20.03.1958
Efri deild: 70. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2164)

127. mál, skipun innflutnings og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl.

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Hv. þm. Vestm. (JJós) og ég féllumst á það með tveimur öðrum nm. að mæla með samþykkt þessa frv., en áskildum okkur að sjálfsögðu rétt til að flytja brtt. eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma. Ég vil geta þess fyrst, að við erum samþykkir meginstefnu frv., þeirri að greiða fyrir mönnum, sem þurfa að leita til innflutningsskrifstofunnar um fyrirgreiðslu.

Ég skal að vísu taka það strax fram, að mín skoðun er sú, að æskilegasta sporið væri að leggja innflutningsskrifstofuna niður. Það er trúlegt, að það sé ekki tímabært nú, en vonandi koma þeir tímar einhvern tíma, að verzlun verði orðin það frjáls og innflutningur og gjaldeyrisástand með þeim hætti, að ekki þurfi að halda uppi sérstakri skrifstofu með fjölmennu starfsliði til þess að vinza þá úr, sem eiga að njóta þeirra gæða heimsins að fá innflutning á hinum og þessum vörutegundum.

Nokkuð sama máli má segja að gegni um fjárfestingarvaldið, en ég skal ekki fara út í það hér. En eins og kunnugt er, þá er aðalverkefni innflutningsskrifstofunnar að úthluta innflutningsleyfum fyrir þær vörur, sem innflutningsleyfi þarf fyrir, enn fremur að úthluta fjárfestingarleyfum, þar sem þeirra þarf með, sem er í flestum greinum, nema almennar íbúðir af tiltekinni stærð, og í þriðja lagi hefur svo innflutningsskrifstofan með verðlagsmálin að gera, a. m. k. að nokkru leyti. Eins og sakir standa í þjóðfélaginu nú, þar sem jafnmargar vörur eru háðar innflutningsleyfum og þar sem þeir, sem vilja ráðast í einhverjar framkvæmdir, eru jafnháðir valdi þessarar skrifstofu og þar sem gjaldeyrisástandið er jafn hörmulegt og það er nú í dag, er vitanlegt, að það kostar mikla vinnu, fyrirhöfn og oftast nær vonbrigði fyrir þá, sem þurfa að leita til innflutningsyfirvaldanna. Vissulega væri mikils virði, ef hægt væri að greiða hér úr og spara mönnum tíma og fyrirhöfn, þeim sem til þessara innflutningsyfirvalda þurfa að leita.

Að þessu leyti teldi ég það verulega bót, ef fólk þyrfti sem skemmst að sækja til þessara valdamanna, og því mjög eðlilegt, að slíkar skrifstofur eða afgreiðslustöðvar væru viðar, en á einum stað í landinu. Að vísu telja forstöðumenn innflutningsskrifstofunnar ýmis vandkvæði á því að skipta þessu í fleiri staði. En þó að margt sé skynsamlega mælt og af reynslu talað í þeirra umsögn, sem prentuð er með áliti minni hl. fjhn., get ég þó ekki fallizt á það að öllu leyti. Ég býst við, að í mörgum öðrum tilfellum hafi sams konar röksemdir komið fram, að þar sem ein stofnun hefur verið, mætti ekki dreifa því. Það er sérstaklega í sambandi við bankamálin, sem þessari röksemd hefur mjög oft skotið upp, bæði þannig, að þegar einstakir staðir, fjórðungar eða byggðarlög úti á landi, hafa óskað eftir að fá útibú frá bönkum, hafa oft og tíðum verið hafðar uppi þessar mótbárur, að þetta yrði í rauninni að vera allt á einum stað, frá aðalbankanum. Sömuleiðis þegar uppi hafa verið raddir um það að stofna nýjar lánsstofnanir eða banka, t. d. iðnaðarbanka, svo að eitt dæmi sé nefnt, eru þessar sömu röksemdir hafðar, að það mætti ekki dreifa þessu valdi, það ætti, ef ég má nota það orð, að „sentralisera“ þetta sem allra mest. Ég fyrir mitt leyti er alveg á gagnstæðri skoðun og held, að það gæti verið að mörgu leyti til bóta og mjög til fyrirgreiðslu fyrir almenning úti á landi, ef þessar afgreiðslustöðvar yrðu fleiri, en nú er. Hitt er svo annað mál, að það er mikill vandi á höndum, þegar á að ákveða, bæði hvar þessar stöðvar skuli vera og í öðru lagi, hvert skuli vera verkefni þeirra og valdsvið.

