20.03.1958
Efri deild: 70. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (2163)

127. mál, skipun innflutnings og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl.

Frsm. minni hl. (Eggert Þorsteinsson) :

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns leiðrétta það mjög ákveðið, að mitt álit beri að skoða á einhvern hátt á þann veg, að ég sé andvígur þeim hugmyndum, sem hv. flm. þessa frv. hafa túlkað í umræðum um málið í n, og þeir hafa nú bætt hér við, framsögu hv. frsm., hv. 8. landsk. þm. Ég vil fyllilega taka undir nauðsyn þeirrar þjónustu, sem við fólkið í dreifbýlinu er nauðsynlegt að inna af hendi, að það verði gert sem ýtarlegast og þá þannig, að það komi að fullum notum og nái fyllilega þeim tilgangi, sem ég efast ekki um að liggi að baki flutningi frv. En þessar ástæður eru fyrst og fremst rökin til þess, að ég taldi ekki, að fengnum þeim upplýsingum sem n. hafði aflað sér, að nógu tryggilega væri frá þessum hlutum gengið, þ. e. a. s. þjónustunni við fólkið í dreifbýlinu. Þess vegna legg ég til í nál. mínu á þskj. 323, að málið verði athugað nánar og betur gengið frá þessum grundvallaratriðum, sem ég ítreka aftur nú, þó að ég efist ekki um þann tilgang, sem liggi til þess, að þetta mál er hér flutt af þeim hv. 8. landsk., þm. Ak. og hv. 1. þm. Eyf. Ég sem sagt dreg ekki í efa þær hugmyndir, sem að baki flutnings frv. liggja, en tel eftir þeim upplýsingum, sem n. hefur aflað sér og m. a. er frá skýrt í nál. mínu í því fskj., sem þar fylgir með, að annmarkar séu á frv. Nefndin eða nefndarformaður hafði auk þess samband við bankastjóra seðlabankans, sem einnig mun hafa nokkur afskipti af endanlegri afgreiðslu þessara mála. Og það var sem sagt einróma álit allra þeirra, sem til var leitað, að undanskildum ráðuneytisstjóra viðskmrn., sem taldi sig ekki hafa aðstöðu til að dæma um málið, — það var þó einróma álit þessara aðila, seðlabankans og stjórnar innflutningsskrifstofunnar, að á þessu væru þeir annmarkar, sem nauðsynlegt er að mínu viti að taka tillit til, og taldi ég því eftir atvikum rétt, að málinu yrði vísað til ríkisstj. til nánari athugunar. Málið yrði síðan endurflutt í þeim búningi, þar sem tryggilega væri frá þeim hlutum gengið, sem frv. er ætlað að ná til.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að álit stjórnarmanna innflutningsskrifstofunnar mótaðist fyrst og fremst af þeirri þekkingu þeirra, sem snýr að þeim persónulega sem embættismönnum. Ég vil ekki vanmeta þessa þekkingu manna, sem um margra ára skeið, a. m. k. sumir þeirra, eru samfleytt búnir að starfa að þessum vandasömu málum, vandasömu þjónustu, og tel það vera eitt höfuðatriði að fá frekari rannsókn á málinu og vísa því til ríkisstj. til þeirrar rannsóknar.

Það eina, sem hv. frsm. virðist viðurkenna af greinargerðinni frá innflutningsskrifstofunni, sem ég læt fylgja með á þskj., er það, að nokkur kostnaðarauki verði af framkvæmd málsins á þann veg, sem frv. ætlast til.

Ég verð nú að segja, að það var ekki vandlega lesið eða vandlega hugsaðar þær röksemdir, þegar ekki fæst önnur viðurkenning, en þetta á þessari grg. Ég efast ekki um, að hv. frsm. er það eins vel ljóst og mér og öðrum nm., að þegar valdi á sömu hlutunum er dreift á of marga staði, kostar það enn þá tímafrekari og vafasamari framkvæmd, a. m. k. að mínu viti, eftir því sem afgreiðslan og ákvörðunarvaldið er á fleiri stöðum. Þetta gæti í mörgum tilfellum þýtt það, ef frv. eða nánast sú heimild, sem frv. veitir ríkisstj., yrði notuð í því formi, sem frv. ákvarðar, að þá gæti það í mörgum tilfellum verkað nákvæmlega öfugt við þær röksemdir, sem hv. flm. hafa haft fyrir sinu máli. Ég tel t. d., að það verði ákaflega vandfundnir þeir staðir, sem slíkar afgreiðslur ættu að vera á, og það yrði að fara mjög nákvæmlega í að staðsetja hinar nýju afgreiðslur þannig, að það væri í raun og veru bót fyrir dreifbýlisfólkið að ná til þeirra manna. Stjórnarmenn skrifstofunnar segja, og ég hef ekki ástæðu til að rengja það, að þeir láti nú þegar utanbæjarfólk ganga fyrir um viðtöl og aðra afgreiðslu, vegna þess að það eigi erfiðara með að komast til bæjarins, en hv. frsm. virðist lítið vilja með þetta gera og telur, að það sé ekki vansalaust að brydda á slíkum hlutum.

Ég vil sem sagt ítreka þá meginskoðun mína, sem er undirstaða þessa sérstaka nál. míns, að málinu verði að þessu sinni vísað til ríkisstj. til nánari athugunar, þar sem framkvæmd einstakra ákvæða frv. er ekki það ljós, að það sé sýnt þrátt fyrir málflutning flutningsmanna, að það eigi að vera til aukinnar þjónustu fyrir dreifbýlisfólk, — að þá sé af frv. sjálfu ekki ljóst, hvernig sú aukna og bætta þjónusta á að vera, og það sé nauðsynlegt, að það komi skýrar fram, áður en Alþ. endanlega afgreiðir frv. um slíka hluti.

Ég tel ekki þörf á því að hafa þessi orð fleiri umfram það, sem nál. segir til um, og tel, að það sé nægjanlegur rökstuðningur fyrir því, að málinu verði á þessu stigi vísað til ríkisstj. til frekari undirbúnings.