09.12.1957
Efri deild: 34. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 99 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

73. mál, kosningar til Alþingis

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Það má nú segja, að það lítur út fyrir, að hæstv. ríkisstj. sé farin að taka viðbrögð, þegar höfð eru þau vinnubrögð, að mál eins og þetta er lagt fram prentað frv. á sama þingfundinum og það er tekið fyrir — með afbrigðum náttúrlega. Hæstv, ríkisstj. veit, að hún hefur nægt atkvæðamagn til þess að gera þetta, og skirrist ekki við að láta kné fylgja kviði.

Ég verð nú að segja fyrir mig, að ég er ekki búinn að lesa svo yfir þetta mál, sem ég sé fyrst í dag, að ég geti áttað mig á öllum atriðum þess og sízt af öllu á tilganginum. En hann er þó augljós, m.a. af því, hvaða viðbrögð hæstv. ríkisstj. hefur til að koma málinu á framfæri.

Hæstv. fjmrh. hefur verið að tala hér um „kl. 23“ í sambandi við eitt ákvæði í frv., þar sem um ræðir, hvenær megi slíta kjörfundi eða eigi að slíta kjörfundi. Það stendur nú skýrum stöfum í 2. gr., síðari málsgreininni, í því prentaða máli, að honum skuli ekki vera slitið síðar, en kl. 22 á kjördag. Klukkan 22, það er klukkan 10 að kvöldi, skilst mér. En svo er hæstv. ráðh. að tala um kl. 23. Ég veit ekki, hvaðan það kemur eða hvort — (Forseti: Hann leiðrétti það í framsöguræðunni.) Að það eigi að vera 23, eigi að lesast 23? (Forseti: Já.) Nú, það verður þá sennilega leiðrétt í nefnd. En fyrir skömmu, — ég hlustaði nú ekki á sjálfa framsöguræðuna hjá hæstv. ráðh., — en í einni af hans ræðum komst hann svo að orði, þegar hann var að mæla á móti því, að kjörfundur stæði til 24 eða til miðnættis, að ef menn ætluðu að kjósa á kjördag, þá yrðu þeir að kjósa fyrir þann tíma. Nú vitum við allir, að samkvæmt málvenju er dagurinn ekki liðinn, kjördagur stendur til kl. 12 að kvöldi eða klukkan 24, svo að mér finnst eiginlega sjálfsagt, að það sé haft þannig, að það megi ekki slíta síðar en klukkan 12, ef tilgangurinn er að láta kjósendur hafa heimild til þess að nota kjördaginn. Hann er ekki liðinn fyrr en kl. 12, það vita menn. Og þeir, hvort það er hæstv. ráðh, eða hverjir aðrir, sem vilja stytta kjördaginn, hvort það er um einn klukkutíma eða tvo klukkutíma, eins og virðist hafa verið tilgangurinn fyrst, eru með því berlega að þrengja rétt kjósendanna til að nota sitt atkvæði. Hvort sem tíminn er styttur, hvort það er um hálftíma eða tvo tíma eða einn tíma, eins og hæstv. ráðh. vill, þá er það ómótmælanlegt, að með því er gengið á rétt kjósenda um að nota sitt atkvæði.

Hæstv. ráðh. hneykslaðist mjög á því, að hv. þm. V-Sk. (JK) taldi, að hér væri verið með spor í einræðisátt. Ja, það er ekki svo mikið til að hneykslast á, vegna þess að meðferð málsins og málið sjálft ber það með sér, að það er verið að þrengja rétt kjósenda og torvelda þeim aðgang að því að nota sinn atkvæðisrétt. Það er ekki hægt að komast hjá því, og þó að hæstv. ráðh. fyrtist svo mjög við það, sem hv, þm. V-Sk. sagði í þessu efni, þá ber málið það sjálft með sér, að það er spor aftur á bak í þessu efni hvað kosningafrelsi og lýðræði snertir, eins og hv. þm. V-Sk. tók fram.

Það getur vel verið, að þetta sé mikið nauðsynjamál í augum einhverra stjórnarherra í þessu landi. En hæstv. stjórn getur ekki kippt sér upp við það, þó að á það sé bent, að það eru kynleg vinnubrögð, þegar situr nefnd undir forustu sjálfs aðalstjórnarflokksins, undir forustu Framsfl., er búin að sitja í þó nokkur ár til að endurskoða eitthvað þessa löggjöf, að þá sé hlaupið til á þennan hátt, sem gert er af sama hæstv. flokki og undir forustu hæstv. fjmrh., til þess að gera þessar breytingar, sem hér liggja fyrir og eru sýnilega þær að torvelda einhverjum kjósendum aðgang að því að nota sinn atkvæðisrétt. Það getur vel verið, að hæstv. stjórn finni til þess, að eitthvað þurfi að umbæta í kosningalögunum, en hún ætti þá að láta þann mann, sem er í nefndinni, er hefur endurskoðun kosningalaganna til meðferðar, og er þeirra eigin flokksmaður, fá skipun um að leggja fram þá allsherjar endurskoðun, sem Alþingi hefur ætlazt til að færi fram og Framsfl. ber ábyrgð á að ekki liggur enn þá fyrir. Í stað þess er farið á stað með þetta mál, sem sýnilega er til að þrengja rétt kjósendanna og að því leyti til alveg réttmætt það, sem hv. þm. V-Sk. sagði hér. Hitt getur vel verið, að hæstv. ríkisstj. finni til þess og stjórnarflokkarnir núna, að þeir eiga eftir að gera einhverja yfirbót á þeirri misnotkun kosningalaganna, sem þeir höfðu við síðustu kosningar og í krafti hvers þeir náðu saman meiri hluta í þinginu, og að það sé hin vonda samvizka hæstv. stjórnarflokka, sem knýr þá til að vera nú með þetta mál og tala um umbætur á kosningalögunum.