11.04.1958
Efri deild: 76. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (2176)

166. mál, félagsmálaskóli verkalýðssamtakanna

Eggert Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil á þessu frumstigi málsins aðeins lýsa því yfir, að eins og fram hefur komið á þskj. 36, sem við tveir hv. samflokksmenn mínir höfum flutt, hefur þetta mál verið alllengi til umræðu meðal verkalýðsfélaganna, eins og framsögumaður málsins hefur þegar um getið, en við þessar umræður málsins hafa menn ekki orðið á eitt sáttir um ýmis framkvæmdaratriði þess.

Það hefur verið gerð tilraun til þess að reyna að ná um þetta samkomulagi, en þær litlu tilraunir, sem gerðar hafa verið, hafa ekki borið þann árangur, sem þó hefði mátt vænta.

Eins og ég sagði, er ljóst, að skoðanamunur er um þetta mál milli þess frv., sem hér liggur fyrir, og þáltill. þeirrar, er ég áður gat um, og er hann einungis í framkvæmdaratriðum, en að sjálfsögðu er þar ekki um grundvallarmismun að ræða, þ. e. a. s. um, hver tilgangurinn með stofnuninni eigi að vera, og má því ætla, að samkomulag geti tekizt um þetta á síðara stigi málsins. En þar sem nú er komið sérstakt frv. fram um málið, tel ég nauðsynlegt, að flutt verði annað frv. á grundvelli þeirrar þáltill., sem ég áðan gat um, í von um, að á síðara stigi málsins megi ná saman endum um framkvæmd málsins.

Ég get svo að mestu tekið undir nauðsyn þess, sem frsm. skýrði glögglega, nauðsyn þess, að málið nái fram að ganga sem allra fyrst, en þó þannig, að fyrir fram verði ekki dregið úr þeim möguleikum, sem slík fræðsla á að geta haft og þarf að hafa, ef hún á að koma að fullum notum.