21.04.1958
Efri deild: 82. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í C-deild Alþingistíðinda. (2184)

174. mál, fræðslustofnun launþega

Flm. (Eggert Þorsteinsson) :

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir og ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. þm. Ak., fjallar um fræðslustofnun launþega.

Á tveimur undanförnum þingum hef ég og tveir samflokksmenn mínir flutt þáltill. um þetta sama efni, þ. e. a. s. um fræðslustofnun launþega, eins og það var nefnt, og er frv. þetta samið á grundvelli þeirrar meginstefnu, sem í þeirri þáltill. var mörkuð.

Höfuðtilgangurinn með því að koma slíkri fræðslu á, sem frv. að lögum um fræðslustofnun launþega gerir ráð fyrir, er að halda uppi fyrir trúnaðarmenn og félagsfólk verkalýðsfélaga og annarra launþegasamtaka hvers konar skipulögðu fræðslustarfi, er stuðla megi að auknum áhuga, þekkingu á sögu, heilbrigðu starfi og starfsháttum viðkomandi samtaka.

Það fer ekki milli mála, hve starfsemi verkalýðssamtakanna er að verða snar þáttur í daglegu starfi síaukins fjölda þjóðarinnar. Það má því með sanni segja, að skyldurækni og þekking starfsmanna verkalýðsfélaganna sé ekki aðeins nauðsyn fyrir meðlimi viðkomandi samtaka. Slíkir eiginleikar eru orðnir beint hagsmunaatriði beggja aðila, þeirra, sem vinnuna selja, og hinna, er vinnuna kaupa.

Enginn getur haft á móti því, að slík stofnun, sem er í lífrænu sambandi við sjálfa vinnuna, yrði á stofn sett, og fáir, sem kynnt hafa sér alla starfshætti, munu efast um nauðsyn þess, að slík stofnun sé starfrækt.

Það er hægt að deila um þjóðhagslega nytsemd menntastofnana, og vissulega er fræðslukerfi þjóðarinnar orðið ærið umfangsmikið og dýrt. Um menntun eða fræðslu til aukins skilnings á réttindum og skyldum vinnandi fólks ætti hins vegar ekki að þurfa að deila.

Hvernig hyggjumst við flm. þá láta stofnun þessa ná tilgangi sínum í þessu þýðingarmikla hlutverki? Er nú rétt að víkja að því örlítið nánar.

Eins og fram kemur í grg., er hér ekki hugmyndin að setja á stofn stórt skólabákn á einum stað í landinu, sem vart mundi ná tilgangi sínum eða ná þannig til sem flestra um öll nauðsynleg atriði, er máli skipta, þ. e. að færa námið til fólksins.

Þess er vart að vænta, að trúnaðarmenn og stjórnarmeðlimir einstakra verkalýðsfélaga færu að setjast á skólabekk langtímum saman til þess að öðlast slíka fræðslu.

Meginhluti þessara starfa er í dag unninn í hvíldar- og frítímum verkafólksins og þá sem algerlega ólaunað áhugastarf. Langrar skólavistar verður því vart krafizt til slíkra starfa, enda algerlega óraunhæft, og öll almenn fræðsla í skyldunámi orðin það fullkomin, að þess ætti ekki að gerast sérstaklega þörf í slíkri stofnun.

Í sambandi við umræður um þessi mái að undanförnu hefur æði oft verið vitnað til Norðurlandanna um framþróun þessara mála þar. Í þessum tilvitnunum hefur gætt nokkurs misskilnings. Í Danmörku t. d. er hin almenna skólaskylda tveimur árum styttri en hér, og ber því meira á eins konar framhaldsfræðslu hins almenna náms í þessum stofnunum þar, sem ekki ætti að vera bein þörf á hér.

Þegar hinum fastákveðna skólatíma lýkur, er efnt til eins konar stuttra námskeiða, „kúrsusa“, eins og þeir nefna það þar, þar sem mögulegt er að velja á milli hinna einstöku félagsmálagreina. Sá hluti í starfi þessara stofnana mun betur eiga við alla starfshætti hér og verða heilladrýgri. Leiðirnar, sem til greina koma að áliti okkar flm., eru:

1) Að efna til námskeiða um lengri eða skemmri tíma fyrir trúnaðarmenn og almenna meðlimi verkalýðssamtakanna.