Í frv. þessu er aðeins um að ræða heimild til ríkisstj. Sú heimild er þó bundin við það, að slíkar innflutnings- og gjaldeyrisafgreiðslur utan Reykjavíkur megi ekki vera fleiri en þrjár, og er þá gert ráð fyrir einni í hverjum landsfjórðungi. Þetta er nú gott og blessað. En þegar það er athugað nánar, er ekki víst, að þessi skipan verði til aukinnar fyrirgreiðslu fyrir allan landslýðinn, heldur jafnframt fyrir fólk í ýmsum byggðarlögum til aukins erfiðis og fyrirhafnar.

Við skulum taka sem dæmi, að slík stöð, afgreiðslu- og gjaldeyrisstöð, yrði sett t. d. á Akureyri, höfuðborg Norðurlands, og svo yrði fyrir mælt, að þangað skyldu allir úr Norðlendingafjórðungi sækja um þessi mál. Ég býst við t. d., að íbúar Vestur-Húnavatnssýslu mundu ekki telja sér neina aukna fyrirgreiðslu að því að vera skipað að sækja um öll þessi mál til Akureyrar í stað Reykjavíkur, því að yfirleitt er það þannig, ég vil segja allan ársins hring, að íbúar þessarar sýslu eiga miklu oftar erindi og auðveldari samgöngur hingað suður, en norður til Akureyrar. Ef landinu væri þannig skipt í fjórðunga t. d. og ákveðin ein stöð, í þessu tilfelli Akureyri, yrði sumum íbúum þessa fjórðungs miklu erfiðara um vik en áður. — Sama máli gegndi t. d. um Vestfirðingafjórðung, ef ákveðin yrði afgreiðslustöð fyrir hann á Ísafirði. Ég býst við til dæmis, að íbúar í Stykkishólmi og Búðardal, svo að tvö dæmi séu nefnd, mundu ekki þakka fyrir og telja það aukna fyrirgreiðslu, heldur þvert á móti til aukins trafala að þurfa að sækja um öll þessi mál til Ísafjarðar í stað Reykjavíkur. Þannig mætti lengi nefna dæmi og flm. þessa frv. munu ekki hafa hugsað þessa hlið út í æsar, heldur sett allt sitt traust á ríkisstj., að hún mundi finna þá réttu lausn þessara mála.

Enn fremur er þetta atriði, hvort eigi að skipta landinu þannig niður í fjórðunga, að hver fjórðungur ætti þá að sækja til sinnar afgreiðslustöðvar og alls ekki hafa heimild til þess að leita til annarra. Ef svo væri, er hér stefnt mjög aftur á bak, og gæti jafnvel komizt í það horf, sem var hér áður fyrr, þegar mönnum var jafnvel bannað að viðlagðri refsingu að verzla út fyrir sitt ákveðna byggðarlag, og munu sjálfsagt ýmsir kannast við það, þegar Hólmfastur á Brunnastöðum var hýddur fyrir brot gegn þeim ströngu ákvæðum.

Nú má vera, að þetta sé hugsað þannig, að þó að landinu yrði þannig skipt niður í innflutnings- eða gjaldeyrisfjórðunga eða héruð, mættu menn þó sækja til þeirrar stöðvar, sem þeir vildu. Í framkvæmd yrði þetta að sjálfsögðu nokkuð örðugt, sérstaklega ef ætti að hafa þann háttinn á, eins og kom m. a. fram hjá frsm. meiri hl., að aðalstöðvarnar eða aðalmiðstöðin hér í Reykjavík yrði þá væntanlega að úthluta hverjum fjórðungi vissum hluta gjaldeyris. Það er náttúrlega erfitt í framkvæmd, ef svo hverjum er heimilt að sækja til þeirra stöðva, sem hann vill.

