20.03.1958
Efri deild: 70. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (2165)

127. mál, skipun innflutnings og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl.

Frsm. meiri hl. (Björn Jónsson) :

Herra forseti. Ég hef ekki miklu við mína framsöguræðu að bæta. Það hefur ekki komið neitt það fram, sem gefur tilefni til þess að vera langorður. Mér þykir vænt um að heyra það nú, að hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ) skuli vera meginefni þessa frv. fylgjandi, en ég vil þó jafnframt benda honum á, að afstaða hans í n. og hans nál. er í algerri mótsögn við þá yfirlýsingu. Ég vil biðja hann í því sambandi að athuga, að hér er aðeins um heimildarlög að ræða og að ekki gerist annað, þó að þetta frv. sé samþykkt, heldur en það, að ríkisstj. verður heimilt að setja upp umræddar innflutningsskrifstofur, ef hún kemst að þeirri niðurstöðu, að á því séu ekki óyfirstíganleg vandkvæði. Hins vegar, ef frv. er vísað til ríkisstj., getur hún að vísu athugað málið, en hefur ekki heimild til framkvæmda, jafnvel þó að hún og sérfræðingar hennar telji þær æskilegar. Ég held þess vegna, að ef hv. 4. þm. Reykv. væri þessu máli raunverulega svo hlynntur sem hann annars vill vera láta, hefði hann átt að fylgja meiri hl. fjhn. En ég vil ekki fullyrða um, hvort afstaða hans kann að stafa af því, að hann hefur ekki áttað sig á því, að þarna er aðeins um heimild að ræða, en ekki fyrirskipun.

Viðvíkjandi því, sem kom fram bæði í ræðum hv. 4. þm. Reykv. og hv. 6. þm. Reykv. um það, að í þessu frv. væri ekki farið nákvæmlega út í einstök atriði, vil ég segja það, að slíkt væri í algeru ósamræmi við þau lög, sem hér er um að ræða. Í lögum um innflutnings- og gjaldeyrismál, fjárfestingarmál o. fl. er allt ákvörðunarvald í stórum dráttum falið í hendur ríkisstj. Hún setur forstöðumönnum innflutningsskrifstofunnar starfsreglur, hún ákveður valdsvið þeirra, til hennar er hægt að áfrýja málum, hún ákveður, hvaða vörur skuli vera á frílista, o. s. frv. Það er líka auðsæilegt, að mjög margt í þeim reglum, sem settar eru um úthlutun á gjaldeyri, hlýtur að vera háð breytingum, og algerlega útilokað að lögfesta um það mjög ýtarlegar reglur. Ég held þess vegna, að þetta frv. sé að þessu leyti í fullu samræmi við lögin. Það má e. t. v. segja, að það sé jafnónákvæmt og lögin eru í heild sinni, en það tel ég fyllilega eðlilegt.

Ég get tekið undir ýmislegt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði um þetta mál. Það eru mörg atriði það varðandi, sem þurfa nánari athugunar við, en gerð hefur verið enn þá og ætlazt er til að ríkisstj. láti sérfræðinga sína gera og hún hlýtur að gera, ef þetta frv. verður samþykkt.

Það er alveg rétt, að frv. mundi aldrei ná til allra landsmanna. En ég tel það hins vegar enga röksemd, að það megi ekki gera allstórum hluta landsmanna aukið hagræði, vegna þess að ekki sé hægt að láta alla njóta þess.

Þó að þetta frv. yrði að lögum, er ákvörðunarvaldinu í heild ekki breytt á neinn hátt. Æðsta vald í þessum málum er áfram í höndum ríkisstj. Ég gæti reyndar bætt því við, að ég tel, að ákvörðunarvaldið í þrengri merkingu mætti gjarnan færa meira saman, en nú er. Það er t. d. alkunnugt, að það eru í raun og veru starfandi tvær innflutningsskrifstofur, vegna þess að frílistinn, eins og hann nú er, er raunverulega ekki frílisti og bankarnir geta ekki veitt greiðsluheimildir til greiðslu allra þeirra vörutegunda, sem á honum eru. Ég teldi miklu eðlilegra, að þetta ákvörðunarvald allt væri á einum stað, en frv. fjallar ekki um það atriði málsins, og ræði ég það því ekki frekar.