2) Að annast útgáfu á bókum, blöðum, bæklingum og hvers konar öðru prentuðu máli. Í þessu sambandi er rétt að minnast sérstaklega á nauðsyn þess að gefa út handbók, t. d. um fundarstjórn, fundarreglur, gjaldkera- og ritarastörf, meginefni laganna um stéttarfélög og vinnudeilur, atvinnuleysistryggingar, orlof, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, öryggi á vinnustöðum, uppsagnarréttindi verkafólks, svo að nokkuð sé nefnt.

3) Að koma upp bókasafni og safna heimildum um sögu og starfsemi launþeganna hér á landi og erlendis.

4) Að útvega eða láta gera kvikmyndir og önnur sjónkennslutæki, er stuðli að tilgangi stofnunarinnar.

5) Að leigja slíkt efni til verkalýðsfélaga eða annarra launþegasamtaka um land allt.

6) Að senda fyrirlesara eða erindreka um landið til þess að ræða þessi mál á fundum viðkomandi samtaka og gangast fyrir öðrum slíkum fræðslufundum.

7) Að hvetja til aukins fræðslu- og menningarstarfs innan samtakanna.

8) Að leita samvinnu við skóla landsins og stuðnings þeirra við þetta fræðslu- og menningarstarf launþegasamtakanna.

Af þessu má augljóslega ráða, að megináherzla er á það lögð, að fræðslan geti farið fram við sem flestar aðstæður og verið hreyfanleg með tilliti til hinna dreifðu félaga vinnandi fólks um land allt, að sem flestir eigi kost á því að njóta þess, sem fram verður fært, án verulegs tilkostnaðar.

Eftir að lýst hefur verið í megindráttum tilgangi þessarar stofnunar, kynni ef til vill einhver að segja, að slíkt fyrirtæki ætti að reka á kostnað og ábyrgð launþegasamtakanna sjálfra. Því er þá til að svara, að til þess hafa launþegasamtökin ekkert fjárhagslegt bolmagn og ekki fyrirsjáanlegt, að svo geti orðið í náinni framtíð, en hliðstæða er til um slíkt framlag ríkisins við fræðslu annarra starfsgreina. Erlendis tíðkast það jafnvel, að einstök verkalýðssambönd kosti efnilega menn úr sínum röðum til slíks náms, en þess verður vart að vænta hér, svo mjög sem fjárhagur verkalýðsfélaganna hér á landi er þröngur.

Eins og ég minntist á í upphafi máls míns, er hér um svo umfangsmikið nauðsynjastarf að ræða, að telja verður undir þjóðfélagslega nauðsyn að rækt sé. Í Alþýðusambandi Íslands munu nú vera nálega 30 þús. manns, karlar og konur, í rúmlega 160 sambandsfélögum og í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja um það bil 3.000 manns. Þegar svo er tekið tillit til allra þeirra, er þessar þúsundir manna hafa viðskipti við með sölu vinnu sinnar, má öllum ljóst vera, hve mikið er í húfi, að farsællega takist um lausn allra þeirra deilna, sem óhjákvæmilega rísa upp um hin fjölmörgu atriði, er til greina koma á hverjum einasta degi.

Farsælli lausn þessa vanda verður vart fundin, en stóraukin fræðsla um öll þau atriði, er máli skipta.

Það er ætlun okkar flm., að fastakostnaður og kennslukostnaður greiðist úr ríkissjóði, bókakaup og bæklingaútgáfa ásamt leigu kvikmynda yrði að einhverjum hluta gegn mótframlagi viðkomandi stéttasamtaka.

Frv. þetta um fræðslustofnun launþega gerir ráð fyrir, að í stjórn stofnunarinnar skipi Alþýðusamband Íslands þrjá fulltrúa, Bandalag ríkis og bæja einn, en form. yrði skipaður af menntmrh.

Þá er og hugsanlegt, að sérstakt fræðsluráð yrði einnig starfrækt, er kæmi saman tvisvar til þrisvar á ári eða oftar, ef þurfa þætti, er væri ráðgefandi, en ólaunað.

Ég mun láta þessi orð nægja um málið að sinni. Eins og ég gat um í upphafi, er þáltill. um þetta efni flutt á síðasta Alþingi og aftur nú, en hefur ekki hlotið afgreiðslu. Ég vil vænta þess, að sá tími, sem hv. þdm. hafa nú haft málið til athugunar, tryggi því jákvæða afgreiðslu yfirstandandi þings. Það, sem þó sérstaklega eykur á vonirnar um þessa afgreiðslu Alþingis, er, að hæstv. ríkisstj. hefur heitið verkalýðssamtökunum því, að málið skuli ná fram að ganga.

Að svo mæltu óska ég eftir, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til heilbr.- og félmn.