Þetta eru aðeins ábendingar í sambandi við framkvæmdina, en þó er fleira, sem hér þarf að gæta að, og það er t. d. þetta: Eiga þessar stöðvar úti á landi aðeins að vera útibú, sem taka á móti umsóknum, en geta ekki tekið neinar ákvarðanir eða úthlutað leyfum án þess að bera það undir aðalstöðina? Ef við lítum t. d. á útibú bankanna, þá mun það vera nokkuð sitt á hvað með valdsvið útibúanna. Sumir útibússtjórarnir munu telja sig hafa heimild til þess að ákveða sjálfir og upp á sitt eindæmi lánveitingar án þess að bera það undir aðalbankann, en í öðrum útibúum mun vera gagnstæð regla og venja, þannig að um öll meiri háttar mái verða útibússtjórarnir að bera sig saman við og fá samþykki aðalbankans til.

Ef valdsvið og verkefni þessara afgreiðslustöðva ætti að vera það eitt að taka á móti umsóknum og hlýða á mál manna, en verða svo að leita samþykkis aðalstöðvanna til innflutnings- og gjaldeyrisleyfa, gæti svo farið, að þessi nýja skipan yrði aðeins til aukins trafala og aukinnar tímaeyðslu. Ef hins vegar þessar nýju stöðvar ættu að hafa beinlínis úthlutunarvald í töluvert ríkum mæli, gæti þetta a. m. k. fyrir þá íbúa, sem þar búa og í næsta nágrenni, orðið til aukinnar fyrirgreiðslu og sparað tíma og fyrirhöfn.

Ég ætla ekki á þessu stigi að hafa um þetta fleiri orð, en vil endurtaka það, að við hv. þm. Vestm. erum samþykkir meginstefnu þessa frv., þó að við teljum, að mjög þurfi vandlega að því að fara og með mikilli gát, að hin nýja skipan yrði ekki til aukinna erfiðleika fyrir eitthvað a. m. k. af landslýðnum. Ég geri því ráð fyrir, að við 3. umr. flytjum við brtt. við þetta frv., og m. a. er það athugandi, hvort þarf ekki að rýmka heimildina, þannig að það sé ekki aðeins bundið við í mesta lagi eina afgreiðslu- og innflutningsstöð í hverjum landsfjórðungi. Þannig er t. d. háttað samgöngum hjá okkur og sambandi byggðarlaga, að það getur verið nauðsynlegt að hafa þetta nokkru rýmra og frjálsara, en í frv. er.

Enn fremur gæti komið til mála, hvort í frv. sjálfu ætti að ákveða, að hver slík innflutnings- og gjaldeyrisafgreiðsla skyldi fá til frjálsrar ráðstöfunar — án þess að bera hvert einstakt atriði undir aðalstöðina — vissan hluta þess gjaldeyris, sem á hverjum tíma er fyrir hendi, en að því er var vitnað hér í umsagnir, þá liggur nú fyrir umsögn innflutningsskrifstofunnar, og ég vil, til þess að það valdi engum misskilningi, taka það fram í sambandi við gagnrýni hv. frsm. meiri hl. á þeirri umsögn, að allt stjórnarliðið í innflutningsskrifstofunni stendur að þeirri umsögn, þannig að þeir þrír fulltrúar, sem stjórnarflokkarnir eiga og m. a. sá sem Alþb. á þar. hefur skrifað undir þetta og mætti á nefndarfundum og var alveg sammála þessari umsögn, sem prentuð er í áliti minni hl., í einu og öllu.

Hins vegar lá ekki fyrir skrifleg umsögn seðlabankans eða aðalbankastjóra hans, en formaður n., hæstv. forseti, átti tal við hann um það mál, og skilaboð hans voru á þá leið, að bankastjórinn teldi þetta mjög athugandi og jafnvel væri því fylgjandi að meginstefnu til, en það væri í rauninni tilgangslaust að tala um þetta, þar sem enginn gjaldeyrir væri til. — Mér finnst rétt, að þetta álit aðalbankastjóra seðlabankans komi hér fram.

Eins og ég gat um, höfum við hv. þm, Vestm. í undirbúningi brtt. nokkrar við frv., sem við munum bera fram við 3. umr.