá flokka, sem hv. 1. þm. N-M. ræddi um, gæti og mundi áreiðanlega verka mjög ranglátlega, eins og þessum málum er nú komið.

Hv. þm. Barð. færði öll rök að því, og ég skal ekki endurtaka það. En hv. 1. þm. N-M. sagði, að það ætti að byggja þessa flokkun á því, hverja þýðingu vegirnir hefðu fyrir þjóðarheildina. Hvað vill hann leggja til grundvallar í þessu sambandi? Þéttleika byggðarinnar? Framleiðslumagn þeirra landsvæða, sem hlut eiga að máli? Eða hver er sá mælikvarði, sem hann vill leggja til grundvallar við þessa flokkun?

Fljótt á litið fæ ég ekki betur séð, en þessi kenning hans mundi þýða það, eins og þýðing fyrir þjóðarheildina er nú almennt skilin, að strjálbýlustu og afskekktustu landshlutarnir ættu síðast að koma til greina við úthlutun vegafjár. Það ætti lengst að draga að veita fé til þeirra vega, sem lagðir eru um strjálbýlustu og afskekktustu héruðin. En ef þessari meginreglu væri fylgt, hvað er þá orðið eftir af öllu hinu mikla tali hans og mín og okkar margra hv. þm, um jafnvægi í byggð landsins? Erum við þá ekki komnir nokkuð langt frá kenningunni um nauðsyn þess? Það mundi ég ætla.

Í sambandi við flokkunina kemur það einnig til greina, að svo er nú komið fjárhag sveitarfélaga, sem eiga að standa undir kostnaði við hreppavegi, og sýslna og héraða, sem eiga að standa undir sýsluvegunum, að þessir aðilar hafa bókstaflega ekkert fjárhagslegt bolmagn til þess að rísa undir verulegum framkvæmdum í þessum efnum. Ég held þess vegna, að með því að setja ákveðna þjóðvegi að öllu leyti yfir á hreppa og sýslur, væri hreinlega verið að ákveða, að þessir vegir skyldu ekki lagðir, vegna þess að það er vitað, að þessir aðilar hafa ekki fjármagn til þess að rísa undir kostnaðinum. Ég held þess vegna, að slík flokkun sé ekki framkvæmanleg.

Hins vegar tek ég fyllilega undir það hjá hv. 1. þm. N-M., að nefndunum beri að fá allar upplýsingar, sem hugsanlegar eru, um ástand veganna, bæði þjóðvega, sýsluvega, hreppavega og fjallvega og hvers konar vega í landinu, Það er heldur ekkert nýtt, að þess sé óskað. Samgöngumálanefndir þingsins hafa alltaf byrjað á því, þegar ákveðið hefur verið að opna vegalög, að óska skýrslu um þetta frá vegamálastjóra, og sú skýrsla hefur alltaf borizt. Seinast þegar vegalög voru opnuð var þar mjög greinilega flokkuð lengd akfærra þjóðvega, lengd þeirra vega, sem teknir höfðu verið í þjóðvegatölu, lengd sýsluvega og akfærra sýsluvega, hreppavega o.s. frv. Allt þetta liggur fyrir frá því að vegalög voru seinast opnuð hér á hv. Alþingi, og að sjálfsögðu kemur ekkert annað til greina, en samgöngumálanefndirnar byggi starf sitt og tillögur að lokum að verulegu leyti á einmitt þessum upplýsingum, sem vegamálastjóri á áreiðanlega mjög gott með að gefa.

En ég vil að lokum segja það, að ef ætti að koma á einhverri flokkun að því er snertir vegi, þá ætti það helzt að vera á þá leið, að fjárveitingavaldið gerði sér það ljóst á hverjum tíma, hvernig ástatt sé um vegamál einstakra héraða, og það sé nokkuð farið eftir því við ákvörðun fjárveitinga, hversu langt er komið framkvæmdum í hverju einstöku héraði á sviði samgöngumála.

Því miður er það sjónarmið enn þá of mikils ráðandi, þegar vegafé er úthlutað, að skipt er þeim 10, 12 eða 14 millj. kr., sem lagðar eru fram til nýbygginga þjóðvega, milli héraða, stundum reynt að hafa þessar upphæðir nokkuð jafnar, en ekki nándar nærri tekið nógu mikið tillit til þess, hversu langt framkvæmdirnar eru á veg komnar í hinum einstöku héruðum. Það er t. d. hægt að benda á einstaka landshluta, stóra kaupstaði og blómleg landbúnaðarhéruð, sem ekki eru komin í samband við aðalakvegakerfi landsins. Það er ekkert vit í því að vera að píra svipuðum fjárveitingum í þessi héruð og veitt er til vega í héruðum, sem þegar eru búin að fá alla þá vegi, sem þau þurfa á að halda. Það er engin skynsemd í þessu. Ég held þess vegna, að það, sem þurfi að gera, sé að semja samræmda framkvæmdaáætlun um að ljúka sem fyrst vegagerðum um þau héruð, sem enn eru vegalaus og án akvegasambands við meginakvegakerfi landsins. Það er það, sem langsamlega mest er aðkallandi í þessum málum nú, en ekki, að ríkisvaldið og við hér á hv. Alþingi förum að setjast niður og reyna að plokka út einhverja spotta, sem eigi að setja á meira og minna févana hreppsfélög og sýslufélög. Ég held, að það sé ákaflega lítið gagnleg vinna, og ég vil ekki skora á neinn að taka það verk að sér, og ég veit reyndar, að þó að hv. samgmn., sem vinnur að vegalagabreytinga, — þ. e. a. s. báðar samgöngumálanefndir þingsins — sé allliðsterk, þá getur hún varið tíma sínum í allt annað betur, en stunda slík vinnubrögð. En sem greinilegastar upplýsingar um ástand veganna frá vegamálastjóra teldi ég mjög æskilegt að gætu legið fyrir bæði hv. samgöngumálanefndum og fyrir þinginu í heild.