25.03.1958
Efri deild: 73. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í C-deild Alþingistíðinda. (2170)

127. mál, skipun innflutnings og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl.

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls gat ég þess, að við hv. þm. Vestm. (JJós), sem báðir eigum sæti í fjhn., mundum bera fram brtt. við 3. umr. málsins. Þessar brtt. hafa því miður orðið það síðbúnar, að þær liggja ekki fyrir prentaðar, og vil ég leyfa mér að leggja þær fram skriflegar og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða, til þess að þær megi koma fyrir.

Þessar brtt. eru tvær. Það er sú fyrri, að úr 1. gr. falli niður orðin „allt að þrjár“. Þar segir: „Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða, að settar skuli á stofn allt að þrjár innflutnings- og gjaldeyrisafgreiðslur utan Reykjavíkur“ — að niður falli orðin „allt að þrjár“, og enn fremur orðin í næstu línu: „þó ekki fleiri en ein í hverjum landsfjórðungi.“

Upphaf þessarar málsgreinar yrði því þannig, ef brtt. okkar væru samþykktar:

„Ríkisstjórninni er heimilt að ákveða, að settar skuli á stofn innflutnings- og gjaldeyrisafgreiðslur utan Reykjavíkur á þeim stöðum, sem bezt teljast til þess fallnir.“

Það er felld niður þessi takmörkun, að það skuli þó aldrei vera fleiri en ein í hverjum landsfjórðungi.

Ég minntist nokkuð á það við 2. umr., hverjar væru ástæður fyrir þessu, en staðhættir hér á landi geta vel verið þannig, að óheppilegt sé að binda sig við eina skrifstofu í hverjum landsfjórðungi, ef á að setja upp skrifstofur utan Reykjavíkur til fyrirgreiðslu fyrir fólkið. Málin geta legið þannig fyrir, að af samgöngu- og viðskiptaástæðum sé eðlilegra að hafa þetta óbundið, og við það er till. okkar miðuð, því að vitanlega er tilgangurinn sá að greiða fyrir fólkinu, en ef bundið væri sig eingöngu við einn stað í hverjum landsfjórðungi, gæti svo farið, að viss byggðarlög væru verr sett en áður.

Síðari brtt. er viðaukatill., að aftan við greinina bætist: „Þær afgreiðslur, sem þannig eru settar á stofn, skulu fá sjálfstæðan rétt til úthlutunar innflutnings- og gjaldeyrisleyfa, eftir því sem nánar verður ákveðið í reglugerð.“

Það var minnzt á það við 2. umr., að eftir þessu frv. væri ekkert um það sagt, hvort þessar nýju afgreiðslur ættu að fá sjálfstæðan úthlutunarrétt eða vera háðar innflutningsskrifstofunni í Reykjavík um allar leyfaveitingar innflutnings og gjaldeyris.

Við flm. þessarar brtt. teljum eðlilegt og í rauninni sjálfsagt, að ef á að stofna fleiri slíkar afgreiðslur, verði þær afgreiðslur, til þess að gagni komi fyrir landsfólkið, að fá nokkuð sjálfstæðan úthlutunarrétt, og yrði það væntanlega í framkvæmd þannig, að ríkisstj. eða þeir aðilar aðrir, sem hér koma til greina, gjaldeyrisbankar að sjálfsögðu og ef til vill innflutningsskrifstofan í Reykjavík, mundu úthluta vissum kvóta eða ákveðinni upphæð, sem hver skrifstofa mætti úthluta sjálfstætt. Það er því efni þessarar síðari brtt. okkar, að þessar afgreiðslur skuli fá sjálfstæðan rétt til úthlutunar innflutnings- og gjaldeyrisleyfa, en að sjálfsögðu verður að ákveða um þetta nánar í reglugerð, sem gert er ráð fyrir í frv. að ríkisstj. setji um þessi mál.

Ég þarf ekki að hafa fleiri orð til skýringar þessum tveimur brtt., en vænti þess, að þær fái góðar undirtektir.