21.10.1957
Efri deild: 6. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (2141)

8. mál, vegalög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vil fyrst benda þm. V-Sk. á það, að ef hann væri kunnugur um landsheildina, mundi hann geta fundið upp undir 20 bæi, sem hafa verið lagðir heim til þjóðvegir, og á tvo af þeim án þess að vera teknir í vegalög. Það hefur verið gert fyrir viðkomandi þingmenn, svo að það eru nú komnir þó nokkrir þjóðvegaspottar í heimreiðir á bæi. Ég skal ekki fara að nefna bæina núna. Hann getur fengið að vita um þá hjá vegamálastjóra. En það er hægt að nefna þá, ef hann langar til að heyra það, svo að það var ekki að ófyrirsynju sem ég sagði það.

Það er náttúrlega alveg rétt, sem hv. þm. Barð. tók fram, ef farið yrði í þá flokkun á þjóðvegunum eða þá vegi, sem maður vildi hafa þjóðvegi, sem ég minntist á, og það væri gert í hugsunarleysi og án nokkurra sérstakra athugasemda, þá gæti það komið ákaflega misjafnlega á sýslurnar, af því að það er svo nú, að sumar sýslurnar hafa ekki orðið eftir sýsluvegi, að heitið geti. Það er sýsluvegur á beitarhús sums staðar, af því að það eru engir eðlilegir vegir til orðnir í sýslunni til að taka upp í sýsluvegatölu. Í þessu er engin heil brú. Það er ekkert vit í þessu, meðan aftur í öðrum sýslum eru ólagðir vegir um heilar sveitir. Hér er núna á till., sem komnar eru, till. um veg heim á tvo einstaka bæi — heimreiðarvegir. Það eru nokkrir km. Önnur er um heimreið á tvo bæi, sem eiga að njóta vegarins o. s. frv. Ein er um veg, sem liggur við hliðina á öðrum, 1½ eða 2 km frá veginum, sem liggur eftir endilangri sveitinni, til þess að ná í tvo bæi o. s. frv. Þannig eru þessar tillögur. Þess vegna eru engin undur, þó að mönnum detti í hug að reyna að koma betra skipulagi á þetta en er, og það er ósköp vel hægt að gera það, þegar fyrir liggur skýrsla um vegina.

Þegar fyrir liggur skýrsla um vegina og maður sér, hvar þeir eru á vegi staddir, þá er ósköp hægt að ákveða það, að til bráðabirgða skuli ríkið kosta svo og svo mikið af vegum í þessa sýslu, sem hefur orðið aftur úr, og svo færast þeir inn í þann flokk síðar, sem þeim ber samkvæmt þeim lögum, sem sett yrðu um það. Það er ósköp vel hægt að koma því þannig lagað fyrir. En að láta sér detta í hug, að það eigi að leggja álíka mikið upp úr því að hafa góðan veg, þar sem fara um á annað þúsund bílar á dag eða þrír bílar á öllu árinu, bað er náttúrlega slík fjarstæða, að slíkt á ekki einu sinni að heyrast. Það er óskaplegur munur á umferðinni og þörfinni á vegunum eftir því, hvar er í landinu, og eftir því á að flokka þá. Vegirnir, sem mörgu bílarnir fara um, þurfa að vera góðir. Þeir eiga að vera góðir af mörgum ástæðum, fyrst og fremst til þess að fólkið komist fljótt um þá, í öðru lagi til þess að það sé ódýrara fyrir bílana, sem fara þar, bæði viðhald og benzín og allt, sem þar að lýtur, og það er allt önnur þörf á því að hafa slíkan veg góðan, sem fara um kannske á annað þúsund bíla á dag að meðaltali allt árið eða þar sem fer um kannske einn bíll á viku að sumrinu og svo ekki meir. Það er gersamlega ólík þörf.

Þess vegna er það, að það er ekki nokkur vafi á því, að það, sem hér verður gert í þessu máli, og það getur vel verið, að það verði ekkert gert í því annað, en að fá þessar skýrslur, og að þingið fái þá að sjá þær, en þetta sé ekki bara fyrir nefndina, eins og mér skilst að það hafi verið, eftir því sem þingmaður N-Ísf. lætur í veðri vaka. Þær hafa reyndar ekki alltaf komið jafnnákvæmar og jafngóðar eins og 1940, og þær hafa þá ekki alltaf komið fyrir þingheim, þó að nefndin hafi fengið þær. Þess vegna óska ég eftir, að þær komi í því formi, að maður fái að sjá þær og athuga þær. Og ég hef þá trú, að þó að þið núna haldið, að það sé ofvaxið hreppunum að standa undir hreppavegunum, þá sé það á misskilningi byggt. Ég veit, að það eru til hreppavegir, og þurfti ekki að fá neina vitneskju um það hjá þingmanni V-Sk., og veit líka, að það eru til sýsluvegir og tiltölulega fáir sýsluvegasjóðir. Það eru líka til fjallvegir og ræktunarvegir. Þetta veit ég allt. En ég veit líka, að það eru hreppar, sem hafa komið fram með sjálfboðavinnu — og ekkert verið betur stæðir en margir aðrir — ágætum vegum innan sinna vébanda. Þeir eru til. Það er eftir því, hvernig að því er unnið og að því er staðið heima í hreppunum. Ég veit ekki betur en t. d., svo að ég fari í kjördæmi þingmanns, Eyjafjarðarsýsluna, en allur vegurinn frá Dalvík og alla leið fram undir, — ja, fram undir hvað, — líklega að Göngustaðakoti, hafi verið lagður í þegnskylduvinnu, þar sem hver einasti maður vann. (BSt: Miklu lengra.) Miklu lengra, — jæja, það getur vel verið, ég man ekki, hvað langt hann komst fram í dalinn. Hann var bara allur lagður í þegnskylduvinnu, og unnu að honum allir menn, karlar sem kvenmenn, til að koma honum áfram. Þannig hafa verið gerð átök hér og þar um landið í vegavinnu, svo að það er fjarri því, að menn séu ekki til, til að vinna það, þó að fjármagn sé ekki til, til þess að kaupa þá vinnu, ef þannig er að því staðið og vilji er fyrir hendi og ekki búið að telja mönnum trú um það, að þeir eigi að fá allt frá öðrum og ekkert frá sjálfum sér.

Þess vegna óska ég eftir því og endurtek það, sem ég sagði áðan, — ég óska eftir því, að nefndin útvegi bæði þessar upplýsingar og leggi þær fyrir þingið sem heild, en geymi þær ekki hjá sér, þó að hún kunni að fá þær, og í öðru lagi athugi gaumgæfilega, hvort ekki sé rétt að flokka vegina og gera þeim dálítið misjafnt undir höfði eftir því, hvaða þörf þjóðfélagið hefur fyrir þá sem heild, og eftir því, hve mikið þeir eru notaðir, því að það er allt annað, hvort það er t. d. komið austur í mitt kjördæmi, miðað við einn sýsluveg þar, sem fara kannske eftir svona 100, 200 eða 300 bílar á ári, eða við komum í einhvern stað, þar sem fara fleiri bílar á dag um veginn, en um fyrrtalda veginn allt árið.